Bókun minnihluta vegna fjármálastjórnar kaupstaðarins

Samkvæmt reglum Seyðisfjarðarkaupstaðar um vinnulag við eftirfylgni og breytingar á fjárhagsáætlun sem settar eru með hliðsjón af 63. gr. sveitarstjórnarlaga sem kveður á um að fjárhagsáætlun er bindandi regla um allar fjárhagslegar ráðstafanir af hálfu sveitarfélags. Samkvæmt lögunum er óheimilt er að víkja frá fjárhagsáætlun nema sveitarstjórn hafi áður samþykkt viðauka við áætlunina. Viðauki er ekki gildur nema hann feli einnig í sér útfærða ákvörðun um það hvernig þeim útgjöldum eða tekjulækkun sem gert er ráð fyrir verði mætt.

 

Eftirfarandi eru tvær fyrstu greinar reglanna: 

„1. Forstöðumenn og bæjarstjóri bera ábyrgð á því að fjárhagslyklar þeirra stofnanna og deilda sem undir þá heyra fari ekki fram úr fjárheimildum. Telji forstöðumaður eða bæjastjóri að tekjur verði lægri eða að útgjöld verði hærri en heimilt er í fjárhagsáætlun ber að tilkynna það til bæjarráðs/hafnarmálaráðs eins fljótt og auðið er og grípa til viðeigandi ráðstafana. Svo sem að draga úr útgjöldum eða gera tillögu um flutning á fjárheimildum milli bókhaldslykla innan viðkomandi deilda o.s.frv.

 

2. Meiriháttar breytingar þ.e. einstakar breytingar yfir 1. millj. kr. og breytingar sem hafa áhrif á niðurstöðu samstæðu Seyðisfjarðarkaupstaðar eða flutningur fjárhæða milli málaflokka verða eingöngu samþykktar í bæjarstjórn eða í bæjarráði starfandi í sumarleyfi bæjarstjórnar og samkvæmt bæjarmálasamþykkt Seyðisfjarðarkaupstaðar. Þær breytingar sem samþykktar eru í bæjarráði í sumarleyfi bæjarstjórnar skulu staðfestar í bæjarstjórn á fyrsta fundi hennar eftir sumarleyfi.“

 

Ljóst er að framangreindar reglur hafa verið ítrekað brotnar á yfirstandandi rekstrarári með því að fara fram yfir fjárheimildir einstakra liða fjárhagsáætlunar án þess að bregðast við á þann hátt sem að framan greinir. Um þetta hefur ekki verið upplýst með viðunandi hætti né lögð fram beiðni um viðauka til að afla heimildar og að gera grein fyrir hvernig útgjöldum verði mætt. Þrátt fyrir ítrekaðar ábendingar bæjarfulltrúa minnihluta um þörf á slíku þó ekki væri til annars en að uppfylla skilyrði laga og reglna kaupstaðarins.

Það er jafnframt fráleitt að halda öðru fram en að framúrkeyrslur þessar jafnháar og sumar eru þegar orðnar upp úr miðju rekstrarárinu hafi ekki áhrif á afkomu.

 

Fyrsta og önnur málsgreinar 63. greinar sveitarstjórnarlaga eru eftirfarandi:

 

Ákvörðun sem sveitarstjórn tekur skv. 1. mgr. 62. gr. um fjárhagsáætlun næstkomandi árs er bindandi regla um allar fjárhagslegar ráðstafanir af hálfu sveitarfélagsins. Aðrir geta þó ekki byggt sjálfstæðan rétt til fjárframlaga eða annarrar fyrirgreiðslu sveitarfélags á fjárhagsáætlunum.

Óheimilt er að víkja frá fjárhagsáætlun skv. 1. mgr. nema sveitarstjórn hafi áður samþykkt viðauka við áætlunina. Á þetta við um hvers kyns ákvarðanir, samninga eða aðrar fjárhagslegar ráðstafanir sem hafa í för með sér breytingar á tekjum, útgjöldum, skuldbindingum eða tilfærslur milli liða í fjárhagsáætlun í þegar samþykktri áætlun. Viðauki er ekki gildur nema hann feli einnig í sér útfærða ákvörðun um það hvernig þeim útgjöldum eða tekjulækkun sem gert er ráð fyrir verði mætt. Á það einnig við þótt heildarútgjöld eða heildartekjur breytist ekki vegna samþykktar hans.

 

Það er því hafið yfir vafa að það er lögbrot að fara fram yfir fjárheimildir á þess að fyrir liggi samþykkt bæjarstjórnar.

 

Þess undarlegri verður atlagan að bæjarfulltrúanum Oddnýju Björku Daníelsdóttur, starfsfólki og endurskoðanda til að draga úr trúverðugleika þeirra.

 

Fyrsta málsgrein 55 greinar sveitarstjórnarlaga sem er eftirfarandi „Framkvæmdastjóri er æðsti yfirmaður annars starfsliðs sveitarfélagsins.

Hann skal sjá um að stjórnsýsla sveitarfélagsins samræmist lögum, samþykktum og viðeigandi fyrirmælum yfirmanna.“ 

Það er full ástæða til að meirihlutinn upplýsi með málefnalegum hætti hvernig hann telur fjármálastjórn kaupstaðarins geta verið ábyrga samkvæmt kosningaloforðum L- listans og hvernig hún samræmist 63. grein sveitarstjórnarlaga og reglum kaupstaðarins í því horfi sem hún er nú með heimildarlausum framúrkeyrslum án lögbundinna viðbragða.