Hátíðarræða bæjarstjóra

Jómfrúarræða Aðalheiðar sem bæjarstjóra
Mynd : Ómar Bogason.
Mynd : Ómar Bogason.

Kæru bæjarbúar og gestir

Gleðilega þjóðhátíð

 

Það er mér mikill heiður að fá að tala hér í dag.

Að vera fyrsta konan til að gegna hlutverki bæjarstjóra á Seyðisfirði er svolítið sérstakt fyrir mér. Ég hef átt mér margar góðar fyrirmyndir sem hafa kennt mér að það að vera kona stendur ekki í vegi fyrir því að starfa við hvað sem er. Hvort sem það er á vélunum í frystihúsinu, við suðu í smiðjunni, sem tónlistarkona eða bæjarstjóri.

Ég er tilfinningarík manneskja. Að skilja eða finna til með annarri manneskju er mér því mikilvægt. Ég átti svolítið erfitt með að fóta mig í heimi pólitíkurinnar fyrstu mánuði í starfi. Ég hef komið mér upp teflon húð og pólitísk ónot hrökkva nú af mér eins og vatn. Starfið er krefjandi og spennandi um leið, fullt af áskorunum og áhugaverðum tækifærum.

Að standa hér í dag, á 75 ára afmæli lýðveldisins leiðir huga minn að því að margar formæður mínar þurftu að berjast fyrir rétti sínum til að kjósa. Það eru rúm hundrað ár síðan konur fengu kosningarétt. Það er grundvallarfosenda lýðræðisins að hafa kosningarrétt og fyrir hann getum við öll verið þakklát.

Bríet Bjarnhéðinsdóttir, sú kjarnakona, mætti mikilli mótspyrnu og má þakka henni og fleiri konum að konur á Íslandi fengu kosningarétt. Hún var afar umdeild á sínum tíma. Ég tel við hæfi að minnast hennar hér og nú. Bríet ásamt fleiri konum, stóð fyrir fyrsta kvennaframboðinu á Íslandi. Hún var einnig stofnandi Kvennablaðsins árið 1895 en það tímarit var hennar aðalvopn til að vekja konur til vitundar um réttleysi sitt.

Eftirfarandi orð voru rituð í Kvennablaðið í febrúar árið 1913:

Sýnum öllum landslýð, að í þessu máli séum vér sameinaðar. Auðugar og fátækar konur, ungar og gamlar, mentaðar og fákunnandi, yfirstéttakonur og alþýðukonur! tökum allar saman höndum, ritum allar sem ein undir þá áskorun til þingsins í sumar, að það breyti nú þegar stjórnarskránni þannig, að vér fáum sömu stjórnarfarsréttindi sem karlmenn. Látum ekkert aftra okkur að vera með, því sameinaðar sigrum vér, en sundraðar föllum vér.“

Þessi orð vil ég gera að mínum, ég tel afar mikilvægt að við bæjarbúar, ekki bara konur heldur við öll stöndum þétt saman, því sameinuð stöndum vér, en sundruð föllum vér.

Barátta þessara kvenna var og er gríðarlega mikilvæg og við skulum ekki gleyma þeim sem lögðu grunninn að lýðræðinu.

Seyðisfjörður hefur upp á mjög margt að bjóða, tækifærin til að sækja fram eru óteljandi. Við þurfum að taka hugarfarið þangað. Horfa frekar á tækifærin heldur en ógnanir og veikleika. Við eigum mikinn mannauð, sérstaklega í ungu fólki. Unga fólkið þarf góðar fyrirmyndir, sterkt bakland og uppörvun. Við sem eldri erum getum fært þeim það. Kröfur um allskyns búnað, aðstöðu og leiðsögn er oft á tímum umfram það sem sveitarfélag af þeirri stærðargráðu sem Seyðisfjarðarkaupstaður er getur uppfyllt.

Þrátt fyrir það hefur eldmóður einstaklinga oft borið okkur miklu lengra heldur en fjármunir. Sjálfboðavinna foreldra og annarra í kringum íþróttir, menningu og listir bera vitni um það. Ég vona að það hverfi aldrei að samfélagsvitund og ábyrgð verði í okkar blóði. Það er einmitt það sem drífur okkar ágæta samfélag áfram. Við verðum líka að hafa kjark til þess að fara ótroðnar slóðir, hugsa út fyrir boxið og að þora. Það tel ég að einkenni Seyðisfjörð í dag umfram annað. Við erum samfélag sem hefur farið ótroðnar slóðir, tekið áhættu og verið umfram annað skapandi í hugsun. Ég vona svo sannarlega að okkur beri gæfa til þess að hlúa að því.

Við unga fólkið okkar vil ég segja þetta. Látið ykkur dreyma, ekki láta úrtölur um eitthvað annað aftra ykkur í að ná í það sem þið viljið. Vinnið að því sem þið trúið á og verið þið sjálf. Nú á tímum flokkunar og ímyndarmaníu er oft erfitt að standast kröfur instagram, faceboook, snapchat og þess háttar. Takið ykkur frí frá því, prófið að sleppa því að vera með símann með ykkur alla daga, spjallið við fullorðna fólkið, spjallið við þá sem þið þekkið ekki, gangið á fjöll, stundið íþróttir, útivist, listsköpun og allt sem hugurinn girnist. Fræðist, farið í ferðalög, kynnist öðrum menningarheimum, lærið að lifa og njóta.

Þið eruð framtíðin, þið munið landið erfa.

Sameiningaviðræður hafa staðið yfir milli Djúpavogshrepps, Fljótsdalshéraðs, Borgarfjarðarhrepps og Seyðisfjarðarkaupstaðar. Það er nú varla hægt að standa hér án þess að minnast á það. Nú hefur tillaga verið lögð fram er varðar sameininguna. Fyrir mörgum er þetta mikið tilfinningamál, ég er ein af þeim sem er ekki alveg sannfærð um að þetta sé það rétta en um leið er ég sannfærð um að það sé ekkert annað í stöðunni. Mikil þversögn í því en ég er viss um að mörgum sé þannig innanbrjósts. Þetta er stórt skref, eitt það stærsta sem tekið hefur verið varðandi framtíð kaupstaðarins nú á seinni tímum.  

Það er í okkar höndum að ákveða hvernig okkur verður best borgið innan eða utan sameinaðs sveitarfélags. Vöndum okkur vel áður en við tökum ákvörðun, kynnum okkur hvaða þýðingu sameiningin hefur fyrir okkur og hvaða þýðingu það hefur í för með sér ef við höfnum sameiningu. Á vefsvæði kaupstaðarins er að finna krækju í vefsíðu sameiningarnefndarinnar þar sem allar upplýsingar hafa verið settar fram varðandi framtíðarsýn, áskoranir og sameiginlegan fjárhag svo eitthvað sé nefnt. Ég hvet ykkur til að mæta á fundi, spyrja spurninga á réttum stöðum. Látið skoðanir ykkar í ljós þar sem þær fá áheyrn. Tölum saman af virðingu, virðum skoðanir hvers annars, sýnum samkennd.

Þá langar mig að tala aðeins um samkennd, hvort er sem um er að ræða heimsálfu, heila þjóð eða okkar litla samfélag er mikilvægt að sýna samkennd gagnvart hvort öðru. Danir kenna börnum sínum samkennd í skólum, einu sinni í viku. Fyrir stuttu fékk Kári Stefánsson hjá íslenskri Erfðagreiningu til sín merkan fræðimann að nafni Simon Baron-Cohen, prófessor í þróunarsálfræði sem rannsakað hefur mannlega illsku. Hann skilgreinir illsku sem skort á samkennd.

Fólk getur haft litla samkennd, í meðallagi eða óvanalega mikla samkennd sagði Baron Cohen í erindi sínu. Það er manninum mikilvægt að skilja sjálfan sig sem dýrategund og samkenndin skiptir ótrúlega miklu máli í mannlegum samskiptum.

Ég hef hugsað meira um þetta upp á síðkastið þar sem ég hef kynnst nýrri hlið á samskiptum og samstarfi við alls konar fólk í mínu nýja starfi. Í mínu starfi er afar mikilvægt að kunna skil á stjórnsýslu, en ég tel ekki síður mikilvægt að kunna skil á samkennd og að efla hana með sér. Samkennd er að geta sett sig í spor annarra, að sýna samkennd er að vera til staðar, að sýna samkennd er að hlusta með athygli og að bjóða fram aðstoð. Eins og lýðræðið er mikilvægur grunnur að lýðveldinu er samkenndin grunnurinn að samskiptum milli manna.

Að lokum vil ég þakka þeim kröftuga hópi blakara sem hafa séð um að skipuleggja dagskrá dagsins, þið eruð frábær. Ég tel við hæfi að gefa þeim gott klapp. 

Njótið dagsins.

Takk fyrir.