Viðtal mánaðarins - ágúst

Vinirnir Arnar og Sproti á góðri stundu.
Vinirnir Arnar og Sproti á góðri stundu.

Arnar Klemensson er í ágústviðtali Heilsueflandi samfélags. Arnar þekkja eflaust flestir, en hann er fæddur og uppalinn Seyðfirðingur. Verkefnastjóri fékk að forvitnast um hvernig var að alast upp á Seyðisfirði og hvernig er að vera fluttur aftur heim. Og það sem líklega færri vita, að Arnar tók þátt í Ólympíuleikum fatlaðra í Seoul, í Suður Kóreu, árið 1988.


Viðtal ágúst :

1. Hvernig var alast upp á Seyðisfirði?

Það var dásamlegt. Átti labradorhundinn Perlu sem var besti vinur minn. Hún fylgdi mér í 14 ár þessi elska. Skólagangan var oft á tíðum erfið, þar sem skólinn er mjög gamall. Allur í tröppum og ég á hækjum upp um allar hæðir. Þar lenti ég líka í einelti sem tók oft á. Átti samt mína vini. Missti líka eitthvað úr skóla þar sem ég þurfti að fara suður á landspítalann. Man td ekkert eftir því sem bekkjasystkinin tala oft um þegar við hittumst og þau rifja upp fjörið, já og hvað við vorum alltaf stillt og prúð.

2. Hvaða hreyfingu hefur þú stundað í gegnum tíðina? En í dag?

Hef æft íþróttir frá unga aldri; lyftingar, hjólastólarall, kúluvarp, kringlu og spjótkast. Varð Norðurlandameistari í kúluvarpi. Á eitt Evrópumet í hjólastólaralli og nokkur íslandsmet.

Í dag fer ég út að labba með Sprota. Ég fór reyndar líka 3x yfir Fjarðarheiðna á stólnum.  

3. Hvernig var að keppa á Olympíuleikum, í hverju kepptir þú þar og hvernig gekk?

Ólympíuleikarnir var mögnuð upplifun. Ég keppti í 400m og 800m hjólastólaralli. Komst í úrslit í 800m.

4. Hver er Sproti og hvað er hann búinn að vera lengi hjá þér?

Hann Sproti minn. Hann er aðstoðarhundur, dregur hjólastólinn, sækir allt sem ég missi, fer út með ruslið. Meiningin var samt að hafa hann vegna flogaveiki, hann á að láta mig vita þegar köstin koma. Hann hefur sagt upp því starfi.

5. Hvernig er aðstaða til hreyfingar fyrir fatlað fólk á Seyðisfirði?Hún er að mörgu leiti ágæt. En göngustígar með möl og kurli virka ekki vel. Hvernig mætti bæta hana? Hafa til dæmis malbik eða sand og pressa vel niður. Mér finnst einnig vanta betri gönguleiðir hér í bæ, bæði fyrir gangandi og hjólandi. Sum staðar þarf fólk að vera út á götu. Einnig mætti setja fláa á gangstéttir svo sé auðveldra að fara upp og niður af þeim.

6. Hvernig eru aðgengismál fyrir fatlað fólk á Seyðisfirði? Hvernig mætti bæta þau?

Þau má bæta í alla staði. Til dæmis útihurðar á almenningsstöðum, s.s. íþróttahús og HSA, þar væri hægt að setja pumpur á hurðar. Og fleiri staðir sem vissulega þarf að laga.

Má líka taka fram að Herðubreið er að verða fín og orðið svo glæsilegt fyrir utan.

7. Hvernig er að vera kominn heim? Af hverju aftur Seyðisfjörður?

DÁSEMDIN EIN. Ég missti vinnuna í Mosfellsbæ. Er einn, var ekki með húsnæði eða fjölskyldu. Lét vaða eftir mikið spjall við Selmu systir.

8. Ég veit að þú hefur mikinn áhuga á ákveðnu rafdrifnu fjögurra hjóla „tryllitæki“ - viltu segja aðeins frá tækinu og hvaða auknu lífsgæði það myndi færa þér?

Eins og Þorsteinn læknir sagði: hendur eru ekki til að ganga á, hvað þá í 40+ ár. Ef þetta væri hnjáliður væri bara skipt um. Axlirnar mínar eru alveg búnar, eftir að hafa komið mér allra minna ferða allt mitt líf.

Þetta tæki myndi veita mér svo mikið frelsi. Ég gæti farið um allan fjörðinn okkar fagra án þess að sitja fastur í snjó. Ég er mikill náttúruunnandi og er stundum eins og versti túristi út um allt, tek mikið af myndum og það myndi gefa mér svoooo mikið frelsi að hafa hjólið.

Tækið er því miður mjög dýrt, það kostar milli 3 og 4 milljónir. Hér má skoða fjórhjólið. 

9. Eitthvað sem þú vilt segja að lokum?

Ég elska Seyðis. Takk fyrir mig.

 

Verkefnastjóri HSAM þakkar Arnari kærlega fyrir þátttökuna og óskar honum velfernaðar í öllu því sem hann tekur sér fyrir hendur í framtíðinni. Hann eignast einnig vonandi fjórhjólið, á einn eða annan hátt. Að lokum er skorað á bæjaryfirvöld að taka til athugunar þau atriði sem Arnar nefnir að myndu hjálpa í aðgengismálum. Þau eru ekki öll svo stórtæk, til dæmis hurðarpumpurnar sem myndu hjálpa mikið.

 

Höfundur : Eva Jónudóttir. Óheimilt er að nota efnið, til annars konar fréttaflutnings á öðrum fréttamiðlum, án leyfis höfundar.

hsam