Hugmyndasamkeppni – Gamla ríkið, Hafnargötu 11, Seyðisfirði

Umsóknarfrestur til 15. september!

Húsnæðið sem nú kallast „Gamla ríkið“ að Hafnargötu 11, Seyðisfirði, var byggt árið 1918 fyrir verslunarrekstur og þykir hafa mikið sögulegt gildi varðandi stíl, gerð og þá starfsemi sem í því hefur verið um langt skeið. Lengst af hefur verslun ÁTVR verið þar eða frá 1959 og eru afgreiðsluborð og hillur í húsinu með elstu og heildstæðustu verslunarinnréttingum á landinu. Innréttingarnar eru úr verslun Konráðs Hjálmarssonar í Mjóafirði sem byggð var skömmu fyrir aldamótin 1900, en teknar niður um 1918 og hafa verið í „Ríkinu“ alla tíð síðan. Eftir u.þ.b. 50 ára afnot hætti ÁTVR starfsemi í húsinu. Hefur verið talið mikilvægt að húsið og innréttingin sem í því er fái eftir sem áður notið sín til framtíðar og verði til sóma innan um önnur gömul hús á Seyðisfirði.

Ríkissjóður hefur afsalað sér húsinu til Seyðisfjarðarkaupstaðar og með húsinu veitt 100 milljónum til endurgerðar á ytra byrði hússins, og endurgerð á gluggum, hurðum, rafmagns- og pípulögnum sem og endurgerð verslunarinnréttinganna. Með húsinu fylgja þær kvaðir að aðgangur að verslunarinnréttingunum þarf að vera opinn fyrir bæjarbúa amk. yfir sumarmánuðina.  Minjavernd sér um alla hönnun og eftirfylgni fyrir ríkissjóð. Stefnt er að því að húsið verði tilbúið til afhendingar ári eftir að endurbætur hefjast. Rekstraraðilar geta mögulega komið að hugmyndum varðandi innanhúss skipulagi hússins að undanskildu verslunarrými.

Hér er um mjög spennandi verkefni að ræða fyrir áhugasama.

Þeir aðilar sem hafa áhuga og sækjast eftir því að taka þátt í verkefninu þurfa að skila eftirfarandi gögnum inn til sveitarfélagsins sem fyrst eða í síðasta lagi fyrir miðnætti 15. september 2020 :

1. Lýsing á fyrirhugðum rekstri, rekstrarformi og starfsemi.

2. Markmið og hugmyndafræði starfseminnar.

3. Gróf rekstraráætlun. 

4. Fjármögnunaráætlun vegna uppbyggingar innanhús. 

Aðaluppdrættir liggja fyrir og geta umsækjendur óskað eftir afriti af þeim sem og frekari upplýsingum varðandi verkefnið hjá bæjarstjóra í gegnum netfangið adalheidur@sfk.is

Umsækjendur þurfa að skila umsókn og fylgigögnum inn rafrænt til bæjarstjóra í tölvupósti á netfangið adalheidur@sfk.is merkt „GAMLA RÍKIГ fyrir miðnætti 15. september 2020.

Seyðisfjarðarkaupstaður áskilur sér rétt til að taka hverri umsókn sem er eða hafna öllum.