Vestdalur

Uppbygging í útivistarparadís

Fyrr á árinu fékkst styrkur frá Framkvæmdsjóði Ferðamannastaða til þess að fara í framkvæmdir vegna uppbyggingar á göngustíg í Vestdal. Verkefnið er hluti af stærra mengi en á undanförnum árum hefur kaupstaðurinn, með styrk frá framkvæmdasjóðnum, unnið að því að bæta aðgengi að vinsælum áfangastöðum og má þá til dæmis nefna leið upp að Búðarárfossi, áningastað við Neðri Staf og stígagerð að Skálanesi og útsýnispall við Skálanesbjörg.

Vinna í Vestdal hefur gengið ágætlega. Erfitt hefur reynst að fá mannskap eins og gert var ráð fyrir í upphafi, en verkið er þó á áætlun. Nú er að mestu búið að setja upp útsýnispalla, kurla og afmarka betur stíga, setja upp tröppur á viðeigandi stöðum ásamt því að vinna að því að græða upp jarðvegsrof á svæðinu.

Verkinu er ólokið og má á næstu vikum sjá áframhaldandi uppbyggingu á svæðinu. Vegna fjölmargra minja á svæðinu hefur verkið verið unnið í samvinnu við Minjastofnun, sem leiðbeinir kaupstaðnum um vissa verkþætti, til að mynda þarf að sérvinna steinþrep við Kirkjustíg.

Verkefni sem þetta er gríðarlega mikilvægt, enda svæðið vinsælt til útivistar og vel þarf að vinna að uppbyggingunni enda eru Vestdalur og Vestdalseyri á náttúruminjaskrá fyrir sérstæðan gróður og menningarminjar. Myndir frá vinnunni má sjá í albúmi.

Vonandi njóta Seyðfirðingar og gestir útivistar á þessum stöðum sem nú hafa, eða eru í, uppbyggingu. Um leið er fólki vinsamlegast bent á að halda sig á stígum, ganga vel um náttúruna og skilja ekki efitr sig rusl.