Hafnarmálaráð 21.03.16

3. fundur í hafnarmálaráði Seyðisfjarðar 2016 

Mánudaginn 21.03.16 var haldinn fundur í hafnarmálaráði Seyðisfjarðar á  skrifstofu kaupstaðarins að Hafnargötu 44.  Hófst  fundurinn kl. 13:30.

Mætt:  Adolf Guðmundsson, Unnar Sveinlaugsson, Þórunn Hrund Óladóttir og hafnarstjóri sem ritaði fundargerð.

Fundargerðin var færð í tölvu.

Gerðir fundarins.

1. Strandarsíldarbryggja.

Tekin fyrir beiðni Byggðastofnunar frá 8. janúar um leyfi til niðurrifs Strandarsíldarbryggju.

Hafnarmálaráð samþykkir að heimila Byggðastofnun niðurrif bryggjunnar með þeim skilyrðum að gengið verði með viðurkenndum varanlegum hætti frá landvegg þannig að ekki sé hætta á landrofi vegna sjógangs. Haft verður samráð við siglingasvið Vegagerðarinnar um fráganginn.

2. Erindi:

2.1. Umhverfisstofnun 14.03.16. Eftirlit með móttöku úrgangs og farmleifa frá skipum.

Í erindinu er gerð grein fyrir hlutverki Umhverfisstofnunar við eftirlit með móttöku úrgangs og farmleifa frá skipum í höfnum landsins og að eftirliti af hálfu stofnunarinnar fari fram að lágmarki á 5 ára fresti. Upplýst er um að stofnunin áformar að eftirlit fari fram í Seyðisfjarðarhöfn í apríl 2016. Lagt fram til kynningar.

3. Ársreikningur hafnarsjóðs fyrir árið 2015.

Lögð fram drög að ársreikningi Hafnarsjóðs fyrir árið 2015.

Hafnarmálaráð samþykkir drögin og vísar þeim til fyrri umræðu í bæjarstjórn.

4. Samningar hafnarsjóðs og P/F Smyril Line.

Á fundinn undir þessum lið mætti Linda Björk Gunnlaugsdóttir framkvæmdastjóri Smyril Line cargo á Íslandi. Linda kynnti hugmyndir og óskir P/F Smyril Line um afslætti og lækkun hafnargjalda vegna siglinga félagsins. Jafnframt rætt um starfsemi Smyril Line Cargo á Seyðisfirði, húsnæðismál og aðstöðu vegna hennar.

5. Sjóvörn við Sunnuver og Hafsíld.

Vegagerðin áformar að mæla svæðið vegna sjóvarna fljótlega.

Hafnarmálaráð staðfestir þátttöku hafnarinnar við framkvæmdina. Jafnframt samþykkir hafnarmálaráð að óska eftir við Vegagerðina að hún framkvæmi samhliða mælingunum úttekt á nauðsynlegum frágangi vegna niðurrifs Strandarsíldarbryggju. Einnig frumúttekt á sjóvörnum á Vestdalseyrinni og austan við löndunarbryggju við frystihús Gullbergs ehf.

6. Áhaldahús Ránargata 2 viðhald.

Lögð fram lausleg kostnaðaráætlun um viðgerðir á og í áhaldahúsinu.

„Samþykkt að vinna að viðgerðum á forsendum hennar“.

 

Fleira ekki tekið fyrir og fundi slitið kl. 16:43.