Stór og mikill júlímánuður

125 ára afmælishátíð, LungA afmæli, bryggjuhátíð, 100 milljónir og fleira
Bæjarstjórinn tók lagið með Björtum sveiflum á opnunarhátíð 125 ára afmælis kaupstaðarins.
Bæjarstjórinn tók lagið með Björtum sveiflum á opnunarhátíð 125 ára afmælis kaupstaðarins.

Júlímánuður var stór og viðburðaríkur á Seyðisfirði þrátt fyrir Covid . Hér verður stiklað á því helsta.

Fyrst ber að nefna afmælishátíð kaupstaðarins, í tilefni af 125 árum hans. Vegna covid-19 var ákveðið að halda lágstemmda opnunarhátíð laugardaginn 18. júlí, þar sem gestum var meðal annars boðið upp á kaffi og afmælisköku í Herðubreið. Bæjarstjóri, Þóra Guðmundsdóttir höfundur Húsasögu Seyðisfjarðarkaupstaðar, Björt Sigfinnsdóttir framkvæmdastjóri LungA og Þorvaldur Jóhannsson fyrrverandi bæjarstjóri og skörungur héldu ræður í tilefni dagsins. Barnvænar handverkssmiðjur voru í boði Tækniminjasafnsins og LungA. Þær fóru fram í HEIMA, Herðubreið og Tækniminjasafninu og var þátttaka með eindæmum góð.

Húsasaga Seyðisfjarðar, 2. útgáfa, var sett í sölu þennan sama dag. Þóra Guðmundsdóttir sat og áritaði bækur í marga klukkutíma og seldist bókin eins og heitar lummur. Hér má fá upplýsingar um hvernig hægt er að kaupa bókina.

LungA fagnaði einnig 20 ára afmæli sínu í júlí, á mun lágstemmdari hátt en áætlað hafði verið í upphafi árs, og vann með undirbúningsnefnd afmælishátíðarinnar og Tækniminjasafni Austurlands að því að bjóða upp á hina ýmsu viðburði frá 18.–25. júlí.

Boðið var til veisluhlaðborðs í útikennslustofu þar sem gestum og gangandi var boðið upp á forrétti úr firðinum, leiksýningin Skarfur var sýnd í Herðubreið, í Sundhöll Seyðisfjarðar var boðið upp á Vatnalilju watsu auk þess sem Bryggjuhátíð Tækniminjasafnsins var haldin, lágstemmd en hátíðleg. Að auki mátti upplifa fjölda annarra sýninga, tónleika og minni viðburða þessa afmælisviku.

Flugvallarhlaup fór fram í fyrsta sinn þann 25. júlí, en 15 þátttakendur tóku þátt í því. Boðið var upp á tvær vegalengdir 8,5km og 10km. Hlaupið var unnið í samvinnu við Íþróttafélagið Huginn og runnu þátttökugjöld til barna- og unglingastarfs.

Afmælisvikunni lauk svo á því að Herðubíó opnaði formlega sunnudaginn 26. júlí. Vegna covid-19 hafa því miður ekki verið sýndar fleiri kvikmyndir, en Seyðfirðingar geta óhræddir beðið spenntir eftir því sem koma skal.

Þann 23. júlí afhenti Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra afsal að Gamla ríkinu við hátíðlega athöfn, en með afsalinu fylgdu 100 milljónir í endurbætur. Í kjölfarið á því var efnt til hugmyndasamkeppni varðandi rekstur og starfsemi hússins. Hér má lesa meira um það.  

Í albúmi má finna skemmtilegar myndir frá eftirtöldum viðburðum. Ljósmyndari Jessica Auer.