Bæjarráð 08.07.16

2365.  fundur í bæjarráði Seyðisfjarðar

Föstudaginn 08.07.16 kom bæjarráð Seyðisfjarðar saman til fundar á skrifstofu bæjarins að Hafnargötu 44. Fundurinn hófst kl. 10:00. 

Mætt: Margrét Guðjónsdóttir, Þórunn Hrund Óladóttir og Vilhjálmur Jónsson ritaði fundargerð.

Fundargerðin var færð í tölvu.

 

Gerðir fundarins:

1. Fundargerðir:

1.1. Fundargerð umhverfisnefndar frá 04.07.16.

Í lið 4 í fundargerðinni „Botnahlíð 10, umsókn um leyfi til sölu gistingar“ er að finna umsögn nefndarinnar um umsóknina. Sótt er um leyfi fyrir gististað í flokki I skv. 3. gr. laga nr. 85/2007 (heimagisting). Um er að ræða endurnýjað leyfi.

Með vísan til niðurstöðu umhverfisnefndar vegna umsóknar um leyfi til sölu gistingar að Botnahlíð 10, um að afgreiðslutími og staðsetning staðar sem umsókn lýtur að sé innan þeirra marka sem reglur og skipulag kaupstaðarins segja til um, samþykkir bæjarráð leyfisveitingu fyrir sitt leyti“.

Í lið 5 í fundargerðinni „Botnahlíð 31, umsókn um leyfi til sölu gistingar“ er að finna umsögn nefndarinnar um umsóknina. Sótt er um leyfi fyrir gististað í flokki II skv. 3. gr. laga nr. 85/2007 (Íbúðir). Um er að ræða nýtt leyfi.

Bæjarráð samþykkir að vísa umsögn umhverfisnefndar aftur til umfjöllunar nefndarinnar með hliðsjón af gildandi aðalskipulagi þar sem landnotkun svæðisins er skilgreind sem íbúðarsvæði en ekki gert ráð fyrir  hreinni atvinnustarfsemi. Bæjarráð bendir á að umsögn sveitarfélags skal staðfesta að afgreiðslutími og staðsetning staðar sem umsókn lýtur að sé innan þeirra marka sem reglur og skipulag sveitarfélagsins segja til um

Vegna liðar 6 í fundargerðinni „Deiliskipulag í Lönguhlíð, tillaga að breytingu“.

Bæjarráð samþykkir að vísa tillögu umhverfisnefndar til umfjöllunar nefndarinnar með hliðsjón af gildandi aðalskipulagi þar sem landnotkun svæðisins er skilgreind sem frístundabyggð.

Tillaga umhverfisnefndar í lið 8.1. í fundargerðinni vegna tilkynningar frá Heilbrigðiseftirliti Austurlands um rottugang á Egilsstöðum.

Bæjarráð samþykkir að vísa tillögunni til bæjarverkstjóra til vinnslu.

Fundargerðin samþykkt.

 

2. Erindi:

2.1. Þjóðskrá Íslands 14.06.16. Fasteignamat 2017.

Lagt fram til kynningar.

2.2. Samband íslenskra sveitarfélaga 29.06.16. Styrkir til uppbyggingar á innviðum fyrir rafbíla.

Bæjarráð samþykkir að vísa erindinu til umhverfisnefndar.

2.3. Samband íslenskra sveitarfélaga 29.06.16. Viðmiðunarlaunatafla fyrir fulltrúa í sveitarstjórnum.

Lögð fram viðmiðunarlaunatafla fyrir fulltrúa í sveitarstjórnum ásamt kynningarbréfi um aðdraganda og forsendur töflunnar.

Bæjarráð samþykkir að taka erindið til nánari umfjöllunar við gerð fjárhagsáætlunar.

2.4. Minjastofnun 30.06.16. Umsóknir um styrki til að undirbúa tillögur að verndarsvæði í byggð.

Bæjarráð samþykkir að fela bæjarstjóra að fara yfir erindið með Miðstöð menningarfræða með það fyrir augum að starfsmaður hennar undirbúi umsókn kaupstaðarins. Í því sambandi verði horft til hverfisvernduðu byggðarinnar í bænum.

2.5. Vegagerðin 29.06.16.

Úthlutun til styrkvega 2016. Í erindinu er kynnt úthlutun 2016 sem er 2 milljónir króna.

Bæjarráð felur bæjarstjóra að ganga frá samningi í samræmi við niðurstöðu ráðsins frá 19. apríl síðastliðnum.

 

3. Ísland ljóstengt – útboðsskylda í kjölfar markaðskönnunar.

Lagt fram til kynningar.

 

4. Fjárhagskerfi.

Lagður fram tölvupóstur frá Advania þar sem kynnt er að SFS fjárhagskerfið verður ekki þróað frekar eftir 1. nóvember 2016 og þjónustu við það verður hætt 1. mars 2017.

Bæjarráð felur bæjarstjóra að vinna að málinu í samræmi við umræður á fundinum.

 

Fleira ekki tekið fyrir og fundi slitið kl. 13:24.