Fréttatilkynning frá bæjarstjóra

Á R Í Ð A N D I skilaboð
Myndasafn SFK
Myndasafn SFK

Að gefnu tilefni upplýsist það að síðustu dagar hafa verið annasamir hjá stjórnsýslunni vegna COVID-19. Sérstaklega vegna fundarhalda og upplýsingastreymis alls konar sem og við að virkja viðbragðsáætlanir og að efla sóttvarnir hverskonar. Viðbragðsáætlun fyrir Seyðisfjarðarkaupstað hefur verið gefin út og dreift á alla forstöðumenn stofnana bæjarins. 

Seyðisfjarðarskóli verður með starfsdag á mánudaginn þar sem skólastarf næstu vikna verður skipulagt. LungA Skólinn mun starfa áfram þar sem nemendur eru undir 20.  Ljóst er að takmarka þarf samkomur í Herðubreið og verður það skoðað á mánudaginn hvernig starfseminni verður háttað á meðan samkomubannið varir. Ekki hefur verið tekin ákvörðun um að takmarka aðgengi að íþróttahúsinu, bókasafni eða Sundhöll en það verður skoðað á mánudaginn. 

Norræna mun ekki sigla með farþega til okkar út mars. Hafnarstjóri og yfirhafnarvörður áttu fund með skipstjóra og Jóhan af Reyni á miðvikudaginn þar sem farið var yfir ýmis atriði er snerta COVID-19. Bæjarstjóri situr alla þá fundi sem Almannavarnarnefnd Austurlands og Lögregluembættið stendur fyrir en þeir hafa verið einu sinni í viku  síðan í janúar.

Fundur í stjórn Cruise Iceland var haldinn laugardaginn 14. mars þar sem farið var yfir stöðu mála hvað komur skemmtiferðaskipa varðar. Enn sem komið er þá hafa ekki verið afbókanir sem neinu skiptir, en það er margt óljóst á þessari stundu  og verður fylgst vel með framvindu mála á þessum vetvangi. Skipakomur til Íslands aukast verulega seinnihluta maí. 

Bæjarbúar eru hvattir til þess að fylgjast vel með tilkynningum sem birtast m.a. hér á vefsíðu kaupstaðarins. Sjá hér fyrir ofan krækju á vef landlæknis.  

Bæjarstjóri.