Ferða- og menningarnefnd 07.09.20

Boðað var til fundar ferða- og menningarnefndar mánudaginn 7.september 2020 kl. 14:00 í fundarsal bæjarskrifstofu, Hafnargötu 44.

 

Mætt:

Tinna Guðmundsdóttir, formaður L-lista í gegnum fjarfundarbúnað Teams,

Oddný Björk Daníelsdóttir, varaformaður D-Lista,

Sesselja Hlín Jónasardóttir, frá ferðaþjónustu,

Arnbjörg Sveinsdóttir, frá menningargeira,

 

Hanna Christel Sigurkarlsdóttir og Julia Martin, frá kl. 14:00-14:30 undir lið 1,

Zuhaitz Akizu, frá kl. 14:30-15:00 undir lið 2.

 

Dagskrá:

Formaður óskar eftir því að bæta við bókun vegna þeirra tímamóta sem nefndin stendur á sem afbrigði við dagskrá. Samþykkt samhljóða og fært aftast í dagskrá.  

 

1. Skaftfell – myndlistarmiðstöð Austurlands

Skaftfell hefur fyrir löngu sannað sig sem lykilstofnun í menningar- og fræðslustarfssemi, bæði á Austurlandi og á landsvísu. Ekki fengust 15 milljónir af fjárlögum til Skaftfells á þessu ári eins og árið áður. Hefur það gríðarlega neikvæð áhrif á rekstrarniðurstöðu miðstöðvarinnar. Staðan er grafalvarleg og stefnir í að loka þurfi miðstöðinni 1. nóvember 2020, fáist ekki auka fjármagn.
„Nefndin hvetur sveitarfélagið til þess að leita leiða til þess að aðstoða miðstöðina við að brúa bilið til loka árs. Mikilvægt er að fundin verði lausn á framtíðar rekstrarforsendum miðstöðvarinnar og að reksturinn standi á jöfnu við aðrar menningarmiðstöðvar í hinu nýja sveitarfélagi“.

Nefndin minnir á að skipa þarf nýjan fulltrúa í nýja stjórn Skaftfells eftir að nýtt sveitarfélag hefur störf, en núverandi fulltrúi SFK gefur áfram kost á sér.

 

2. Tækniminjasafn Austurlands

Mikil skipulagsvinna hefur átt sér stað í innra og ytra starfi safnins. Vandi Tækniminjasafns Austurlands er þó mikill og er ljóst að fara þarf í mikla fjáröflunar- og skipulagsvinnu varðandi rekstur og faglega starfsemi safnsins. „Nefndin hvetur hið nýja sveitarfélag til þess að leita leiða til þess að aðstoða Tækniminjasafnið varðandi húsakost þess og geymslurými. Mikilvægt er að fundin verði lausn á framtíðar rekstrarforsendum safnsins og að reksturinn standi á jöfnu við önnur söfn í nýju sveitarfélagi“.
Nefndin minnir á að skipa þarf nýjan varamann í stjórn safnsins eftir að nýtt sveitarfélag hefur störf. Nefndin tilnefnir Tinnu Guðmundsdóttur.

 

3. Starfsáætlanir og fjárhagsáætlun 2021

3.1. Tjaldsvæði
„Ljóst er að tekjubrestur hefur orðið á rekstri tjaldsvæðisins í kjölfar covid-19 og nefndin hvetur bæjarráð til þess að skoða útvistun á rekstri þess“.

3.2. Upplýsingamiðstöð
Mikilvægt er að viðhalda þjónustu- og upplýsingagjöf fyrir ferðamenn árið um kring, sérstaklega á veturna vegna færðar yfir Fjarðarheiði.

3.3. Bókasafn
Starfsáætlun lögð fram til kynningar.

3.4. Herðubreið
Starfsáætlun og framtíðarsýn lagt fram til kynningar.

3.5. Menningarmál
Skýrsla með yfirliti yfir menningarstarfsemi bæjarins lögð fram til kynningar. Nefndin ítrekar bókun sína frá 10. febrúar 2020 „Nefndin leggur til að í nýju sveitarfélagi verði sérstaklega hlúð að menningarstarfsemi á Seyðisfirði og gerðir verði samningar við stofnanir og viðburði sem eru samningslausir.
Mikilvægt er að grasrótarstarf og sjálfstæð verkefni fái áfram góðan stuðning í nýju sveitarfélagi og tryggðir verði samningar til 3-5 ára, hið minnsta.

Stofnanir og hátíðir sem fest hafa sig í sessi í seyðfirsku menningarlífi eru
flestar fjársveltar og mikilvægt er að tryggja rekstrargrundvöll þeirra.
Nefndin telur það mjög mikilvægt að menningarfulltrúi verði starfandi áfram á Seyðisfirði“.

 

4. Bláa kirkjan

Ársskýrsla og lokauppgjör vegna 2020 lagt fram til kynningar.

 

5. Framkvæmdasjóður ferðamannastaða

Samþykkt að sækja um betra aðgengi að Bjólfi og í Fjarðarselshring.

 

6. Húsasaga Seyðisfjarðarkaupstaðar

Húsasagan er nú til sölu í Upplýsingamiðstöðinni, á vefsíðu Seyðisfjarðarkaupstaðar og von bráðar einnig hjá Pennanum/Eymundsson. Farið verður í átak fyrir jólin.

 

7. Viðburðir

Fastir dagskrárliðir verða á dagskrá, og munu taka mið af gildandi samkomutakrmörkunum.

 

8. Haustfundur
Vegna dræmra undirtekta og sérstakra aðstæðna í samfélaginu hefur nefndin ákveðið að aflýsa árlegum opnum haustfundi ferða- og menningarnefndar. Nefndin hvetur aðila í ferðaþjónustu til þess að mynda með sér hagsmunasamtök og vera þannig þrýstiafl um málefni ferðaþjónustunnar gagnvart stjórnvöldum.

 

9. Síðasti fundur ferða- og menningarnefndar Seyðisfjarðarkaupstaðar

Nefndin fundar nú í hinsta sinn og vill nota þessi tímamót til að þakka öllum þeim sem hafa komið að uppbyggingu menningar- og ferðaþjónustu í Seyðisfjarðarkaupstað. Á þessu tímabili hafa þessar atvinnugreinar vaxið úr árstíðabundinni vertíð yfir í heilsársstarfsemi sem fjöldi Seyðfirðinga byggir sitt lífsviðurværi á. Það er spennandi verkefni fyrir nýtt sveitafélaga að hlúa að þessum mikilvæga faglega grunni sem hefur byggst upp og við hvetjum það til dáða á þeim vettvangi.

 

 

Fundi slitið kl. 17.34