Nýjar vísbendingar um torfbyggingar

Á svæði væntanlegra ofanflóðavarnargarða
Mynd frá Rannveigu Þórhallsdóttur.
Mynd frá Rannveigu Þórhallsdóttur.

Fornleifafræðingar hjá fyrirtækinu Antikva ehf. hafa í sumar verið að grafa könnunarskurði í landi Fjarðar í Seyðisfirði, til að kanna fornleifar á svæðinu áður en hafist verður handa við framkvæmdir vegna gerðar þriggja ofanflóðavarnargarða. Árið 1885 féll stórt snjóflóð á svæðinu sem grandaði 24 mönnum. Um 60 manns var bjargað en nokkrir urðu örkumlaðir fyrir lífstíð. Margir misstu jafnframt aleigu sína og var gengist fyrir samskotum á Íslandi, Noregi og Danmörku til að hjálpa bágstöddum. Fyrri fornleifarannsóknir á svæðinu (árið 1998) undir stjórn Guðmundar Ólafssonar gáfu til kynna að í landi Fjarðar væru fornleifar frá landnámi og því var mikilvægt að kanna umfang fornra minja á svæðinu, sem og að skoða ummerki um snjóflóðið 1885.

Rannsóknirnar í ár hafa gengið vel. Fundist hafa vísbendingar um að þrjár torfbyggingar hafi staðið á framkvæmdarsvæði ofanflóðarvarnargarðanna, tvær nálægt bæjarhóli Fjarðar og það þriðja í norðurhluta svæðisins. Bráðabirgðaniðurstöður gjóskulagagreininga gefa til kynna að byggingarnar gætu hafa verið reistar annars vegar á bilinu 940-1160 og hins vegar fyrir 1477. Einnig hefur fundist mannvist sem gæti verið frá 12. öld á 110 cm dýpi undir aurskriðu í bæjartúninu sem virðist hafa fallið fyrir árið 1477. Engar sögulegar heimildir virðast vera til um skriðuna, en af ummerkjum í jarðveginum að dæma hefur aurskriðan verið gríðarlega stór. Fornleifafræðingar munu í haust vinna í samstarfi við Veðurstofu Íslands að greiningu á umfangi skriðunnar. Stefnt að heildaruppgrefti á mannvirkjunum vorið 2021.