Viðtal mánaðarins - maí

"Hættum að velta okkur upp úr smáatriðum og tilgangslausri neikvæðni"
Göngufélagarnir að koma úr einni göngu af mörgum.
Göngufélagarnir að koma úr einni göngu af mörgum.

Eins og flestir Seyðfirðingar vita varð Ólafur Sigurðsson fyrir því hræðilega áfalli að missa yngri son sinn, Bjarna Jóhannes Ólafsson, í apríl árið 2017. Óli er íþróttakennari og þekktur fyrir að hreyfa sig mikið, en þó hefur væntanlega ekki farið fram hjá Seyðfirðingum hve mikið hann hefur gengið undanfarið í fylgd með svörtum ferfætlingi. Í þessu viðtali verður forvitnast um hvort og hvernig Óli notar hreyfingu og heilbrigðan lífsstíl til að vinna úr sorginni og að halda góðri heilsu.


Viðtal maí : 

1.Viltu segja frá hvernig þú hefur nýtt þér hreyfingu til að hjálpa þér að vinna úr sorginni? 

Fyrst eftir að ég missti Bjarna þá fannst mér best að labba bara eitthvað út í náttúruna þar sem ég gat grátið í friði. Þar sem ég hef alltaf stundað tækjaþjálfun og lóðalyftingar fannst mér líka gott að fá þannig útrás fyrir reiðina sem brann í mér og þannig er það reyndar enn tveimur árum síðar. Reiði sem er ákaflega erfitt að fá útrás fyrir því maður veit ekki við hvern maður á að vera reiður.

2. Telur þú að hreyfing hafi mikla þýðingu varðandi heilsu fólks, andlega sem líkamlega?  

Það er náttúrulega marg rannsakað að hreyfing skiptir gríðarlegu máli þegar kemur að andlegri heilsu fólks og það á reyndar líka við um mataræði. Síðan skiptir útivera miklu máli líka. Við þurfum sérstaklega að gæta að D-vítamín búskap líkamans en ég tel þetta dulinn vanda nútímafólks sem situr orðið alltof stóran hluta sólarhringsins við snjalltækin. Það er bara þannig að það fer illa saman að hanga í þessum tækjum og vera í sólinni á sama tíma. Auðveldast er fyrir líkamann að vinna D-vítamín með aðstoð sólarinnar. Ungt fólk tekur ekki lýsi og borðar alltof lítinn fisk og því er engin furða þó að okkur vanti D-vítamín en það eitt og sér getur valdið þunglyndi. Svo skilur enginn neitt í því af hverju svona mörgum líður illa andlega.

En hreyfing er lykillinn að bæði andlegri og líkamlegri vellíðan það er enginn vafi í mínum huga. Fyrir mig skiptir okkar frábæra aðstaða í íþróttamiðstöðinni miklu máli þ.m.t. ljósabekkurinn, sem ég nota reglulega yfir vetrarmánuðina.

3. Hefur þú breytt einhverju frá fyrri lífsstíl til að vinna úr sorginni?

Nei ekki get ég sagt það, en hef samt aukið hreyfinguna sem var nú mikil fyrir. Fljótlega eftir að ég missti Bjarna fengum við okkur hund á heimilið, en vitað er að gæludýr geta hjálpað fólki sem glímir við svona áföll. Hundurinn, sem heitir Míló, hefur gefið okkur öllum mjög mikið og sjálfur geng ég með hann nánast á hverjum degi og reyni að ná 50-60 km á viku.

Eitt sem hefur hjálpað mér mikið að glíma við sorgina er að nokkrum mánuðum áður en áfallið reið yfir hafði ég algjörlega hætt að drekka áfengi sem hafði þó ekki verið neitt vandamál hjá mér. Ég tókst því á við áfallið algjörlega skýr í huga og tel að það hafi hjálpað mjög mikið. "Áfengislausa árið" stendur enn og mun verða áfram því manni líður svo mikið betur líkamlega án áfengis. Áfengi er bölvaður óþverri sem gerir engum gott og allir sem glíma við andleg veikindi af einhverju tagi ættu að sleppa því alfarið.  Því miður er það oftast á hinn veginn, sem gerir glímuna hálfu verri. Að halda að maður bjargi svo einhverju með eiturlyfjum eins og kannabis, er mesta fásinna sem ég hef heyrt.

4. Hefur þú einhvern tímann losað þig við lífsstílssjúkdóma með hreyfingu? 

Já ég hef gert það. Fyrir einum tíu árum var ég allt í einu kominn með of háan blóðþrýsting og þurfti að fara á lyf. Þá létti ég mig um ein tíu kíló og fór að ganga meira og borða meira grænmeti. Ári seinna var ég laus við lyfin og þannig er það enn í dag. Ég mæli hins vegar blóðþrýsting daglega og sé alveg að á erfiðustu sorgardögunum fara efri mörkin aðeins upp og eins ef ég verð eitthvað stressaður - en sorg og stress virðast hafa svipuð áhrif á blóðþrýsting allavega hjá mér.

Þegar þetta gerist reyni ég að ganga mikið næstu dagana  og hugsa aðeins um allar fallegu stundirnar sem ég hef átt  í lífinu og þá gengur þetta til baka á nokkrum dögum. 

5. Hugleiðir þú

Nei því miður þá kann ég ekki þessar snilldar aðferðir sem til eru, en Siggi sonur minn er mjög klár í þessu og hefur notað hugleiðslu síðan hann var strákur með góðum árangri. Ég er samt að hugsa um skella mér á námskeið og læra þetta svona í ellinni. En góður göngutúr í náttúrinni, þar sem maður hlustar á náttúruna, er auðvitað ígildi hugleiðslu.

6. Viltu segja frá samvinnu ykkar hjóna við Pieta samtökin á Íslandi?

Sú samvinna er nú bara rétt að byrja. En við höfum staðið fyrir þremur göngum hér á Seyðisfirði. Í ár var gangan í fyrsta skipti auglýst í gegnum samtökin. Kolla er samt meira búin að vera í sambandi við samtökin en ég, en við sjáum til hvernig þetta þróast.  Pieta-samtökin eru að vinna mjög gott starf, sem getur skilað miklu og hefur reyndar gert það nú þegar. 

7. Hvernig breytist lífssýnin við svona áfall? 

Hún hefur breyst að talsverðu marki finnst mér.  Ég hef t.d. miklu meiri áhyggjur af öllu ungu fólki í dag og reyni að leggja mitt af mörkum í því sambandi. Mér finnst enn mikilvægara að rækta samböndin við fjölskylduna og vinina. Maður veit aldrei hvað maður hefur mikinn tíma hér á jörðu. Hvað tekur við veit svo enginn og því eins gott að nota tímann sem maður hefur til góðra verka. Ég er líka ekkert að velta mér upp úr einhverjum smáatriðum og held að við séum alltof upptekin af því. Við verðum líka að horfa til þess hversu mikilvægt er að allir geri sitt besta og átti sig á því að meira er ekki hægt að fara fram á. Mér finnst skólakerfið í raun aldrei hafa unnið eftir þessari línu og allt of lítið gert af því að finna hæfileika hvers og eins og rækta þá. Finna í hverju við erum best og vinna út frá því. Það eru allir góðir í einhverju og það er mín reynsla að ef þessir eiginleikar eru efldir þá fylgir svo margt annað með. Ég hef séð svo mörg dæmi þessa í gegnum allt mitt íþrótta- og skólastarf.

Ég hef líka styrkst í þeirri trú að við getum bjargað miklu með von og kærleika. Láta okkur varða hvernig náunganum líður og sýna væntumþykju í verki. Knúsa hvert annað meira og klappa hvert öðru meira á bakið. Hættum að velta okkur upp úr smáatriðum og tilgangslausri neikvæðni. Lífið hefur upp á svo mikið að bjóða, ef við bara opnum augun og sjáum hvað við höfum það í rauninni gott hér á Íslandi. Að maður tali nú ekki um hér á Seyðisfirði.

 

Verkefnastjóri HSAM vill þakka Ólafi kærlega fyrir þessi heiðarlegu skrif og fyrir að taka þátt í verkefninu. Þess má geta að Óli á afmæli í dag, 27. maí og var því vel við hæfi að birta viðtalið í dag. Honum og hans fjölskyldu er óskað alls hins besta í framtíðinni.

Hér má finna frétt af göngunni þann 11. maí síðast liðinn. Gengið hefur verið á Seyðisfirði síðan árið 2017, gangan er unnin í samvinnu í heilsueflandi samfélag.

Hér má finna upplýsingar um Pieta samtökin.

 

Höfundur : Eva Jónudóttir. Óheimilt er að nota efnið, til annars konar fréttaflutnings á öðrum fréttamiðlum, án leyfis höfundar.

hsam