Bæjarráð 17.02.16

2350.  fundur í bæjarráði Seyðisfjarðar.

Miðvikudaginn 17.02.16 kom bæjarráð Seyðisfjarðar saman til fundar á skrifstofu bæjarins að Hafnargötu 44. Fundurinn hófst kl. 15:00. 

Mætt: Margrét Guðjónsdóttir, Þórunn Hrund Óladóttir og Vilhjálmur Jónsson sem ritaði fundargerð.

Í upphafi bar formaður upp afbrigði til að bæta inn lið nr. 7 „Fundur vegna undirbúnings Fjarðarheiðarganga 16.02.16.“ Afbrigði samþykkt með öllum greiddum atkvæðum.

Dagskrá:

1. Erindi:

1.1. Heimili og skóli 12.02.16. Ályktun stjórnar Heimilis og skóla um niðurskurð í leik- og grunnskólum landsins. Í ályktuninni lýsir stjórn Heimilis og skóla yfir áhyggjum af niðurskurði í leik- og grunnskólum. Af tilefninu tekur bæjarráð fram að ekki er fyrirhugaður niðurskurður hjá Seyðisfjarðarkaupstað í þá veru sem vitnað er til og felur bæjarstjóra að koma því á framfæri við Heimili og skóla.

2. Samstarf sveitarfélaga:

2.1. Fundargerð 3. fundar samgöngunefndar SSA starfsárið 2015-2016 frá 11.02.16. Lögð fram til kynningar. Gestir fundarins undir öðrum lið voru Hreinn Haraldsson vegamálastjóri, Sveinn Sveinsson svæðisstjóri og Sigurbergur Björnsson skrifstofustjóri í innanríkisráðuneytinu. Í máli vegamálastjóra kom m.a. fram að í ár eru fjárheimildir til framkvæmda við öryggisaðgerðir á Seyðisfjarðarvegi sem farið verður í fyrir 100 milljónir króna og í rannsóknir til undirbúnings Fjarðarheiðarganga sem nemur 150 milljónum króna.

3. Þróun almenningssamgangna á Austurlandi (SvAust). Bæjarstjóri greindi frá efni funda sem farið hafa fram hjá starfshópi um þróun almenningssamgangna á Austurlandi (SvAust).

4. Ísland ljóstengt. - Ljósleiðaravæðing á Austurlandi. Lögð fram gögn vegna ljósleiðaravæðingar á Seyðisfirði m.a. tilboð frá Eflu í skýrslugerð samkvæmt Áfanga 1 – Upplýsinga og skipulagsstig eins og skilgreint er í „Gátlista fyrir sveitarfélög og opinbera aðila í tengslum við uppbyggingu ljósleiðaraneta“, útgefnum af Póst og fjarskiptastofnun.

5. Leiguíbúðir Seyðisfjarðarkaupstaðar. Lögð fram drög að reglum um leiguíbúðir Seyðisfjarðarkaupstaðar. Bæjarráð samþykkir að vísa drögunum til umfjöllunar í velferðarnefnd.

6. Fjármál 2016. Farið yfir beiðni vegna fjármögnunar hljóðkerfis í félagsheimilið Herðubreið. Bæjarstjóra falið að afla frekari upplýsinga vegna beiðninnar.

7. Fjarðarheiðargöng - Fundur vegna undirbúnings Fjarðarheiðarganga 16.02.16. Til fundarins mættu Sveinn Sveinsson svæðisstjóri Vegagerðarinnar á Austurlandi og Gísli Eiríksson forstöðumaður jarðgangadeildar Vegagerðarinnar til að kynna bæjarstjórn Seyðisfjarðar undirbúning áframhaldandi rannsókna á Fjarðarheiði vegna Fjarðarheiðarganga. Á fundinum var fjallað um nauðsynlegar breytingar á aðalskipulögum sveitarfélaganna sem liggja að framkvæmdinni. Þá kom fram að fyrirhugað er að bjóða út rannsóknir við möguleg munnastæði í mars nk.  og áætlað er að rannsóknum verði lokið í ár, 2016.

Fleira ekki tekið fyrir og fundi slitið kl. 16:20.