Bæjarráð 19.04.17

2393.  fundur í bæjarráði Seyðisfjarðar

 

Miðvikudaginn 19.04.17 kom bæjarráð Seyðisfjarðar saman til fundar á skrifstofu bæjarins að Hafnargötu 44. Fundurinn hófst kl. 16:00. 

Mætt: Elfa Hlín Pétursdóttir, Margrét Guðjónsdóttir og Vilhjálmur Jónsson sem ritaði fundargerð.

Formaður leitaði í upphafi fundar afbrigða til að bæta á dagskrá fundarins lið nr. 4 “Frumvarp til laga um skipulag haf- og strandsvæða, þingskjal 539, 408. mál.“ og lið nr. 5 „Ríkisfjármálaáætlun – breyting á virðisaukaskatti á ferðaþjónustu“.

Afbrigði samþykkt með öllum greiddum atkvæðum.

 

Fundargerðin var færð í tölvu.

 

Gerðir fundarins:

1. Erindi:

1.1. Náttúruverndarsamtök Austurlands 07.04.17. Átak í hreinsun ónýtra girðinga – árangur og áframhald.

Í erindinu er óskað eftir stöðuskýrslu vegna hreinsunar ónýtra girðinga á síðasta ári.

Bæjarráð samþykkir að fela bæjarverkstjóra og umhverfisnefnd að taka saman skýrslu um stöðu og árangur af hreinsunarátaki síðasta sumars og skila ráðinu.

1.2. Elfa Hlín Pétursdóttir f.h. Hafnarhópsins 07.04.17. Endurnýjun lóðasamnings.

Í erindinu er óskað endurnýjunar á leyfi fyrir afnot af svæði á uppfyllingunni sem Hafnarmarkaðurinn hefur haft. Undir þessum lið vék Elfa Hlín af fundi.

Handverksmarkaðurinn hyggst með samþykki Hafnarmarkaðarins sækja um byggingarleyfi fyrir atvinnuhúsnæði á hinu tiltekna svæði.

Bæjarráð samþykkir með vísan til 3. gr. hafnarreglugerðar fyrir Seyðisfjarðarhöfn nr. 275/2006 að vísa erindinu til hafnarmálaráðs.

1.3. Samband íslenskra sveitarfélaga 10.04.17. Helstu mál á vettvangi ESB 2017.

Lögð fram skýrsla um helstu mál á vettvangi ESB og EFTA 2017 sem Samband íslenskra sveitarfélaga hefur tekið saman.

1.4. Alþingi 10.04.17. Þingsályktunartillaga um opnun neyðarbrautarinnar á Reykjavíkurflugvelli, 156. mál.

Bæjarráð fagnar fram kominni þingsályktunartillögu um brýnt hagsmuna- og öryggismál íbúa landsbyggðanna og ferðamanna og áréttar umsögn bæjarstjórnar Seyðisfjarðar sem birtist í  ályktun hennar frá 15. febrúar 2017 um Reykjavíkurflugvöll og er eftirfarandi:

Reykjavíkurflugvöllur – Neyðarbraut.

„Bæjarstjórn Seyðisfjarðar ályktar eftirfarandi um lokun brautar 06/24 á Reykjavíkurflugvelli:

Lokun brautar 06/24 á Reykjavíkurflugvelli, svokallaðrar neyðarbrautar hefur í vetur sýnt sig vera áhættusamt hættuspil. Það hefur komið í ljós að sjúkraflugvélar hafa ekki getað lent í Reykjavík né annars staðar á Suðvesturhorninu með bráðveikt fólk sem hefur þurft á nauðsynlegri umönnun að halda á eina hátæknisjúkrahúsi landsmanna.

Með lokun brautarinnar var aðgengi að þessari bráðnauðsynlegu þjónustu sett í verulegt uppnám og áhættu. Úr því þarf að bæta án tafar með því að opna brautina á ný uns jafn örugg og trygg lausn er fundin.

Þá hefur komið í ljós að umfjöllun um brautina og að hluta rökstuðningur fyrir lokun hennar hefur verið byggður á röngum forsendum samanber ítarlega athugun Öryggisnefndar félags íslenskra atvinnuflugmanna ÖFÍA. Niðurstaðan var að útreiknaður nothæfisstuðull Reykjavíkurflugvallar skv. ICAO staðli á braut 06/24 í skýrslu Eflu væri rangur og að ekki hefði verið tekið með í reikninginn bremsuskilyrði á flugbrautunum.

Að betur athuguðu máli eftir reynslu vetrarins hljóta málsaðilar að vilja axla ábyrgð og endurskoða þá stöðu sem sjúkraflugið hefur verið sett í.

Bæjarstjórn Seyðisfjarðar skorar á borgarstjórn Reykjavíkur, Alþingi og samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra að tryggja öryggi íbúa landsbyggðanna og ferðafólks með því að opna neyðarbrautina að nýju, í það minnsta þangað til önnur jafn trygg og örugg leið hefur verið opnuð.”

1.5. Alþingi 10.04.17. Þingsályktunartillaga um millilandaflug um Hornafjarðarflugvöll, 222. mál.

Lögð fram til kynningar.

1.6. Alþingi 10.04.17. Þingsályktunartillaga um skiptingu útsvarstekna milli sveitarfélaga, 270. mál.

Í tillögunni er lagt til að Alþingi álykti að fela fjármála- og efnahagsráðherra að skipa starfshóp sem kanni hvort unnt sé að skipta útsvarstekjum einstaklinga milli tveggja sveitarfélaga. Ráðherra hafi samráð við ráðherra sem fer með sveitarstjórnarmál og Samband íslenskra sveitarfélaga.

Bæjarráð tekur undir þau sjónarmið sem fram koma í greinargerð með tillögunni. Bæjarráð bendir jafnframt á að um leið væri skynsamlegt að horfa til eflingar tekjustofna sveitarfélag með heildarsýn.

1.7. Alþingi 10.04.17. Frumvarp til laga um breytingu á sveitarstjórnarlögum (íbúakosningar), 184. mál.

Lagt fram til kynningar.

1.8. Icelandlastminute ehf. 10.04.17. Boð til sveitarfélaga að draga saman yfirlit yfir Airbnb gististaði.

Lagt fram til kynningar. Bæjarráð telur að nokkuð góð yfirsýn sé yfir stöðu í málaflokknum hjá kaupstaðnum og því ekki þörf á frekari upplýsingum um stöðuna.

1.9. Samband sveitarfélaga á Austurlandi 11.04.17. Norræna ráðherranefndin – samstarfsverkefni um sjálfbæra þróun í bæjum og borgum á Norðurlöndum – möguleikar á að sækja um þátttöku.

Lagt fram til kynningar.

1.10.         Árni Elísson 07.04.17. Fyrirspurn til bæjarstjórnar um málefni Herðubreiðar.

Lagt fram til kynningar. Erindið verður tekið til umfjöllunar á næsta fundi bæjarstjórnar.

1.11.         Starfsendurhæfing Austurlands 12.04.17. Fundargerð ársfundar Starfsendurhæfingar Austurlands frá 31.03.17.

Lögð fram til kynningar ásamt ársreikningi ársins 2016.

1.12.         Samband íslenskra sveitarfélaga 12.04.17. Málþing um sáttmála SÞ um réttindi fatlaðs fólks – markmið og markhópur.

Í erindinu  er kynntur undirbúningur að málþingi um innleiðingu sáttmála sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem haldið verður 16. maí nk.

1.13.         Samband sveitarfélaga á Austurlandi 18.04.17. Fundur með fjárlaganefnd.

Í erindinu er kynnt fyrirhugað fyrirkomulag að fundum sveitarstjórnarstigsins með fjárlaganefnd.

Bæjarráð felur bæjarstjóra að fara yfir áherslur Seyðisfjarðarkaupstaðar með verkefnisstjóra sveitarstjórnarmála. Mesta hagsmunamál Seyðfirðinga er að framkvæmdir við Fjarðarheiðargöng hefjist skv. núgildandi samgönguáætlun en þar segir: „Miðað verði við að rannsóknum og undirbúningi Seyðisfjarðarganga verði hagað með þeim hætti að hægt verði að hefja framkvæmdir við jarðgöng undir Fjarðarheiði í kjölfar Norðfjarðarganga og Dýrafjarðarganga“. Það er afar mikilvægt að fjármálaáætlun geri ráð fyrir fullri fjármögnun samgönguáætlunar 2011-2022.

2. Erindi eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga frá 7.03.17.

Farið yfir sjónarmið og stefnumörkun bæjarstjórnar vegna rekstur A-hluta kaupstaðarins.

Bæjarstjóra falið að senda svar bæjarstjórnar. 

3. Umsóknir um styrki til samgönguleiða 2017.

Bæjarráð staðfestir umsóknir um styrki í styrkvegasjóð Vegagerðarinnar vegna: 1) Brimnesvegar, 1,5 milljónir króna. 2) Skálanesvegar, 2 milljónir króna. 3)  Skálanesvegar vegna brúar á Austdalsá, 10 milljónir króna. 4) Vegar í Vestdal, 1 milljón króna. 5) Vegar að útsýnisstað í Bjólfi, 1 milljón króna.

4. Frumvarp til laga um skipulag haf- og strandsvæða, þingskjal 539, 408. mál.

Lögð fram drög að erindi til umhverfis- og auðlindaráðherra þar sem athugasemdir eru gerðar við frumvarp til laga um skipulag haf- og strandsvæða og ætluðu hlutverki sveitarfélaga samkvæmt frumvarpinu. Jafnframt er óskað eftir fundi sveitarfélaganna sem í hlut eiga með ráðherranum sem fyrst.

Bæjarráð felur bæjarstjóra að árita erindið fyrir hönd kaupstaðarins.

5. Ríkisfjármálaáætlun – breyting á virðisaukaskatti á ferðaþjónustu.

Bæjarráð samþykkir að kanna viðhorf og tiltækar upplýsingar um áhrif breytinga á virðisaukaskatti á ferðaþjónustu á Seyðisfirði.

 

 

Fleira ekki tekið fyrir og fundi slitið kl. 17:49.