Atvinnu- og framtíðarmálanefnd 05.09.17

40. fundur atvinnu- og framtíðarmálanefndar

Boðað var til fundar þriðjudaginn 5. september 2017 kl. 16:15 í atvinnu- og framtíðarmálanefnd Seyðisfjarðar. Fundurinn var haldinn á bæjarskrifstofunni að Hafnargötu 44.

Mætt: Örvar Jóhannson, Dagný Erla Ómarsdóttir, sem ritaði fundargerð, Anna Guðbjörg Sigmarsdóttir, Arnbjörg Sveinsdóttir. Guðjón Már Jónsson kom kl. 17:15. Hanna Cristel Sigurkarlsdóttir boðar forföll.

 

Dagskrá:

Formaður óskar eftir að leita afbrigða og samþykkja nefndarmenn það einróma.

 

1. Afbrigði – Málefni sauðfjárbænda.

Nefndin samþykkir eftirfarandi ályktun:

„Atvinnu- og framtíðarmálanefnd  Seyðisfjarðarkaupstaðar skorar á stjórnvöld að bregðast nú þegar við þeirri alvarlegu stöðu sem komin er upp í sauðfjárrækt í kjölfar boðaðra lækkana á afurðaverði á hausti komanda. Miðað við núverandi stöðu er mikil hætta á alvarlegri byggðaröskun sem kæmi þungt niður á samfélögum til sveita og þeim sveitarfélögum sem byggja að miklu leyti á landbúnaði.

Koma þarf til samstarfs stjórnvalda, forystu bænda, afurðastöðva og allra hlutaðeigandi til að leysa stöðuna sem uppi er og treysta með því rekstrarskilyrði sauðfjárræktar til framtíðar. Einnig telur nefndin nauðsynlegt að stjórnvöld vinni markvisst að því að styrkja undirstöður til fjölbreyttara atvinnulífs í hinum dreifðu byggðum landsins.“

 

2. Vinna við fjárhagsáætlun.

Rætt um stefnumótunarvinnu og þörf á að ljúka útgáfu skýrslu. Nefndin telur því að það sé þörf á fjármögnun til að ljúka þessari vinnu.

 

3. Upplýsingarit fyrir nýja íbúa.

Nefndin leggur til að upplýsingarit fyrir nýja íbúa verði uppfært og geymt á heimasíðu kaupstaðarins.

 

4. Verklagsreglur um atvinnustarfsemi í sveitarfélögum.

Nefndin leggur til að bæjarstjóri undirbúi drög að verklagsreglum.

 

Arnbjörg víkur af fundi kl 17:25 fyrir lið 5.

 

5. Lokun fjarvarmaveitu.

Nefndin  leggur til við bæjarstjórn að aflað verði lögfræðiálits um réttarstöðu íbúa, fyrirtækja og kaupstaðarins vegna áforma Rariks um að hætta rekstri fjarvarmaveitu í kaupstaðnum. Þrátt fyrir loforð Rarik um kostnaðarþáttöku og kynningu á svokölluðum styrkjum (eingreiðslu) frá Orkustofnun, í bréfi sem Rarik sendi til bæjarbúa vegna þessara áforma. Nefndin telur að hætt sé við að breytingarnar muni hafa í för með sér mikla kostnaðaraukningu fyrir íbúa og fyrirtæki, bæði vegna uppsetningar og framtíðarreksturs og viðhalds.

 

5. Næsti fundur.

3. Október 2017 kl. 16:15

 

Fundi slitið: 18:10.