Viðtal mánaðarins - febrúar

"Ristilgangan" helst tekin á hverjum degi
Hjónin, Óla Mæja og Guðjón, á leiðinni í sjóinn.
Hjónin, Óla Mæja og Guðjón, á leiðinni í sjóinn.

Ólafíu Maríu Gísladóttur, eða Ólu Mæju, þarf vart að kynna fyrir Seyðfirðingum. Óla Mæja hefur komið víða við innan samfélagsins á Seyðisfirði undan farin ár. Það er því margt sem kemur upp í hugann þegar fengið er yfirheyrsluleyfi á hana. Hún er til að mynda ein af fáum sem vinnur við hreyfitengda ferðaþjónustu á Seyðisfirði og einnig er hún, og þau hjónin, talin með þeim virkari í sjósundssamfélaginu í bænum.


Viðtal febrúar :

1. Hvaða hreyfingu stundar þú í dag?

Gönguferðir, syndi í sundlauginni og sjósund, fjallgöngur og hjólreiðar svona eftir aðstæðum og löngun hverju sinni.

2. Hefur þú stundað reglulega hreyfingu allt þitt líf?

Já ætli megi ekki segja það, svona ómeðvitað. Í mínu uppeldi var aldrei til bíll svo við gengum allt sem við þurftum. Útileikir voru mikið stundaðir og farið á skíði, svo æfði ég handbolta á árum áður. Um 17 ára aldur fór áhugi minn að leita í aðrar tómstundir" og í nokkur ár var mín aðal iðkun að lyfta glösum og troða í pípur! En sem betur fer hætti ég því fyrir 27 árum og þurfti þá að finna mér önnur áhugamál.

Ég byrjaði að æfa mig í að hreyfa mig reglulega ca. klukkutíma á dag hvort sem mér líkaði betur eða verr. Upp frá því komst það í vana og hefur reynsla mín kennt mér að harla fátt líkamlega eða andlega er svo slæmt að ekki sé hægt að létta sér lífið með góðum göngutúr eða sundspretti.

3. Hvað farið þið hjónin ca. oft í sjóinn og hvað gerir sjósund fyrir ykkur?

Það er mjög misjafnt og þó nokkuð undir veðrinu komið. Það koma tímabil þar sem við skreppum daglega, en stundum líða margar vikur.

Sjósundið gerir mann hamingjusamari!! Í hvert skipti sem maður fer út í er það sigur fyrir mann, svipað og þegar náð er upp á fjallstind. Betra jafnvægi verður á „termostatinu“ í líkamanum  og maður finnur fyrir mun betra blóðflæði. Húðin verður mýkri og engin þörf fyrir húðkrem!

4. Telur þú kost að stunda hreyfingu með maka sínum?

Já það er engin spurning. Ég myndi samt ekki nenna að fara í keppnis!!! Göngutúrar og spjall úti í náttúrunni tengja mann betur saman, eða bara að ganga saman og þegja það er líka heilandi. Svo held ég að það skapist betri skilningur á nauðsyn þess að hreyfa sig ef hjón eru samtaka með það.

5. Ef fólk langar að prófa að fara í sjóinn við Seyðisfjörð, hvað ætti það þá að gera?

Við erum með hóp á facebook sem heitir "Sjóselir Seyðisfjarðar". Þar eru upplýsingar um hvað ber að hafa i huga áður en hoppað er út í. Svo má bara spyrja okkur. Gugga Kjartans er einn af upphafsmönnum í félaginu og hún getur aldeilis deilt reynslu sinni.

6. Viltu segja aðeins frá hreyfitengdri ferðaþjónustu á Seyðisfirði?

Á sumrin er boðið upp á mismunandi gönguferðir í bænum og í kringum bæinn. Á veturna er einnig boðið upp á göngu inn á Vestdal á snjóþrúgum og norðurljósaleiðangur ef útlitið er þannig.

7. Eru fleiri möguleikar á slíkri ferðaþjónustu hér í bæ, að þínu mati?

Fyrir hugmyndaríkt, áhugasamt og þolinmótt fólk er örugglega hægt að bæta við þetta. Til dæmis mætti reyna að ná til Asíubúanna, sem virðast vera stór hluti af þeim ferðamönnum sem koma til okkar yfir vetrarmánuðina.

8. Heyrst hefur af sögustund í heita pottinum í Sundhöllinni – viltu segja frá hvernig það kom til?

Sögustundin er nú bara ein af þeim flugum sem ég fékk í einni sundferðinni. En þar hitti yfirleitt alltaf einhverja útlendinga sem ég fer að spjalla við og deila með reynslu minni, sem fædd og uppalin í þessum bæ.

9. Seturðu þér áramótaheit eða markmið?

Held ég hafi aldrei sett mér áramótaheit en s.l. 27 ár hefur mér tekist að setja mér það markmið að fara eitthvað út helst alla daga. ,,Taka ristilgönguna“ eins og við hjónin göntumst með.

10. Lokaorð - eitthvað sem þú vilt segja að lokum?

Efst í huga mér er þakklæti fyrir að vera svona heilsuhraust og fyrir að hafa borið gæfu til að fá tækifæri til að bera ábyrgð á eigin lífi. Mitt mottó er að vera jákvæð einn dag í einu og minna mig á gamla frasann: Heilbrigð sál í hraustum líkama.

 

Verkefnastjóri HSAM þakkar Ólu Mæju kærlega fyrir þessa innsýn í hennar líf og fyrir að taka þátt í verkefninu.

Henni og hennar fjölskyldu er óskað velfarnaðar í hverju sem þau taka sér fyrir hendur í framtíðinni, hvort sem er á landi eða í sjó, með von um áframhaldandi hreyfingu og góða heilsu.

 

Höfundur : Eva Jónudóttir. Óheimilt er að nota efnið, til annars konar fréttaflutnings á öðrum fréttamiðlum, án leyfis höfundar.

 

hsam