Bæjarráð 01.03.16

2352.  fundur í bæjarráði Seyðisfjarðar 

Þriðjudaginn 01.03.16 kom bæjarráð Seyðisfjarðar saman til fundar á skrifstofu bæjarins að Hafnargötu 44. Fundurinn hófst kl. 16:00. 

Mætt: Margrét Guðjónsdóttir, Þórunn Hrund Óladóttir og Vilhjálmur Jónsson sem ritaði fundargerð.

Dagskrá:

1. Fundargerðir:

1.1. Fundargerð 18. fundar velferðarnefndar frá 23.02.16. Vegna liðar 6 í fundargerðinni tekur bæjarráð undir með velferðarnefnd og fagnar fyrirhuguðum aðgerðum í forvarnarmálum.Vegna tillögu í lið 8 er varðar erindi frá heilsueflingarnefnd Alcoa, samþykkir bæjarráð að frítt verði í sund umræddan dag, ekki liggur fyrir hver dagsetningin er, en miða skal við reglubundinn opnunartíma Sundhallar. Vegna liðar 8 í fundargerðinni, erindi frá Samgöngustofu um niðurstöður könnunar um öryggi barna í bíl árið 2015. Varðar hluti könnunarinnar Leikskólann Sólvelli á Seyðisfirði. Í ljós kom að aðeins 85% barna reyndust í réttum öryggisbúnaði, þ.e. bílstól eða bílpúða og ökumenn bílanna reyndust aðeins í 75%  tilvika vera með bílbelti. Bæjarráð hvetur foreldra og eða ökumenn til að tryggja öryggi barna í umferðinni með viðeigandi öryggisbúnaði.   Fundargerðin samþykkt.

2. Erindi:

2.1. Eignarhaldsfélagið Brunabótafélag Íslands 22.02.16. Styrktarsjóður EBÍ 2016. Í erindinu er vakin athygli á að sjóðurinn tekur á móti umsóknum í sjóðinn frá aðildarsveitarfélögum EBÍ til loka apríl 2016. Tilgangur sjóðsins er að styrkja sérstakar athuganir eða rannsóknir á ýmsum þróunarþáttum í atvinnulífi, samgöngum, fræðslu- og menningarmálum í aðildarsveitarfélögum. Umsóknir skulu vera vegna sérstakra framfaraverkefna sveitarfélaganna en ekki vegna almennra rekstrarverkefna þeirra. Til úthlutunar í ár, eru fimm milljónir króna. Bæjarráð samþykkir að óska eftir tillögum frá fastanefndum kaupstaðarins. Senda þarf umsóknir fyrir apríllok, því er óskað eftir að tillögur berist bæjarráði fyrir 1. apríl n.k.

2.2. Héraðsskjalasafn Austfirðinga 22.02.16. Beiðni um aukin rekstrarframlög. Í erindinu er beðið um hækkun framlaga frá aðildarsveitarfélögum safnsins þar sem launahækkanir hafi verið vanáætlaðar í fjárhagsáætlun fyrir árið 2016.  Ný fjárhagsáætlun fyrir árið gerir ráð fyrir því að laun og launatengd gjöld hækki um 1,5 milljónir króna. Rekstrarframlög þurfi því að hækka úr 20 milljónum króna í 22 milljónir króna að teknu tilliti til forsendna framlaganna. Bæjarráð samþykkir að verða við erindinu með fyrirvara um að önnur aðildarsveitarfélög samþykki að verða við því fyrir sitt leyti.

2.3. Samorka 26.02.16. Auglýst eftir tilnefningum til umhverfisviðurkenningarinnar Kuðungsins. Umhverfisnefnd falið að senda inn tilnefningu kaupstaðarins.

2.4. Samband sveitarfélaga á Austurlandi 29.02.16. Tilnefning í starfshóp um áhersluverkefni Sambands sveitarfélaga á Austurlandi árið 2016. Bæjarstjóra falið að afla frekari upplýsinga um málið.

3. Ísland ljóstengt - Ljósleiðaravæðing á Austurlandi. Fundargerð frá fundi sveitarstjóra um ljósleiðaravæðingu á Austurlandi frá 24.02.16. Lagt fram til kynningar.

4. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald nr. 85/2007 (heimagisting, veitingastaðir án áfengisveitinga, ótímabundin rekstrarleyfi), mál 457. Frumvarpinu er ætlað að einfalda löggjöf og einfalda tiltekinni tegund gistingar aðgang að starfa löglega á gistimarkaði fyrir ferðamenn. Verði frumvarpið að lögum óbreytt mun það fela í sér mismunun milligistitegunda. Óskýrt er með framkvæmd 90 daga heimildar og eftirlits með henni. Þá er gert ráð fyrir óþarfri milligöngu vegna umsagna umsagnaraðila. Bæjarstjóra falið að senda umsögn bæjarráðs um frumvarpið.

Fleira ekki tekið fyrir og fundi slitið kl. 18:26.