Þjóðhátíðardagur í 6 gráðum

Úlpur, húfur og vettlingar eru málið!
Mynd : Oddný Björk Daníelsdóttir
Mynd : Oddný Björk Daníelsdóttir

Hátíðarhöld þjóðhátíðardagsins fóru fram með pompi og pragt eins og Seyðfirðingum er von og vísa. Dagurinn hófst að venju í kirkjugarðinum, þar sem lagður var blómsveigur að leiði Björns Jónssonar frá Firði. Krakkahlaup hófst í hafnargarðinum klukkan 11, þar sem vaskir hlauparar á öllum aldri tóku þátt og stóðu sig vel. Eftir hádegi skaut Jóhann Sveinbjörnsson svo úr fallbyssunni, eins og myndin sýnir, við mikinn fögnuð áhorfenda og svo var skrúðgengið inn að kirkju þar sem fram fór hátíðardagskrá. Babú-bílar stóðu sína pligt og keyrðu ansi marga hringi um bæinn með tilheyrandi ljósum og látum og kaffihúsin buðu upp á glæsilegar veitingar í tilefni dagsins.

Að lokinni hátíðardagskrá opnaði muna- og myndasýning El grillo félagsins í Herðubreið. Sýningin var haldin að tilefni þess að í ár voru 75 ár liðin síðan olíuskipinu El Grillo var sökkt í firðinum. Sýningin verður opin alla virka daga í júní frá klukkan 11 -16. Helgaropnanir verða auglýstar sérstaklega.

Þjóðhátíðardagurinn var því bara hinn allra besti á Seyðisfirði, þrátt fyrir 6 gráðurnar sem okkur voru skaffaðar.

 El Grillo félagið

Jóhann Sveinbjörnsson, Hermann Svavarsson og Friðrik Aðalbjörnsson 
- hluti af meðlimum félagsins ásamt Dagnýju Erlu Ómarsdóttur.

 

Blakdeild Hugins, krakkablaki og Seyðisfjarðarkaupstað eru færðar þakkir fyrir glæsilegt skipulag.