Ungmennaráð 03.04.16

2. fundur ungmennaráðs Seyðisfjarðar

Sunnudaginn 3 apríl hélt ungmennaráð Seyðisfjarðar sinn annan fund á heimili Helga Sverris Halldórssonar, varamanns. Formaður stjórnarinnar, Ingibjörg Lárusdóttir var stödd í Kópavogi og því sat hún fundinn í gegnum Skype. Fundurinn hófst 17:22.

Mætt voru: Helgi Sverrir Halldórsson, Emil Smári Guðjónsson, Vilborg Guðnadóttir og Ingibjörg Lárusdóttir. Dagrún Vilborg ekki mætt og Sveinn Gunnþór var staddur á blakmóti fyrir sunnan. Fundaritari er Vilborg Guðnadóttir.

Dagskrá:

1. Hjólabrettavöllur. Helgi Sverrir og Ingibjörg töluðu við Héðinn Sölva og Mikeal Nóa. Þeir vilja hafa hjólabrettavöllinn á Hlíðarvegi í sumar. Ef undirlagið við nýja skóla verður flotað er hins vegar meiri áhugi fyrir að hafa völlinn þar. Rætt var við strákana um að safna styrkjum til að halda áfram að stækka völlinn og gera hann betri. Þeir voru til í það en vilja þá vera í sambandi við okkur um hvað verður pantað fyrir þann pening sem þeir ná að safna.

2. Hugmyndakassinn er kominn upp í kaupfélaginu á Seyðisfirði. Ekkert var komið í hann ennþá þegar varaformaður kíkti og Emil Smári ætlar að setja auglýsingu inn á Facebook síðu grunnskóla Seyðisfjarðar.

3. Félagsmiðstöð. Formaður talaði við Örnu Magnúsdóttur um stöðu félagsmiðstöðvarinnar. Félagsmiðstöðin er með nægan pening til að kaupa nýtt dót. Almennt rætt um áhuga og mætingu krakkanna. Formaður spyr Örnu hvort hún væri til í samstarf milli félagsmiðstöðvarinnar og ungmennaráðsins og líst henni vel á það.

4. Krísa. Krísa er ekki starfandi eins og er en formaður ætlar að skoða aðeins möguleikana á að virkja hana aftur. Formaður hafði samband við krakkana sem voru í Krísu í fyrra. Þau hafa meiri áhuga á að setja eitthvað upp sem er ekki á vegum Þjóðleiks.

Annað:

a. Tillaga um að gera skautasvell á veturna ef grunnur við nýja skóla verður flotaður.  Allri stjórninni leyst vel á það og tók formaður það að sér að tala við Reykjavíkurborg sem hafði skautasvell á Ingólfstorgi í samstarfi við Nova seinasta vetur.

b. Allir á fundinum tóku að sér að reyna að finna einhverja staði sem hægt væri að sækja um styrki með Héðni og Mikael.