Viðtal mánaðarins - mars

"Setti status á Facebook og hefur setið við saumavélina síðan"
Mynd tekin þann 21. júní 2017 þegar Anna Guðbjörg mætti í Kjörbúðina með fyrstu heimasaumuðu pokana.…
Mynd tekin þann 21. júní 2017 þegar Anna Guðbjörg mætti í Kjörbúðina með fyrstu heimasaumuðu pokana. Síðan þá hafa ansi margir pokar bæst í körfuna í Kjörbúðinni.

Anna Guðbjörg Sigmarsdóttir er heilsueflandi persóna marsmánaðar. Anna Bugga er vel þekkt í samfélaginu okkar, en hún vinnur á leikskóladeild Seyðisfjarðarskóla, elskar bleikan lit og einnig er henni mjög annt um umhverfið. Hún er sú sem hefur haldið á lofti plastpokalausum Seyðisfirði (heimasaumuðu pokaverkefni) síðan árið 2017. En hvað verður um pokana þegar Anna Bugga flytur norður?


Viðtal mars :

1. Viltu segja okkur aðeins frá pokaverkefninu? Hvernig kviknaði sú hugmynd hjá þér?

Ég hef lengi látið plastumbúðir fara í taugarnar á mér og pirrast yfir öllum plastpokunum sem flæddu um allt hús hjá mér, þegar ég heyrði svo af verkefninu „plastpokalaus Stykkishólkmur“ ákvað ég að þetta væri nú eitthvað sem væri hægt að gera hér á Seyðisfirði og áfram hélt ég tuða yfir plastpokanotkun og hvort að bærinn ætti ekki að fara í þetta verkefni, en við dræmar unditektir. Þegar pokastöðvar fóru svo að spretta upp víða um landið, þá ákvað ég að hætta að tuða og reikna með því að einhver annar geri hlutina og drífa bara í þessu sjálf, setti status á Facebook og hef setið við saumavélina síðan.

2. Hvað er langt síðan þú fórst með fyrstu pokana í Kjörbúðina?

Fyrsu pokarnir fóru í Kjörbúðina 21. júní 2017.

3. Hvað heldurðu að þú sért búin að sauma marga poka frá upphafi?   

Ætli þeir séu ekki farnir að nálgast 350 - 400 sem ég hef saumað. En svo eru það allir hinir sem hafa verið að sauma, ég gæti trúað því að við séum búin að sauma rúmlega 700 poka. Einn poka fyrir hvern íbúa Seyðisfjarðar!

4. Hvað verður um verkefnið þegar þú flytur norður? Hver tekur við? Viltu nota tækifærið og skora á einhvern?

Ég vil skora á alla Seyðfirðinga að taka að sér að passa upp á „barnið mitt“. Ekki bara með því að sauma poka heldur líka að muna eftir því að taka með sér fjölnota poka í búðina - ekki bara matvörubúðina, líka apótekið, skóbúðina, fatabúðina og allar aðrar búðir. Koma sér upp góðu kerfi svo pokinn gleymist ekki. Guðrún Katrín ætlar að fóstra verkefnið svo það verður hægt að fara með efni til hennar. Svo er náttúrulega öllum frjálst að sauma poka.

Á Akureyri heldur verkefnið áfram. Ég á eftir að komast að því hvort þar séu einhverjar pokastöðvar og ef ekki þá er bara að koma upp amk einni slíkri.

5. Telur þú Seyðisfjörð umhverfisvænan bæ? Hvað má betur fara?

Seyðisfjörður hefur alla burði til að verða mjög umhvefisvænn bær, því hér er mikið af umhverfissinnuðu fólki. En þetta er allt undir okkur sjálfum komið, við verðum að muna að það sem við gerum skiptir máli og ekki bara fyrir okkur sem einstaklinga heldur allan heiminn. Sorpflokkunin er stórt framfaraskref en við þurfum líka að muna að endurvinnsla er ekki aðalmálið heldur að kaupa minna og fara betur með hlutina, svo við þurfum ekki að urða, brenna eða endurvinna eins mikið.

Ég hef lengi talað um almennings moltugerð sem væri alger draumur. En þar gætu til dæmis nágrannar eða heilu göturnar tekið sig saman og búið til sína moltugerð.

Bílanotkun er alltof mikil. Við getum gengið eða hjólað mun meira og líka þó við eigum börn eða sérstaklega þá, því þau læra það sem fyrir þeim er haft.

6. Stundar þú einhverja hreyfingu?  

Ég var duglegri við það. Var í sundi og jóga, gekk töluvert og fór í sjósund. Ég þarf að girða mig í brók og fara að hreyfa mig meir.

7. Stundarðu hreyfingu ein eða með öðrum? Hvað gefur hreyfingin þér?

Hreyfinguna hef ég stundað bæði ein og með öðrum. Sjósundið er alltaf stundað með öðrum. Jóga stunda ég núna bara ein heima, en var hjá Unni sem er dásamlegt. Við Hallgrímur förum stundum saman í göngutúra. Svo förum við systkinin árlega í afmælisfjallgöngu.

8. Hvað veistu um verkefnið „Heilsueflandi Seyðisfjörður“?

Það verkefni er mjög flott og þú dugleg að halda okkur á tánum. Verkefnið stefnir að því að bæta heilsu okkar Seyðfirðinga bæði andlega og líkamlega. Það er gert með ýmsu móti t.d bjóða starfsfólki bæjarins uppá heilsufarsskoðun, hvetja til hollara mataræðis, nota fjölnota poka, hreyfa sig, njóta þess að vera með fjölskyldu og vinum, vera hér og nú.

9. Seturðu  þér áramótaheit eða markmið?

Ég ætla alltaf að sigra heiminn á núll einni, sem er ekki hægt, þannig að ég er farin að setja mér lítil markmið og standast þau. Engin áramótaheit.

 

Verkefnastjóri HSAM þakkar Önnu Guðbjörgu kærlega fyrir þátttöku hennar og góðar hugmyndir um ennþá umhverfisvænna samfélag. Henni og hennar fjölskyldu er óskað alls hins besta á Akureyri. Það verður gaman að fylgjast með hvort Seyðfirðingar eigi eftir að fá heimasaumaða poka eftir hana við verslun þar á næstu árum. 

Hér má lesa frétt frá apríl 2018 um pokaverkefnið og framtíðardrauma þess.

 

Höfundur : Eva Jónudóttir. Óheimilt er að nota efnið, til annars konar fréttaflutnings á öðrum fréttamiðlum, án leyfis höfundar.

hsam