Hvatingarverðlaun Hugins
Síðustu ár hefur skapast sú hefð að kjósa íþróttamann Hugins á þjóðhátíðardaginn. Aðalstjórn félagsins ákvað að breyta aðeins til í ár og efna til hvatningarverðlauna, þar sem fólk var hvatt til að kjósa einstakling, hóp, félagasamtök og þess háttar sem hafa lagt sitt af mörkum til íþrótta og lýðheilsu undanfarin ár.
Flest atkvæði fékk Krakkablak Hugins og fengu þau Hvatningarverðlaunin afhent við hátíðlega athöfn á 17. júní. Það má því segja að krakkablakararnir okkar séu íþróttamenn Hugins og vel að því komin. Við Seyðisfjarðarskóla eru rúmlega 70 börn og eru iðkendur í krakkablaki um 50 talsins, þannig að þetta starf er gríðarlega öflugt og mikilvægt. Covid-tímabilið setti strik í reikninginn í vor en það var magnað að sjá jákvæðnina hjá krökkunum og hversu vel þau tóku því, æfðu sig heima og mættu síðan glöð og fersk aftur á æfingar í maí.
Svona íþróttastarf stendur ekki eitt heldur er mikilvægt að hafa góða þjálfara, öflugt foreldrasamstarf og sterka stjórn að baki sér og vonandi gefa þessi verðlaun starfinu byr undir báða vængi og að efla megi enn frekar gott starf með börnunum.
Til hamingju krakkablak Hugins!