Bæjarráð 15.03.17

2389.  fundur í bæjarráði Seyðisfjarðar

Miðvikudaginn 15.03.17 kom bæjarráð Seyðisfjarðar saman til fundar á skrifstofu bæjarins að Hafnargötu 44. Fundurinn hófst kl. 16:00. 

Mætt: Elfa Hlín Pétursdóttir, Margrét Guðjónsdóttir og Vilhjálmur Jónsson sem ritaði fundargerð.

Fundargerðin var færð í tölvu.

 

Gerðir fundarins:

1. Fundargerðir:

1.1. Fundargerð velferðarnefndar frá 28.02.17.

Vegna liðar 2 í fundargerðinni um tómstundarnámskeið fyrir börn í sumar, samþykkir bæjarráð að formaður velferðarnefndar og þjónustufulltrúi gangi frá samningi við námsskeiðshaldara í samræmi við heimildir í fjárhagsáætlun.

Fundargerðin samþykkt.

 

2. Erindi:

2.1. Eignarhaldsfélagið Brunabótafélag Íslands 23.02.17. Styrktarsjóð EBÍ 2017.

Bæjarráð felur atvinnu-, menningar- og íþróttafulltrúa að undirbúa tillögu um umsókn kaupstaðarins vegna áningarstaða við Seyðisfjarðarveg um Fjarðarheiði.

2.2. Skaftfell – myndlistarmiðstöð Austurlands. 02.03.17. Skipulagsskrá Skaftfells.

Lögð fram skipulagsskrá Skaftfells myndlistarmiðstöð Austurlands sem samþykkt var í stjórn Skaftfells.

Bæjarráð vísar skipulagsskránni til afgreiðslu í bæjarstjórn.

2.3. Heilbrigðisstofnun Austurlands 02.03.17. Brýn málefni HSA.

Lagt fram minnisblað sem framkvæmdastjórn Heilbrigðisstofnunar Austurlands tók saman í kjölfar fundar með sveitarstjórum á Austurlandi í febrúar um brýn málefni stofnunarinnar.

Samkvæmt minnisblaðinu kemur greinilega fram að niðurskurður á fjárhag stofnunarinnar til fjölda ára ásamt skorti á stefnumótun stjórnvalda um heilbrigðismál hefur skert heilbrigðisþjónustu við íbúa á Austurlandi.

Bæjarráð samþykkir að óska eftir að stjórn Sambands sveitarfélaga á Austurlandi taki málið fyrir á fundi stjórnarinnar og fylgi því eftir við Velferðarráðuneytið við fyrsta tækifæri í samræmi við ályktun aðalfundar sambandsins frá síðasta hausti. Bæjarráð samþykkir jafnframt að bjóða forstjóra Heilbrigðisstofnunar Austurlands til fundar til að fara yfir stöðu stofnunarinnar og þjónustuframboð á Seyðisfirði.

2.4. Envo ehf. 3.03.17. Sorporka.

Lagður fram tölvupóstur frá Envo ehf. ásamt skýrslu um förgun sorps á umhverfisvænan og orkuskapandi hátt.

2.5. Samband sveitarfélaga á Austurlandi 07.03.17. SvAust ehf. – Aðkoma sveitarfélaga á Austurlandi – fundarboð.

Lagður fram tölvupóstur með fundarboði til sveitarfélaga á Austurlandi.

2.6. Samband íslenskra sveitarfélaga 4.03.17. Niðurstöður úttektar Evrópumiðstöðvar á menntun án aðgreiningar á Íslandi.

Lögð fram til kynningar.

2.7. Listahátíðin List í Ljósi 07.03.17. Lokaskýrsla List í Ljósi 2017.

Lögð fram til kynningar.

Bæjarráð þakkar hátíðarhöldurum fyrir metnaðarfulla og vel heppnaða hátíð.

2.8. Snerpa 8.03.17. Málþing á Flateyri 5.-6. maí 2017 um stöðu smærri byggðalaga.

Lagt fram til kynningar boð um að sækja málþing á Flateyri 5.-6. maí næstkomandi um stöðu smærri byggðalaga

2.9. Samband íslenskra sveitarfélaga 8.03.17. Undirbúningur vegna nýrra persónuverndarreglna.

Lagt fram til kynningar.

2.10. Alþingi 10.03.17. Frumvarp til laga um orlof húsmæðra (afnám laganna), 119. mál.

Lagt fram til kynningar.

2.11. Ríkiskaup 10.03.17. Rafrænt útboðskerfi – upplýsingar um stöðu verkefnis.

Lagt fram til kynningar.

2.12. Samband sveitarfélaga á Austurlandi 14.03.17. Kynningarfundur um skipulagsmál á haf- og strandsvæðum.

Lagt fram boð um að sækja kynningarfund um skipulagsmál á haf- og strandsvæðum þann 21. mars næstkomandi.

Bæjarráð samþykkir að sækja fundinn og hvetur skipulagsfulltrúa, umhverfisnefnd og hafnarmálaráð til að mæta til fundarins.

2.13. Alþingi 14.03.17. Frumvarp til laga um tekjustofna sveitarfélaga (afnám lágmarksútsvars), 120. mál.

Bæjarráð veitti umsögn um frumvarp sama efnis 26.11.14.

Bæjarráð áréttar fyrri umsögn sem er eftirfarandi. „Bæjarráð telur að huga þurfi að tekjuöflun og tekjustofnum sveitarfélaga með heildrænum hætti, áður en farið er í þá breytingu sem lögð er til í frumvarpinu“.

 

3. Samstarf sveitarfélaga:

3.1. Fundargerð almannavarnarnefnd Múlaþings frá 28.02.17.

Lögð fram til kynningar.

3.2. Fundargerð 6. fundar stjórnar SSA 7. mars 2017.

Lögð fram til kynningar.

 

4. Fjármál 2017.

4.1. Seyðisfjarðarskóli, beiðni um heimild fyrir fjölgun stöðugilda á leikskóladeild.

Bæjarráð samþykkir að heimila fjölgun um 1,5 stöðugildi í leikskóladeild og felur bæjarstjóra að undirbúa viðauka við fjárhagsáætlun vegna þess sem lagður verði fyrir bæjarstjórn í apríl.

 

5. Vestdalseyri – fornleifaskráning.

Bæjarráð felur bæjarstjóra að vinna að málinu í samræmi við umræður á fundinum.

 

6. Húsnæðismál.

Farið yfir efni fundar sveitarfélaga með Íbúðarlánasjóði sem fulltrúar kaupstaðarins sóttu. Þar sem meðal annars var fjallað um stefnumörkun í málaflokknum og gerð húsnæðisáætlana sveitarfélaga. Fyrirhugað er að taka gerð húsnæðisáætlana sveitarfélag upp á næsta stjórnarfundi Sambands sveitarfélaga á Austurlandi.

 

7. Fjárhagsáætlun 2018.

Lögð fram áætlun um undirbúning og vinnslu fjárhagsáætlunar fyrir árið 2018.

Bæjarráð samþykkir framlagða áætlun sem send verður forstöðumönnum og nefndum.

Bæjarráð samþykkir jafnframt að rammar fjárhagsáætlunar fyrir árið 2018 verði unnir á grunni þriggja ára áætlunar, tekið verði mið af útkomu ársins 2016 og viðmiðum bæjarstjórnar um afkomu og fjárhagsstöðu kaupstaðarins.

 

8. Samstarfssamningur um heilsueflandi samfélag.

Lagður fram samningur milli Embættis landlæknis og Seyðisfjarðarkaupstaðar um þróunarverkefnið heilsueflandi samfélag. Verkefnið miðar að því að efla lýðheilsu og lífsgæði íbúa Seyðisfjarðar með markvissum, þverfaglegum heilsueflingaraðgerðum.

 

9. Liður 1.1. frá 2385. fundi bæjarráðs vegna liða 1-3 í fundargerð fræðslunefndar frá 24.01.17.

Teknir fyrir að nýju liðir 1-3 í fundargerð fræðslunefndar er varða starfsþróunaráætlun Seyðisfjarðarskóla 2017-2018, Stefna, viðmið og verklag í forföllum starfsmanna, Verklagsreglur vegna manneklu í deildum skólans og Starfslýsingar deildarstjóra leikskóla-, grunnskóla- og listadeildar. Á fundi skólastjóra með bæjarstjóra kom fram að framangreindar áætlanir, stefna, viðmið og verklagsreglur fara vel með þeim drögum sem fyrir liggja að starfsmannastefnu.

Bæjarráð leggur eftirfarandi tillögu fyrir bæjarstjórn.

„Bæjarstjórn samþykkir að í skipuriti Seyðisfjarðarskóla hafi deildarstjórar leikskóla-, grunnskóla- og listadeildar starfsheitin aðstoðarskólastjórar viðkomandi deilda eins og kemur fram í starfslýsingum. Þá verði í leikskóladeild gert ráð fyrir því svigrúmi að deildarstjóri/aðstoðarskólastjóri leikskóladeildar geti í stað þess að gegna jafnframt deildarstjórahlutverki einnar deildar leikskóladeildar verið svokallaður flakkari, í því felst að leysa af deildarstjóra og að veita deildunum stuðning með afleysingum eftir þörfum og því sem við verður komið“.

 

10. Seyðisfjarðarskóli – endurbætur.

Bæjarráð felur bæjarstjóra að vinna að undirbúningi málsins í samræmi við umræður á fundinum um endurbætur á húsnæði og starfsaðstöðu skólans og bætt aðgengi í gamla skóla.

 

11. Starfsmannastefna.

Bæjarráð samþykkir að framlengja frest til starfsmanna til 27. mars 2017 til að skila inn ábendingum og/eða umsögnum um framlögð drög að starfsmannastefnu.

 

Fleira ekki tekið fyrir og fundi slitið kl. 19:17.