Viðtal mánaðarins - janúar

"Aldrei of seint að byrja að hreyfa sig"
Myndin af Lárusi er tekin í Bad Ems í Þýskalandi árið 2013. En þau hjónin tóku einmitt hjólin sín 5x…
Myndin af Lárusi er tekin í Bad Ems í Þýskalandi árið 2013. En þau hjónin tóku einmitt hjólin sín 5x með sér til Evrópu með Norrænu og hjóluðu bæði í Danmörku og Þýskalandi.

Mögulega hafa hjónin Lárus Gunnlaugsson og Halla Gísladóttir vakið eftirtekt Seyðfirðinga, en þau eru mjög samrýmd og dugleg að hreyfa sig. Seyðfirðingar geta séð þau nánast daglega, annað hvort í hjólatúrum eða gönguferðum um bæinn. Verkefnastjóri heilsueflandi samfélags fékk þau til liðs við sig og fékk að spyrja þau nokkurra spurninga varðandi þeirra lífsstíl, hreyfingu og lífið sem eldri borgari.


Viðtal janúar : 

1. Hvað er langt síðan þið hættuð að vinna? 
Rúm átta ár.

2. Hafið þið alltaf hreyft ykkur reglulega? 
Já núna síðustu 25 árin höfum við stundað gönguferðir og síðustu 7 ár höfum við líka stundað hjólreiðar.

3. Hvað hreyfið þið ykkur oft í viku? 
Við reynum að gera það daglega, en ætli meðaltalið sé ekki svona 5 sinnum í viku.

4. Finnið þið mun á ykkur síðan þið byrjuðuð að hreyfa ykkur reglulega? Ef já, þá hvernig mun? 
Já við erum hressari bæði á líkama og sál.

5. Telið þið mikilvægt fyrir fólk (á efri árum) að hreyfa sig? 
Okkur finnst orðið lífsnauðsynlegt að hreyfa okkur og við höfum kosið að nota gönguferðir og hjólreiðar til þess. Margir aðrir eru mjög duglegir við að stunda göngur, hlaup, sund, golf, líkamsrækt og fleira til að ná sama markmiði .

6. Hvernig finnst ykkur aðstaða til hreyfingar vera á Seyðisfirði? 
Hún er nokkuð góð. Hér er gott að hjóla og ganga og hlaupa, það gerir veðurlagið. Svo hafa Seyðfirðingar góðan golfvöll, sundhöll, íþróttahús með ýmsa möguleika til hreyfingar og gott skíðasvæði, en það mætti bæta aðstöðu þeirra sem stunda utanhússíþróttir.

7. Viljið þið segja frá hjólunum ykkar, þetta eru ekki alveg venjuleg reiðhjól er það? Hvaðan eru þau? Mælið þið með þeim? 
Við værum ekki að hjóla nema af því að við fengum okkur rafmagnshjól, sem létta undir bæði í brekkum og á móti vindi. Við teljum svona hjól eiginlega forsendu fyrir því að eldra fólk geti stundað hjólreiðar að einhverju marki. Okkar hjól eru keypt í Erninum og eru mjög góð.

8. Er einhvern tímann of seint að skipta um lífsstíl með tilliti til hreyfingar? 
Alls ekki. Við vorum komin yfir fimmtugt þegar við loksins uppgötvuðum gildi þess að hreyfa sig reglulega.

9. Lokaorð - hafið þið eitthvað sem þið viljið segja að lokum? 
Við hvetjum alla til að stunda reglulega holla hreyfingu að einhverju tagi og helst að byrja fyrr á ævinni en við gerðum. 

 

Verkefnastjóri HSAM vill gjarnan nota tækifærið og þakka þeim hjónum kærlega fyrir þessa innsýn í þeirra líf og fyrir að taka þátt í þessum nýja þræði á vefsíðu Seyðisfjarðarkaupstaðar.

Þeim er óskað velfarnaðar í hverju sem þau taka sér fyrir hendur í framtíðinni með von um áframhaldandi hreyfingu og góða heilsu.

 

Höfundur : Eva Jónudóttir. Óheimilt er að nota efnið, til annars konar fréttaflutnings á öðrum fréttamiðlum, án leyfis höfundar. 

hsam