Fjarðarheiðagöngum flýtt

Endurskoðuð samgönguáætlun

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgönguráðherra, kynnti í Norræna húsinu í Reykjavík í morgun drög að endurskoðaðri samgönguáætlun. Þar sagði hann að Fjarðarheiðargöngum, milli Egilsstaða og Seyðisfjarðar, verði flýtt og framkvæmdir við þau hefjast árið 2022 - á fyrsta tímabili endurskoðaðrar samgönguáætlunar. Áður höfðu göng til Seyðisfjarðar verið á þriðja tímabili samgönguáætlunar.

Göngin verða fjármögnuð bæði með framlagi úr ríkissjóði og með veggjöldum. Kostnaður er áætlaður 35 milljarðar en dreifist á 7 ára framkvæmdatíma.

Einnig sagði hann frá því að framkvæmdir við göng frá Seyðisfirði til Mjóafjarðar og áfram til Norðfjarðar verða samkvæmt áætluninni á þriðja tímabili 2030-2034 en þau eiga að kosta 31 milljarð.

Drögin eru kynnt í samráðsgátt stjórnvalda og verður opið fyrir athugasemdir og ábendingar til og með fimmtudeginum 31. október 2019. Drögin á eftir að samþykkja í Alþingi.

Fréttin er fengin af vef RÚV.