Viðtal mánaðarins - desember

Meira er ekki alltaf betra!
Börn í gönguferð með Unni. Hér fengu þau að sjá bæinn sinn frá öðru sjónarhorni en oftast áður - og …
Börn í gönguferð með Unni. Hér fengu þau að sjá bæinn sinn frá öðru sjónarhorni en oftast áður - og það eftir að hafa sigrað brekkuna.

Það er vel við hæfi að síðasta viðtalið í heilsueflandi viðtalsröðinni sé við Unni Óskarsdóttur, íþróttakennara. Unnur hefur á einn eða annan hátt komið að mörgum, ef ekki flestum, þeim íþróttagreinum sem stundaðar hafa verið á Seyðisfirði undanfarna áratugi.

Sem dæmi má nefna að Unnur hefur séð um Kvennahlaup ÍSÍ á Seyðisfirði frá árinu 1999, hún er formaður Viljans -  íþróttafélags fatlaðra, hún startaði hlaupahópi á sínum tíma og kom mörgum af stað í hlaup, hún hefur kennt á skíði í Stafdal undanfarin áratug, hún byrjaði með íþróttaskóla hér fyrir leikskólaaldur og sá um í 18 ár, hún hefur staðið fyrir jógakennslu til marga ára og gerir enn í samvinnu við Báru Mjöll Jónsdóttur. Hún kennir einnig eldri borgurum og öryrkjum vatnsleikfimi, hún heldur sundnámskeið fyrir leikskólabörn og hún býður upp á skólagarða fyrir skólabörn á sumrin svo eitthvað sé nefnt.


Viðtal desember :

1. Hefur þú alla tíð stundað einhverja hreyfingu? Viltu segja frá.  

Já ég held að það sé rétt, ég hugsa að væri ég barn í dag fengi ég hátt skor í að vera hreyfi ofvirk, þó svo ég eigi auðveldara með að sitja kjurr í dag en þegar ég var yngri, en þá var nánast ómögulegt að stoppa við einhversstaðar.

Ég er svo heppin að þegar ég var barn voru foreldrar mínir mjög dugleg að fara með okkur systur gangandi í fjallið, í berjamó og í skíðaferðir. Við vorum bara krakkar þegar við fórum í fjallaferðir, sem var fyrst til að byrja með bara upp í hvamminn sem stendur hér neðan við húsið okkar, síðan lá leið okkar upp að Botnatjörn eins og sjálfsagt flestra á þessum árum. Ég var líka svo heppin að fá að alast upp hér á Seyðisfirði með ömmu og afa sem var hægt að hlaupa til. Svo átti ég ömmu og nöfnu, Unni, sem gekk mjög mikið og með henni fór ég ófár ferðir gangandi út í Vestdal þar sem uppáhalds staðurinn hennar er. Þá gengum við að heiman og hún bar mig yfir Vestdaldsána og svo fórum við áfram inn í Álfaborgir. Ég var orðin mjög gömul þegar ég fattaði að hún var eldri en ég er í dag þegar þetta gerðist. Þórhildur amma mín smitaði mig líka af þessum gönguáhuga, með henni fór ég samt frekar gangandi út í Strönd og svo kom afi seinniparinn og sótti okkur þegar við vorum búinar að leika okkur í fjörunni einhversstaðar þar. 

Síðan eftir að ég byrjaði í skóla var hreyfingin mín meira handbolti og handboltaæfingar hjá Pétri Bö. Hann þjálfaði okkur líka í frjálsum. Síðar fengum við, það er að segja stelpurnar, að vera með fótboltaæfingar þegar Siggi Þorsteins kom á Seyðisfjörð. Í handboltanum tókum við þátt í Íslandsmóti í 2. fl. minnir mig. Það var skóli í mjög mörgu; fjáröflun, ferðalögum (sem tók allt upp í viku milli Seyðisfjarðar og Dalvíkur einn veturinn), liðsanda og uppbyggingu á liðsheild sem náði til allra þegar æfingar stóðu yfir. Við æfðum á einn teig sem var límdur upp langsum á gólfið í sunhöllinni, þar sem íþróttasalurinn okkar var á veturna. Plássið var ekki mikið en allt var notað.  Á meðan á Íslandsmótinu stóð æfðum við þrisvar í viku og svo var tvöföld æfing á sunnudögum eftir hádegi.

Á þessum árum var pabbi alltaf á skíðum og mjög svo liðtækur í starfi skíðafélagsins. Ég fékk að fara með og hef skíðað hér um allt. Þegar ég var mjög lítil fór ég með honum og mömmu á skíði í brekkunni þar sem húsið okkar hér í Botnahlíðinni stendur núna, þá löbbuðum við að heiman og renndum okkur svo margar ferðir frá klettunum sem standa ofan við húsið og niður að læk. Pabbi átti það til að taka okkur með hærra í fjallið eða langleiðina upp í efri Botna. Þá gengum við í allt að klukkutíma upp frá fótboltavellinum við Garðarsveg með skíðin á öxlinni, það var smápása meðan maður spennti á sig skíðin uppi og renndi sér niður. Það tók svona um fimm mínútur alveg niður á fótboltavöll, þetta var alveg frábært. Þegar við vorum aðeins eldri fórum við sjálf þarna upp.

Annars er hugurinn svo skrýtinn að ég man minnst eftir að vera að keppa, mest man ég eftir skemmtilegum leikjum og útiveru með góðum hópi af fólki á öllum aldri, í bolta mest í drulluforinni á fótboltavellinum, í handbolta úti á Haföldu og seinna á handboltavellinum við skólann. Í fjallinu þá var skíðalyfta úti á Svabbatúni, ofan og innan við Skaftfell. Þar var maður heilu dagana og svo seinna í brekkunni í neðri staf, þar sem Hugins-málaði steinninn er núna. Stundum fengum við vinkona mín að fara með flugrútunni eða snjóbílnum upp á Bæjarbrún og þaðan renndum við okkur svo heim.

Við dönsuðum líka helling hér og þá voru allir saman, eldri og yngri. Hilmar og Erna heitin voru með danshóp þar sem allir voru velkomnir, þau kenndu okkur gömlu dansana og samkvæmisdansa og við kendum þeim það sem við höfðum lært í danskennslu, þetta voru mjög góðar stundir og skemmtilegar. Einnig var spilað hér í sundhöllinni blak á veturna, þar sem allur aldur kom saman. Í skólanum var keppt í hlaupi og sundi á hverju ári. Ég man mest eftir að vera að leika mér í einhverjum íþróttum eða útiveru. Það var skautað á Fjarðaránni og Lóninu flesta vetur, eða úti á Vestdalseyri þar var oft gott skautasvell. 

Svo var sama í Menntaskólanum þar vorum við með hlaupahópa, fótboltalið, handboltalið, körfuboltalið, sem tók þátt í æfingum og mótum. Við æfðum skíði á Fagradal, þegar þangað kom þurfti oftar en ekki að byrja á að moka upp lyftuna og svo að þjappa brekkuna á skíðunum, sem var oft gríðarlega mikið átak.

Strax eftir menntaskóla fór ég í kennslu í Hallormsstaðaskóla, þá hljóp ég í skóginum eða fór á gönguskíði. Einn veturinn var mikið frost og ég upplifði það að skauta þvert yfir fljótið með vinkonum mínum, það var magnað. Ég tók ákvörðun um að verða íþróttakennari þegar ég starfaði í Hallormsstaðaskóla; þegar ég sá að strákarnir sem áttu erfitt með að læra í bókum tóku bækurnar í nefið eftir að hafa verið úti að leika sér í bolta eða klifra í trjám í skóginum áður en þeir settust niður við bækurnar. Stundum held ég að sá greiði sem við foreldrar höldum að við séum að gera börnunum okkar í dag, að keyra þau í skólann og á allar æfingar sé bjarnargreiði. Þau eiga betra með að einbeita sér eftir góða hreyfingu eða æfingar, heldur en kyrrsetu. Það er barnanna vegna sem ég er svo hreykin af að segja að við séum heilsueflandi grunnskóli og samfélag, eftir að heilsueflandi verkefnið festist í sessi hjá okkur í Seyðisfjarðarskóla höfum við tekið þátt í nokkrum hreyfiverkefnum svo sem göngum í skólann, sem er alþjóðaátak í að hvetja börn til að fara gangandi í skólann einn mánuð að hausti, þetta verkefni hvatti mig líka til að ganga í vinnuna og geri ég það enn. Þá reynum við að hvetja þau til að taka þátt með okkur í verkefnum á vegum almenningsíþróttasviðs ÍSÍ sem er lífshlaupið í janúar til febrúar og svo hjólað í vinnuna sem er í maí. Þetta tekst best til þau ár sem við fáum foreldra í lið með okkur og þau hvetja sín börn til dáða.

2. Hver er þín uppáhalds hreyfing og af hverju?

Flest öll hreyfing sem ég gleymi mér í er í uppáhaldi; dans, ganga, hlaup, sund, skíði og einstaka sinnum í yoga. Það fer af stað ákveðið flæði (flow) þar sem þú gleymir stund og stað og líkaminn getur haldið endalaust áfram, þú finnur einhvernvegin að þú ert í senn smábrot af alheiminum og líka gríðarstór hluti hans. Endorfin áhrifin eru það sem maður sækist eftir. Ég var eitt sinn að reyna að segja vini mínum frá þessu og hann kemst í samskonar ástand þegar hann spilar á hljóðfæri. En hann sagði "Unnur ég verð nú bara þreyttur að hlusta á þig". Við sækjum öll í vellíðan á einn eða annan hátt, það er bara spurning um hvar þú finnur þína og hvar ég finn mína. En þegar upp er staðið þá er það jafnvægið, þessi meðalvegur sem svo oft er erfitt að finna, sem kemur manni best og lengst í lífinu og að muna eftir hvíldinni og að svefninn sé góður.

3. Hvernig finnst þér aðstaða til hreyfingar vera við-í-á Seyðisfirði? Viltu útskýra.

Hér á Seyðisfirði er góð aðstaða til fjölbreyttrar hreyfingar, það geta flestir fundið eitthvað fyrir sig. Við höfum enn sundhöllina sem gott er að sækja í þó ég sæki þó meira í að synda úti en inni. Íþróttahúsið okkar er, að mínu mati, mjög van-nýtt. Þegar ég heyri í félögum mínum íþróttakennurum eru fullorðnir oft að fara í salinn þar sem þeir búa eftir kl 20:30 á kvöldin, og þá er búið að loka okkar húsi. Við höfum frábæra aðstöðu til göngu og hlaupa úti og ekki má gleyma skíðasvæðinu okkar, sem er fyrir alla byrjendur og lengra komna, þar eru líka gerð spor fyrir gönguskíðafólk. Göngu-, skokk-, og hjólaleiðir hér bæði utanvegar og innanbæjar. Folfvöll sem er allt of lítið notaður. Gríðarlega flottan golfvöll. Lónið til að sigla á og róa og fjörðinn spegilsléttan á góðum degi.

Aðstaðan er alveg til staðar hér. Ég held að við getum fallið í það að halda ekki nógu vel utanum endurbætur og viðhald jafnt og þétt. Við þurfum að hugsa um aðstöðuna okkar og viðhald á henni eins og líkamann okkar. Ef við gerum þetta í einhverjum skorpum hér og þar, getur það reynst afdrifaríkt í báðum tilvikum.

4. Hvaða íþróttagrein finnst þér skemmtilegast að kenna öðrum?

Mér finnst mjög gaman að leika mér með krökkunum í fjallinu og í vatninu. Það er svo mikil gleði sem brýst út þegar maður er að kenna/leika sér með börnum og ég segi oft að ég er heppnust að fá að vera að leika mér með þeim, þau kenna mér oft meira en ég kenni þeim.

Það er engin ein grein umfram aðra sem mér finnst skemmtilegast að kenna. Að kenna íþrótt er svo ótrúlega fjölbreytt, það fer allt eftir því hvaða aldri þú ert að kenna og hver er tilgangurinn með kennslunni. Það eru allir litlu sigrarnir sem fólkið sem þú ert að kenna upplifir sem mér finnst dásamlegastir. Því það að segja þér, að þú getir eitthvað, er allt annað en að þú getir það sjálf. Eins og að vökva blóm svo það geti lifað og blómstrað sjálft, þú bara passar að vökva það og dáðst að því í kærleik.

5. Hvaða aldri er mest gaman að vinna með og af hverju?

Öllum aldri finnst mér, það er bara að ná að virkja gleðina og að geta haft aðeins gaman af sjálfum sér og öðrum í gegnum það sem maður er að kenna. Það er samt ekki þar með sagt að það sé eins að kenna öllum aldri, það er mjög mikill munur.

Í fjallinu er ég með hóp á sunnudögum sem kallast Ævintýraskóli, þetta eru krakkar sem eru að stíga sín fyrstu skref í stóru lyftunni, þau koma til okkar frá 6 til 10 ára, jafnvel eldri. Þessi hópur er í ævintýraferðum um fjallið, þau fara í þrautabrautir, leiðangra og ferðir sem hafa þann tilgang frá þeim séð að hafa gaman, frá mér séð að sigra fjallið og verða betri að vinna í bratta, geta skíðað í halla, að fara hratt og hægt að taka tillit til og læra á fjallið en fyrst og fremst að upplifa útiveru þar sem ekki er alltaf gott veður og sól. En með því að vera úti í fjallinu læra þau meiri þrautsegju en með mörgum öðrum verkefnum. Það er eitt af því besta sem börn læra í dag.

Síðan finnst mér líka mjög gaman að kenna fullorðnum, á allt annan hátt samt, þú sem kennari verður að trúa að viðkomandi geti það sem þú ætlar henni /honum að gera, svo sem eins og að kenna fullorðnum að fljóta í vatni, svo ég taki eitthvað eitt dæmi. Jafnvægi er eitt af því fyrsta sem líkaminn missir niður þegar hann eldist, en það er hægt að æfa á mjög einfaldan hátt og er mjög gaman að kenna eldra fólki, því þetta byggir á einföldum æfingum sem þarf að einbeita sér að meðan þú ert að gera þær, smá eins og yoga, sameinar hreyfingu, athygli, einbeitingu, sjón og heyrn í einni æfingu.

Það besta sem gerist í tíma þar sem maður er að kenna er ef hægt er að smita gleðinni og ánægjunni til annarra, þegar það gerist er ég afar sátt.

6. „Það er aldrei of seint að byrja“ er setning sem kom fram í fyrsta viðtalinu, í janúar. Ertu sammála því?

Algjörlega! Ég er til dæmis ekki enn orðin nógu gömul til að fara í öldungablak eða að spila golf, ég á þetta eftir. Svo er ég nýbyrjuð að æfa mig á bretti (bara ekki segja neinum frá - því ég er að æfa mig þar sem enginn sér til ennþá) svo lítill vinur minn fái ósk sína uppfyllta; sem er að sjá mig detta í fjallinu.

Allir geta farið af stað að hreyfa sig það er bara að taka skrefið, þetta fyrsta skref, sem er erfiðast og er meira í höfðinu á manni en nokkuð annað. Þannig að ef okkur langar að byrja á einhverju sem við höfum ekki prófað áður, þá er bara að fara af stað. Ég hef kynnst fólki í gegnum mína vinnu hjá IF sem hefur mun minni líkamlega getu en heill og hraustur einstaklingur og getur þó gert svo frábæra hluti og hér í bæ höfum við einnig dæmi um þannig fólk.

7. Er hægt að samtvinna hlaup, jóga og hugleiðslu? Hvernig?

Já það er vel hægt! Þetta þrennt fer vel saman hvert og eitt og eða í einum og sama tímanum líka. Allar teygjur sem við þekkjum í dag eiga uppruna sinn í einhverri af þeim 84 aðalyogastöðum sem þekktar hafa verið í yfir 5000 ár. Þó að hlaup hafi mest áhrif á þolið hjá okkur, gera yogastöður það líka á aðeins annan hátt.

Orðið yoga þýðir eining og er vísindaleg útskýring á því hvernig hægt er að finna einingu í líkama, huga og tilfinningum svo viðkomandi fái að upplifa frið og jafnvægi með tilvist sinni. Yoga er hægt að segja að sé æfingakerfi sem tekur til allra þátta lífsins ekki bara líkamskerfa þó það sé mjög gott sem fyrirbyggjandi fyrir líkamann. il að geta hlaupið þá þurfa öll kerfin þín að vera í lagi og þú ferð ekki langt hlaupandi án þess að teygja vel bæði áður og eftir hlaup. Hlaup og það að hlaupa er ákveðin hugleiðsla í sjálfu sér. Þú þarft lítið að hugsa um verknaðinn það gerist sjálfkrafa, þú þarft aðallega að passa að hugurinn fari ekki með þig út af sporinu. Góður hlaupatúr getur verið besta yogaæfing sem ég tek þann daginn.

8. Er einhver íþrótt sem þig langaði að prófa / æfa en gerðir aldrei? Ef já, hvaða?

Ég held nú að ég hafi prófað ansi margar íþróttir. Ég hefði viljað prófa stangastökk, við fengum aðeins að leika okkur með stöng þegar ég var í íþróttakennaraskólanum. Þráinn Hafsteins var að kenna okkur frjálsar og hann er einn þeirra sem getur búið til meistara með sínum aðferðum, hann hvatti okkur til að prófa og prófa aftur og gera betur og meira.

9. Miðað við allt sem þú ert að gera og hefur verið að gera, hefur þig aldrei langað að hætta og hugsa bara um þig og þína hreyfingu?

Lykillinn af því að gera allt sem mig langar og er að gera er sko einmitt að hugsa um mína eigin hreyfingu. Væri ég til í meiri hreyfingu fyrir mig? -  já og nei, því meira er ekki alltaf betra. Það er góð regla að gera ekki allar æfingar alltaf 100% því ákveðið tregðulögmál fer af stað og þú safnar bara þreytu frekar en að byggja þig upp, ef þú ert alltaf að vinna á fullu. Það reynist betra að vinna á 90% og hefur sannast að þá bætir þú þig jafnvel meira því endurheimtin er meiri.

Ég kenni á skíði á sunnudagmorgnum frá janúar til aprílloka. Það er alveg frábært, þá fer ég líka að leika mér í fjallinu sem ég elska. Svo þjálfa ég yngri skíðahópinn tvo eftirmiðdaga og sunnudagspart, þetta þýðir að ég fer á skíði amk þrisvar í viku sem ég myndi ekki gera annars. Ég kenni yoga á móti Báru Mjöll sem er mjög gott þá fæ ég líka að að njóta þeirra tíma sem hún kennir og það sem skiptir mig líka miklu að ég fæ að gefa í tímunum sem ég kenni.

Svo er ég komin á þann stað í lífinu að keppnis er ekki eins mikilvægt og áður. Samt skoraði ég á samstarfsfólk mitt í lok október að ganga lengri leiðina heim og ákvað svo til gamans að safna mínum metrum í nóvember. Í ljós kom að ég labbaði 24 daga í nóvember; 4 voru sunnudagar og hinir 20 voru vinnudagar þar sem ég beygði niður að brú í stað þess að labba beint heim sem eru 500 m. Þá daga tók ég góðan krók og gekk í þessum ferðum í nóvember 97,7 km. Ég var á labbi innan við eina klst og gat tekið smá yoga þegar ég kom vel heit heim. Mér finnst það bara gott.  Ég er til í hreyfingu með fólki og mér finnst mjög gaman að fara út í náttúruna í yoga með góðum hópi, ég væri til í að gera það oftar, því það gefur mér svo mikið að vera úti í náttúrinni, að ganga í skóginum hér innan við bæinn og setjast svo í litla laut í smá slökun eða hugleiðslu er það sem mér finnst alveg toppurinn.

10. Hver er þín skilgreining á því að vera hraustur / heilbrigður?

Skilgreining, ja það er nú ansi fjölbreytt, að vera hraustur og þó svo einfallt. Það er ekki bara sterkur, liðugur, fljótur, með gott þol og heldur ekki bara heilbrigður, alltaf hraustur, að takast á við hvert verkefni af sem mestu jafnvægi. Eva þetta er allt of erfið spurning !!!

Ef þú getur gert það sem þú þarft dags daglega og ert sátt og sáttur við þitt framlag, hugsanir orð og gerðir til þín og annarra þá ertu nokkuð hraust og hraustur.

 

Verkefnastjóri HSAM vill gjarnan þakka Unni kærlega fyrir skemmtilegt viðtal og allt hennar gríðarmikla og mikilvæga innlegg í íþróttalíf Seyðfirðinga. 

Henni er óskað innilegs velfarnaðar í öllu því sem hún kemur til með að taka sér fyrir hendur í framtíðinni með von um áframhaldandi hreyfingu og góða heilsu. Spurning hvenær aldurinn færir henni öldungablak og golf...

 

Höfundur : Eva Jónudóttir. Óheimilt er að nota efnið, til annars konar fréttaflutnings á öðrum fréttamiðlum, án leyfis höfundar. 

hsam