Greinargerð með 1768. bæjarstjórnarfundi, lið 11.

Huga þarf hið fyrsta að fjárhagsstöðu Skaftfells myndlistarmiðstöðvar sem stendur frammi fyrir því að þurfa mögulega að loka stofnuninni fyrir árslok. Síðustu ár hefur framlag ríkisins af fjárlögum tryggt rekstur starfsins en þar sem stofnunin var ekki á fjárlögum vegna ársins 2020 þá brast sá grundvöllur. Þau sérfræðistörf sem stofnunin skapar eru mjög mikilvæg samfélaginu og landsbyggðinni. Stofnunin þjónar mikilvægu hlutverki í sýningarhaldi, fræðsluverkefnum af ýmsum toga og alþjóðlegu gestavinnustofustarfi. Stofnunin er rótgróin og hefur löngu sannað gildi sitt. Það er mikilvægt að tryggja slíkum stofnunum á landsbyggðinni fjárhagslegan grundvöll með árlegum föstum framlögum af fjárlögum, lengri samningum og tryggja þannig störf og stöðugri og faglegri framþróun til lengri tíma. Bæjarfélagið og SSA hafa gert samning til 5 ára við Skaftfell um 5 milljóna króna framlag á ári, hvort um sig. En framlag SSA grundvallast á samningi um sóknaráætlun SSA og ríkisins um sóknaráætlun landshlutans.

Tækniminjasafn Austurlands er áhugavert og mikilvægt safn með gífurleg tækifæri til að eflast og dafna, samfélaginu öllu til góða. Það glímir við talsverð uppsöfnuð fjárhagsvandræði sem helgast m.a. af því að framlög frá ríkisvaldinu og atvinnulífinu sem var helsta fjármögnun þess er nánast horfin. Það fjármagn sem safnið hefur fengið frá sveitarfélaginu er grundvöllur rekstrar þess, auk annarra sértekna safnsins, en dugar ekki til að tryggja rekstur þess og faglegt starf vegna fyrrgreinds samdráttar í framlögum. Um þessar mundir stendur yfir endurskoðunar- og skipulagningarvinna sem mun leiða af sér stefnumörkun og markvissa og raunhæfa aðgerðaáætlun til lengri og skemmri tíma. Bæjarstjórn Seyðisfjarðarkaupstaðar leggur á það þunga áherslu að nýtt sveitarfélag komi með öflugum hætti að uppbyggingu safnsins svo tryggja megi framtíð þess og rekstur.

LungA lýðskólinn vinnur nú að umsókn sinni um viðurkenningu skólans innan menntakerfisins. Það er mjög mikið í húfi fyrir bæinn að þetta ferli gangi vel þar sem sú viðurkenning mun tryggja starf hans áfram. Það starf sem LungA lýðskólinn hefur byggt upp á Seyðisfirði hefur haft ómæld áhrif fyrir bæjarfélagið, sérstaklega yfir vetrartímann. Skólinn hefur skapað ný og spennandi störf, bætt lífsgæði með aukinni þjónustu, tryggt fyrirtækjum fastar tekjur á lágönn og síðast en ekki síst laðað að ungt fólk til staðarins til náms og upplifunar. LungA lýðskólinn er fyrirmynd um hvernig er hægt að styðja við landsbyggðina. Bæjarfélagið hefði viljað styðja betur fjárhagslega við skólann á síðustu árum. Það hefur því miður ekki tekist þar sem mikið er af menningarverkefnum á borði bæjarins og fjármagn takmarkað. Seyðisfjarðarkaupstaður er í hópi þeirra sveitarfélaga í landinu sem leggur hvað mest fjármagn til menningarmála sem hlutfall af skatttekjum.

Þessi upptalning hér er ekki tæmandi listi yfir þá miklu starfsemi sem er á sviði skapandi greina á Seyðisfirði í dag. Fyrirhugað hefur verið að vinna menningarstefnu sem getur stutt betur við þessa þróun þar sem það stendur greininni fyrir þrifum að vera aðeins með trygga starfsemi frá ári til árs. Það verður að leggja á það áherslu að breyta þessum verkháttum og skapa betri grundvöll til uppbyggingar. Bæjarstjórn Seyðisfjarðar leggur til við bæjarstjórn nýs sameinaðs sveitarfélags að eiga samtal við forstöðumenn þessara stofnana sem fyrst með það í huga að finna leiðir til að efla þær og styrkja til frekari atvinnusköpunar og framþróunar.