2496. bæjarráð 22.01.20

2496. fundur bæjarráðs Seyðisfjarðarkaupstaðar

Miðvikudaginn 22. janúar 2020 kom bæjarráð Seyðisfjarðar saman til fundar á skrifstofu kaupstaðarins að Hafnargötu 44. Fundurinn hófst kl. 16:00. 

 

Fundinn sátu:

Rúnar Gunnarsson formaður, L - lista,

Hildur Þórisdóttir L - lista,

Elvar Snær Kristjánsson D - lista,

Vilhjálmur Jónsson áheyrnarfulltrúi B - Lista,

Aðalheiður Borgþórsdóttir bæjarstjóri.

 

Fundargerð ritaði Aðalheiður Borgþórsdóttir.

Fundargerð var færð í tölvu.

 

Dagskrá:

1. Fundargerðir:

1.1. Ferða- og menningarnefnd frá 09.01.2020

Varðandi lið nr. 1 vísar bæjarráð til 1757. fundar bæjarstjórnar þar sem tillagan var afgreidd.

Varðandi lið nr. 2 í fundargerð. Fulltrúi Seyðisfjarðarkaupstaður upplýsir um málið: Verið er að kalla eftir upplýsingum frá Ferðamálastofu til hvers er ætlast af Austurbrú þegar kemur að rekstri Upplýsingamiðstöðva. Stefnt er að stjórnarfundi í kringum mánaðamótin þar sem þetta verður rætt. Stjórn Austurbrúar mun taka ákvörðun um framhaldið.  Austurbrú hefur verið að reyna að fá upplýsingar um hvers vegna fjármagn hefur dregist saman milli ára um rúm 700 þúsund. Markaðsstofurnar og Austurbrú eiga að skila inn tillögu í byrjun febrúar hvernig á að nýta fjármunina en sú tillaga verður ekki send inn án samráðs við stjórn Austurbrúar og aðra hagaðila.

Varðandi lið nr. 3. Viðburðurinn varð upphaflega til hjá sveitarfélaginu og hefur ætíð verið óhagnaðardrifinn. Bæjarsjóður hefur frá upphafi stutt hátíðina með því að annast bókhaldið og bæjarfulltrúar alltaf haft aðgang að reikningum og reikningsskilum. Í samstarfi við Erasmus+ hefur það verið gríðarlega mikilvægt að hafa svo sterkt bakland sem raun ber vitni. LungA er landsþekkt hátíð sem hlotið hefur Eyrarrósina, Menningarverðlaun Austurlands, heiðursverðlaun Erasmus + og getið af sér fyrsta listalýðskóla landsins. Hátíðin hefur auk þess skapað tekjur fyrir verslun, þjónustu og félagasamtök í bænum. Hátíðin hefur ávallt verið mikils metin af hálfu sveitarfélagsins og það hefur aldrei komið fram formleg ósk frá sveitarfélaginu um að breyta fyrirkomulaginu.

Fundargerð samþykkt.

 

2. Erindi:

2.1. List í ljósi – 15.01.2020 – Sesselja Hlín Jónasardóttir og Celia Harrison.

Bæjarráð samþykkir að verða við erindinu. Hækkun styrks um kr. 500.000  verða greiddar út af deild 2159 lykli 9991. Bæjarstjóra falið að ganga frá málinu.

2.2. Kvennaathvarf – styrkbeiðni.

Bæjarráð samþykkir að styrkja verkefnið um kr. 50.000 sem verða greiddar út af deild 2159 lykli  9951 og felur bæjarstjóra að ganga frá málinu.

2.3. Aron Thorarensen persónuverndarfulltrúi – 15.01.2020 – Minnisblað vegna álagningakerfis fasteignagjalda.

Lagt fram til kynningar.

2.4. Umhverfisstofnun – 10.01.2020 – Endurvinnsluhlutfall heimilisúrgangs í sveitarfélaginu.

Sláandi er að sjá hversu lágt hlutfall endurvinnsluúrgangs er frá Seyðisfirði og birtist í því yfirliti frá Umhverfisstofnun sem lá fyrir fundinum. Hlutfall Seyðisfjarðarkaupstaðar er 5,78% sem er 44,22% frá settu markmiði Umhverfisstofnunar fyrir árið 2020.

Bæjarráð felur bæjarstjóra að óska eftir fundi með forsvarsmönnum Íslenska gámafélagsins. 

2.5. Lóðarumsókn – 07.01.2020 – Tryggvi Gunnarsson.

Bæjarstjóri víkur af fundi kl 16:50 og kemur aftur á fundinn kl. 17:00.

Bæjarráð óskar eftir frekari upplýsingum frá byggingarfulltrúa varðandi stöðu lóðar við Langatanga 7. Byggingarfulltrúa falið að skila inn minnisblaði um málið og að ræða við hlutaðeigandi aðila.

 

3. Samstarf sveitarfélaga:

3.1. Samband íslenskra sveitarfélaga– 13.01.2020 lykiltölur um skólahald 2018 eftir sveitarfélögum. 

Lagt fram til kynningar.

3.2.   Samtök orkusveitarfélaga – 15.01.2020 – Boð í kynnisferð Samtaka orkusveitarfélaga til Noregs um vindorku.

Lagt fram til kynningar.

 

4. Styrkir og framlög 

Bæjarstjóri leggur fram eftirfarandi bókun.

Á 1757.  fundi bæjarstjórnar 15. janúar s.l. gerðu bæjarfulltrúarnir Oddný Björk og Elvar Snær grein fyrir mótatkvæðum sínum við afgreiðslu á lið nr. 7. Viðauki nr. 2, viðbótastyrkur til LungA skóla kr. 1.000.000. Ástæða er til að leiðrétta þá alvarlegu rangfærslu sem kemur fram í bókun bæjarfulltrúanna. Ekki er hægt að sjá hvernig fulltrúar fá það út að skólinn sé að fá 1/3 af  „almennum styrkjum“ eins og fullyrt er að sé reyndin. Þar fyrir utan er ekkert til sem heitir almennir styrkir í bókum bæjarins Heildarstyrkir til menningar- íþrótta og annarra samfélagsmála fjárhagsárið 2020 eru samtals um kr. 40.766.443

 

5. EFLA – 16.01.2020 - Sundhöll Seyðisfjarðar

Bæjarráð samþykkir tilboð Eflu í hönnun lagna í laugakerfi og loftræstingu samkvæmt tilboði dags 10. janúar 2020. Málinu vísað til umsagnar í velferðanefnd og umhverfisnefnd.

 

6. Samstarf um heilsueflingu

Bæjarráð samþykkir þátttöku í verkefninu og óskar eftir því að fá fund með bréfriturum.

 

7. Trúnaðarmál – fært í trúnaðarbók

 

8. Ofanflóðamál

Bæjarráð Seyðisfjarðarkaupstaðar harmar það að þær hamfarir er dundu yfir Vestfirði í síðustu viku hafi þurft til þess að opna á umræðuna um ofanflóðasjóð. Seyðisfjörður er einn þeirra staða sem kallað hefur eftir vörnum bæði fyrir snjó- og aurflóðum. Sérfræðingar hafa rannsakað og skilað skýrslum, forhönnun varnargarða liggur fyrir en fjármagnið vantar. Bæjarráð tekur undir með þeim sem hafa minnt stjórnvöld á að breyta þurfi áherslum ríkissjóðs á þann veg að það fjármagn sem greitt hefur verið í svokallaðan ofanflóðasjóð verði nýtt í varnir. Komið hefur fram í fjölmiðlum að í ríkisstjórninni sé vilji til þess að úr þessu verði bætt sem er þakkavert.

Bæjarráð Seyðisfjarðar minnir á að árið 1885 féll eitt mannskæðasta snjóflóð Íslandssögunnar úr Bjólfinum, sópaði flóðið 15 húsum út í sjó, 90 manns lentu í flóðinu og 24 létust. Árið 1995 sópaðist fiskimjölsverksmiðja út í sjó, einnig staðsett undir Bjólfinum. Mikil mildi að ekki varð manntjón þar. Við viljum því minna á að hamfarir sem þessar geta átt sér stað hvenær sem er. Bæjarráð Seyðisfjarðar krefst þess að ofanflóðasjóður verði fjármagnaður að fullu og gert kleift að uppfylla skyldur sínar.

 

Fundi slitið kl. 18:21.

Fundargerð er á 4 bls.