Kosningar afturkallaðar

Ekki kosið 18. apríl 2020

Ríkislögreglustjóri og sóttvarnalæknir hafa mælst til þess, í ljósi samkomubanns og óvissuástands vegna útbreiðslu Covid-19, að fallið verði frá kosningum í nýju sameinuðu sveitarfélagi á Austurlandi sem halda átti 18. apríl næst komandi. Nýr kjördagur hefur ekki enn verið ákveðinn.

Undirbúningsstjórn Borgarfjarðarhrepps, Djúpavogshrepps, Fljótsdalshéraðs og Seyðisfjarðarkaupstaðar kom saman í gær, miðvikudag, til að ræða tilmælin. Niðurstaða fundarins var tillaga um að fresta kosningunum. Sveitarstjórnir allra sveitarfélaganna fjögurra þurfa að samþykkja tillöguna og hafa bæjarstjórnir Fljótsdalshéraðs, Djúpavogshrepps og Seyðisfjarðarkaupstaðar samþykkt við ritun þessarar fréttar. Tillagan þarf síðar staðfestingu samgönguráðherra og Alþingis.

Samkvæmt Birni Ingimarssyni, bæjarstjóra Fljótsdalshéraðs og formanns undirbúningsstjórnarinnar, kemur undirbúningsstjórnin saman þegar óvissuástandinu léttir og leggur þá til nýjan kjördag. 

Frétt unnin úr frétt af austurfrett.is