Viðtal mánaðarins - október

"Við hvetjum alla sem hugleiða að fara Jakobsveginn að láta verða af því"
Þessi mynd er tekin af vinkonunum á góðri stundu á Stígnum, árið 2016.
Þessi mynd er tekin af vinkonunum á góðri stundu á Stígnum, árið 2016.

Vinkonurnar og hjúkrunarfræðingarnir Kristín Sigurðardóttir og Sigrún Ólafsdóttir eru viðmælendur þessa mánaðar. Þær hafa meðal annars báðar greinst með brjóstakrabbamein og sigrast á því, en októbermánuður - Bleikur október - er einmitt helgaður baráttu gegn því á Íslandi. Einnig hafa þær vinkonur gengið saman hluta af Jakobsveginum, einni þekktustu pílagrímaleið í Evrópu.


Viðtal - október

1. Stundið þið reglubundna hreyfingu?

Kristín: Ég held að ég geti sagt það. Ég hef alltaf verið hrifin af að ganga. Ég stunda gönguferðir með góðri vinkonu minni Sigurbjörgu Kristínardóttur. Við göngum nokkrum sinnum í viku, flestar vikur. Aðalatriðið er ekki hraðinn heldur það að fara út og hreyfa sig. Þessi hreyfing skilar sér í betri andlegri og líkamlegri líðan. Að auki fór ég í eina „stærri“ göngu með systur minni á síðasta ári þegar ég gekk í Atlasfjöllunum í Marokkó.

Sigrún: Já ég hef hreyft mig reglulega undanfarna áratugi. Gengið, verið í leikfimi, stundað yoga og fjallgöngur. Og ekki má ég gleyma gönguferðum í náttúrinni þar sem ég sameina hreyfinu, fuglaskoðun, huga að smágróðrinum og bara vera.

2. Hvenær greindust þið með brjóstakrabbamein?

Kristín: Ég greindist í september 2012.

Sigrún: Haustið 2008, og eins og ég segi oft: „5 mínútur fyrir brúðkaup Óla og Rannveigar og korter fyrir hrun“.

3. Getið þið lýst þeirri tilfinningu að fá slíkar fréttir?

Kristín: Að greinast með krabbamein var mikið áfall, ég get ekki neitað því. Í fyrstu var ég dofin og köld tilfinningalega, þetta gat ekki verið að gerast fyrir mig. En eftir að hafa meðtekið þetta fór ég að lesa allt sem ég fann um brjóstakrabbamein. Mèr fannst ég þurfa að þekkja þennan óvin sem kom óboðinn inn í líf mitt. Á einhverjum tímapunkti komst ég á þann stað að þetta væri verkefni sem ég þurfti að vinna. Eftir það var í mínum huga aldrei sá möguleiki að ég myndi ekki sigrast á þessu. Ég fékk mikinn stuðning frá fjölskyldu, vinum og ekki síst starfsfólki í krabbameinsteyminu sem leiddi mig í gegnum meðferðarferlið. Svo reyndist hún Sigrún mín betri en enginn og var hún alltaf tilbúin að gefa mér góð ráð.

Sigrún: Það er erfitt að lýsa þeim tillfinningarússíbana sem ég fór í gegnum fyrstu dagana og vikurnar. T.d. afneitun, hræðsla, reiði, tómleiki og sorg jafnvel allt á sama andartakinu. Síðan tóku við hugsanir (svona oftast) um að allt færi vel, ekki væri í boði að efast og ég myndi sigrast á veikindunum. Ég reyndi að einbeita mér að hverjum þætti meðferðarinnar fyrir sig og missa mig ekki í framtíðarhugsunum.

4. Horfið þið öðruvísi á tækifærin í lífinu í dag en þið gerðuð fyrir veikindin?

Kristín: Já örugglega. Ég fór ósjálfrátt að taka til í sjálfri mér, losa mig við óþarfa og sættast við sjálfa mig. Í dag geri ég mér betur grein fyrir hvað skiptir mig máli og sinni sjálfri mér betur. Áður hefði ég sjálf túlkað það sem eigingirni, en í dag veit ég að slíkt er grundvöllurinn fyrir betri líðan ekki bara fyrir mig heldur alla sem standa mér næst. Stundum meðan á meðferðinni stóð og mér fannst ég ekki hafa neina orku til að takast á við daginn reyndi ég að sjá mig eftir ár, hvernig ég vildi að líf mitt yrði þá. Ég held að ég sé nokkurn veginn komin á þann stað í dag. Það eru ótal hlutir í lífi mínu sem ég hef enga stjórn á, ýmislegt sem ég get ekki breytt. En ég get stjórnað því hvernig ég tekst á við áskoranir og erfiðleika. Í því felast tækifærin. Ef við stoppum öðru hvoru og hlustum og horfum í kringum okkur þá koma góðir hlutir til okkar.

Sigrún: Kannski ekki beint tækifærin, heldur t.d. hvernig ég horfi á lífið. Ég reyni að vera jákvæð og forðast samneyti við neikvætt fólk. Ýmislegt sem mér fannst mikilvægt áður en ég greindist, finnst mér í dag vera eftirsókn eftir vindi. Auðvitað er ég mun meðvitaðri um lífið og dauðann og hve allt er fallvalt. Ég er endalaust þakklát fyrir að ég skyldi læknast, fyrir lífið og að koma sterkari til baka. Jú ég gríp fleiri tækifæri og læt ekki nokkurn mann segja mér hvað ég tek mér fyrir hendur.

5. Hvað finnst ykkur um Bleikan október?

Kristín: Krabbamein er því miður allt of algengt. Bleikur október er góð áminning til okkar að í dag og alla daga eru konur að berjast við þennan vágest. Allt sem vekur okkur til umhugsunar um alla þá sem takast á við krabbamein, hvort sem eru konur eða karlar, er af hinu góða.

Sigrún: Mér finnst hann sýna umhyggju, samheldni og virðingu. Ég verð oft viðkvæm þegar hann nálgast og hugsa til allra þeirra kvenna sem hafa fengið og munu fá brjóstakrabbamein. Hve mikilvægt það er að standa ekki einn og eins að vita að maður getur lagt sitt af mörkunum með því að kaupa bleiku slaufuna.

6. Þið genguð saman hluta af Jakobsveginum, hvar hófst ykkar ganga?

Við byrjuðum í borginni Villafranca del Bierzo. Það var lagt upp með að gangan væri 200 km en hún endaði í ca 240 km. Við gengum í 11 daga og lukum henni í Santiago de Compostela. Þar fengum við aflátsbréf frá kaþólsku kirkjunni og hlýddum á pílagrímamessu í dómkirkjunni.

7. Viljið þið segja aðeins frá ferðinni?

Sigrún: Forsaga mín er sú að ég var búin að hugsa um það í mörg ár að ganga Jakobsveginn en einhvern veginn varð ekkert af því að ég tæki af skarið og arkaði af stað. Síðan fór ég að heyra af ýmsum sem voru á Stígnum eða voru að undirbúa ferðina. Þannig að árið 2014 ákvað ég að nú væri komið að mér og vissi um leið að Kristín yrði mín samferðakona enda hugsaði hún sig ekki um eitt andartak þegar ég spurði hana hvort við værum ekki að fara Stíginn (eins og Jakobsvegurinn er oft kallaður). Við ákváðum að árið 2016 væri okkar ár og skipulögðum og undirbjuggum okkur með það í huga. Ferðin var skipulögð á vegum ferðastofu og daglega var búið að panta gistingu og kvöldmat fyrir hópinn. Á náttstað beið farangurinn eftir okkur og oftast hið notalegasta rúm og sturta. Okkur fannst þessi tilhögun mjög þægileg, ekkert vesen við að finna gistingu og bara með dagspoka á bakinu.

Það er endalaust hægt að tala um Jakobsveginn, gönguna sjálfa, umhverfið, samveruna, upplifunina, fegurðina, fólkið sem við hittum, sjálfan stíginn, samtölin, eigin hugsanir, þögnina, náttúruna og tilfinninguna þegar við komum á torgið fyrir framan dómkirkjuna í Santiago de Compostela.

Okkar upplifun var mjög sterk en samt er erfitt að koma henni í orð. Þegar við hittum fólk sem hefur farið veginn þá kemur alveg sérstakur tónn í röddina og blik í augun og þannig erum við örugglega líka. Sigrún segist algjörlega hafa verið til í að fara aftur næsta ár, en var síðan svo heppin að vera á ferðalagi á Norður Spáni í fyrra og hafði tækifæri til að ganga síðustu 10 km af stígnum, sem var líka ógleymanlegt.

hsam

Mynd tekin eftir að göngunni lauk. Þarna má sjá þær vinkonur, ásamt göngufélögunum.

8. Einhverjir vilja meina að Jakobsvegsgöngurnar séu hluti af ákveðinni sjálfsskoðun. Hafði ykkar ákvörðun að ganga Jakobsveginn - eitthvað með sigur í veikindum ykkar að gera?

Já við létum örugglega frekar verða af göngunni eftir veikindin. Við fórum alls ekki af stað af trúarlegum ástæðum eins og margir aðrir, frekar sem líkamlega og andlega ferð. En á göngunni breyttist eitthvað og okkur fannst við verða einhvers konar pílagrímur. Við urðum hluti af sögunni og gengum í fótspor pílagríma fyrri alda. Allir gengu í sömu átt (við mættum aldrei neinum) með það sama markmið að enda í Santiago de Compostela.

Á hverjum degi, eftir yoga teygjur, fengum við nokkurs konar „hugsanademant“ frá fararstjóranum t.d. „hvort við værum að burðast með eitthvað í bakpoka lífins“ eða „hvort ótti eða kvíði fylgdu okkur í lífinu“. Síðan gengum við í þögn í ca 2 klst. og hugleiddum þessar spurningar. Það gerðist óhjákvæmilega að ákveðin sjálfsskoðun fór í gang. Með því að vera gangandi tókum við óhjákvæmilega fegurð leiðarinnar betur inn en umhverfið var mjög fjölbreytt, t.d. skógar, akrar, fjöll, fallegir bæir og yfirgefnir bæir. Svo við tölum nú ekki um fólkið sem alltaf tók á móti okkur með brosi á vör og óskaði okkur góðrar göngu – Buen Camino.

9. Eitthvað sem þið viljið segja að lokum?

Við erum þáttlátar að hafa getað farið þessa ferð og þess fullvissar að gangan bætir mann. Við hvetjum alla sem hugleiða að fara Jakobsveginn að láta verða af því.

Verkefnastjóri HSAM þakkar þeim vinkonum kærlega fyrir einlægt viðtal varðandi veikindi, hugarfar og fleira og spennandi innsýn í hinn margfræga Jakobsstíg. Þeim er óskað velfarnaðar í framtíðinni með von um áframhaldandi góða heilsu og margar fleiri spennandi gönguferðir - mögulega fleiri á Stígnum.

 

Hér má lesa um bleiku slaufuna.

Hér má lesa um Jakobsveginn. Kristín og Sigrún gengu hluta af rauðu leiðinni, á Spáni.

 

Höfundur : Eva Jónudóttir. Óheimilt er að nota efnið, til annars konar fréttaflutnings á öðrum fréttamiðlum, án leyfis höfundar.

 

hsam