2508. bæjarráð 29.04.20

Miðvikudaginn 29.04.2020 kom bæjarráð Seyðisfjarðar saman til fundar í Zoom fjarfundi. Fundurinn hófst kl. 16:00.  

Fundinn sátu:

Rúnar Gunnarsson formaður, L –lista.

Hildur Þórisdóttir, L-lista.

Elvar Snær Kristjánsson, D – lista.

Vilhjálmur Jónsson áheyrnarfulltrúi, B - lista.

Aðalheiður Borgþórsdóttir, bæjarstjóri.

 

Fundargerð ritaði Aðalheiður Borgþórsdóttir.

Fundargerð var færð í tölvu.

 

Formaður óskar eftir afbrigðum við dagskrá fundarins. Liður nr. 6 gerð viðauka og nr. 7 lántaka. Afbrigði samþykkt.

 

Gerðir fundarins:

1. Vinnufundur: Drög að aðgerðaráætlun. Bæjarstjórn er boðið á fundinn undir þessum lið, Benedkikta, Þórunn og Oddný sátu fundinn og Sigurður Álfgeir sat undir þessum lið og fór sérstaklega yfir fjármálastöðu sveitarfélagsins og horfur.

Umræður um framlagða aðgerðaráætlun, fjárhag og lausnir á tímum COVID-19. Nauðsynlegt er að útbúa viðauka vegna tekjumissis sveitarfélagsins sem og að taka lán hjá Lánasjóði sveitarfélaga. Þar fyrir utan þarf að veita bæjarstjóra heimild til að fá frekari yfirdrátt til þess að brúa bilið þar til lánagreiðsla verður afgreidd.

 

Hér vék Sigurður, Þórunn, Benedikta og Oddný af fundi kl. 17:40.

 

2. Fundargerðir:

2.1. Umhverfisnefnd frá 27.04.2020

Varðandi lið nr. 1. Bæjarráð leggur eftirfarandi fyrir bæjarstjórn:

Skipulagslýsing fyrir breytingu á aðalskipulagi Borgarfjarðarhrepps 2004 – 2016 til umsagnar.

„Bæjarstjórn veitir jákvæða umsögn um málið.“ 

Varðandi lið nr. 2. Bæjarráð leggur eftirfarandi fyrir bæjarstjórn:

Um er að ræða tillögu að óverulegri breytingu á aðalskipulagi Seyðisfjarðarkaupstaðar 2010-2030 vegna Strandarvegar 21. Breytingin hefur tímabundið gildi og miðast við 6 ár frá gildistöku skipulagsbreytingarinnar. Landnotkunin mun heimila gistirekstur sem takmarkast við 25 gesti skv. starfsleyfi.

Bæjarráð fagnar því að komin sé reikniregla fyrir leyfilegan mannfjölda á svæðinu og leggur til við bæjarstjórn að samþykkja tillöguna svo hægt sé að leiða málið til lykta.“  

 

Hildur og Rúnar samþykkja tillöguna en Elvar er á móti og gerir grein fyrir atkvæði sínu.  

Skipulagsstofnun hefur lagst gegn breyttri landnotkun á þessu svæði (sjá lið 2.5 í fundargerð bæjarráðs nr. 2477). Veðurstofan hefur ítrekað mælt gegn auknum umsvifum á svæðinu, nú síðast í minnisblaði dagsettu 16. janúar 2020 sem er fylgigagn fundarins, auk þess að benda á skyldur sveitarfélagsins til að leitast við að stýra skipulagsgerð og þróun byggðar með tilliti til ofanflóðahættu og vísar í reglugerð um hættumat vegna ofanflóða nr. 505 frá  júlí 2000 (gr. 23) máli sínu til stuðnings.

Það er því einstaklega óábyrgt að líta á minnisblað frá verkfræðistofu sem einhvers konar lögbundna reiknireglu. Sérstaklega í ljósi þess að þau gögn sem Verkráð byggir á tekur Veðurstofan fram að eru ónákvæm auk þess sem matsmaður Verkráðs tekur fram að um margar breytur sé að ræða sem snerta niðurstöður matsins og að ekki sé um sérfræðimat á hættu á svæðinu að ræða né mat á lagalegu hið málsins.

Elvar Snær Kristjánsson.

 

Bæjarráð óskar eftir því að reikniregla varðandi aukna áhættu á ofanflóðasvæðum sem  skilgreind eru C-svæði og Verkráð hefur unnið fyrir kaupstaðinn verði send til staðfestingar hjá Umhverfisráðuneytinu og felur bæjarstjóra að koma málinu í farveg.

Varðandi lið nr. 4. Bæjarráð leggur eftirfarandi fyrir bæjarstjórn:

Bæjarráð tekur vel í erindið. Bæjarráð tekur undir með nefndinni og leggur áherslu á að horfa á götuna sem eina heild og að hún falli að framtíðaráformum miðbæjarskipulags. Bæjarráð samþykkir að bæjarstjóri eigi fund með hlutaðeigandi og skipulags- og byggingarfulltrúa um málið og útfærslur þess.

 

Fundargerð samþykkt.

 

2.2. Ferða- og menningarnefnd frá 27.04.2020 

Varðandi lið 1. Nefndin stefnir að því að halda fund  með hagsmunaaðilum í ferðaþjónustu og menningargeira til að ræða um stöðu greinanna í ljósi heimsfaraldursins COVID-19

Bæjarráð tekur undir með nauðsyn þess að fundurinn verði haldinn.

Fundargerð samþykkt.

 

3. Erindi:

3.1. VSÓ ráðgjöf – 24.04.2020 – Snjóflóðavarnir, kynningartími frummatsskýrslu.

Lagt fram til kynningar.

3.2.  Samband íslenskra sveitarfélaga – 22.04.2020 – Átaksverkefni á vegum ríkis og sveitarfélaga.

Lagt fram til kynningar.

3.3.  Skrifstofa Alþingis, nefndarsvið – 24.04.2020 – 643. mál til umsagnar.

Lagt fram til kynningar.

3.4.  Samband íslenskra sveitarfélaga – 27.04.2020 – fundargerð 881. Fundar stjórnar Sambandsins.

Fundargerð vísað til bæjarstjórnar.

 

4. Austurvegur 22 – kauptilboð

Bæjarráð felur bæjarstjóra að óska eftir fresti á kauptilboðinu.

 

5. Samstarf sveitarfélaga:

5.1. Austurbrú 24.04.2020 – Fundur bæjarstjóra.

Lagt fram til kynningar.

5.2. Austurbrú – 22.04.2020 – MMF tímaskýrsla 2019 og vinnuskýrsla janúar – mars 2020.

Bæjarráð óskar eftir því að framkvæmdastjóri Austurbrúar komi á næsta fund ráðsins.   

 

6. Gerð viðauka

Bæjarráð samþykkir að semja viðauka í samræmi við umræður á fundinum. Bæjarstjóra er falið að undirbúa viðauka og leggja fyrir bæjarráð á aukafundi mánudaginn 4. maí kl. 12:00.

 

 7. Lántaka.

Bæjarráð samþykkir að leggja til lántöku í samræmi við umræður á fundinum. Bæjarstjóra er falið að undirbúa lánaumsókn og leggja fyrir bæjarráð á aukafundi mánudaginn 4. maí kl. 12:00.

 

Fundi slitið kl. 19:55

Fundargerð er á 4 bls.