Bæjarráð 22.07.16

2366.  fundur í bæjarráði Seyðisfjarðar

Föstudaginn 22.07.16 kom bæjarráð Seyðisfjarðar saman til fundar á skrifstofu bæjarins að Hafnargötu 44. Fundurinn hófst kl. 10:30. 

Mætt: Margrét Guðjónsdóttir, Þórunn Hrund Óladóttir og Vilhjálmur Jónsson sem ritaði fundargerð.

Fundargerðin var færð í tölvu.

 

Gerðir fundarins:

1. Erindi:

1.1. Austurbrú 6.07.16. Beiðni um framlengingu frests vegna flutnings ábyrgðaraðildar Miðstöðvar menningarfræða.

Bæjarráð samþykkir að verða við erindinu og miðað verði við flutninginn í lok ágúst í stað lok júlí.

1.2. Elfa Hlín Pétursdóttir 8.07.16. Athugasemdir við verklag við uppsögn samnings um Miðstöð menningarfræða milli Seyðisfjarðarkaupstaðar og Austurbrúar.

Bæjarráð felur bæjarstjóra að senda svar bæjarráðs.

1.3. Samband sveitarfélaga á Austurlandi 11.07.16. Skipan fulltrúa í svæðisskipulagsnefnd.

Bæjarráð samþykkir að óska eftir tilnefningum frá umhverfisnefnd um tvo fulltrúa í svæðisskipulagsnefnd með hliðsjón af forsendum í erindinu.

1.4. Samtök atvinnulífsins 12.07.16. Lækkun tryggingargjalds.

Lagt fram til kynningar.

1.5. Íbúðarlánasjóður 13.07.16. Framkvæmd nýrra laga um almennar íbúðir.

Lagt fram til kynningar.

Samþykkt að vísa erindinu til umfjöllunar í atvinnu- og framtíðarmálanefnd.

1.6. Samband íslenskra sveitarfélaga 15.07.16. Landsfundur jafnréttisnefnda 2016 og ráðstefna.

Lagt fram til kynningar.

Samþykkt að vísa erindinu til umfjöllunar í velferðarnefnd.

 

2. Nefndarlaun vegna setu í starfshópum.

Bæjarráð samþykkir að taka málið til umfjöllunar við gerð fjárhagsáætlunar í tengslum við umfjöllun um lið 2.3. frá 2365. fundi ráðsins um viðmiðunarlaunatöflu frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga.

 

3. Starfsmannastefna.

Bæjarráð felur bæjarstjóra að yfirfara núgildandi starfsmannastefnu og taka saman drög að endurskoðun hennar ásamt fylgigögnum. 

 

4. Fornleifaskráning á Vestdalseyri.

Bæjarstjóri greindi frá undirbúningi og vinnu við fornleifaskráningu á Vestdalseyrinni. Stefnt er að því að ljúka verkefninu í haust.

 

5. Undirbúningur umsóknar um styrki til að undirbúa tillögur að verndarsvæði í byggð.

Bæjarstjóri gerði grein fyrir að Miðstöð menningarfræða ásamt skipulagsfulltrúa vinna að undirbúningi  umsóknar um styrk til að vinna greinargerð um mat á varðveislugildi hverfisverndaða svæðisins í kaupstaðnum.

 

6. Útleiga íbúðarhúsnæðis til gistingar til skamms tíma sem fellur ekki undir húsaleigulög nr. 36/1994.

Bæjarráð gerir eftirfarandi samþykkt um breytta notkun íbúðarhúsnæðis á Seyðisfirði:
Í Seyðisfjarðarkaupstað hefur ásókn aukist í að breyta notkun íbúðarhúsa til sölu gistingar, annarrar en  þeirrar sem fellur undir húsaleigulög nr. 361/1994 sbr. 7 mgr. 1. gr. þeirra laga.

Til að tryggja eins og kostur er að farið sé að lögum og reglum um þessi mál og að skipulags- og samkeppnissjónarmiða sé gætt samþykkir bæjarstjórn Seyðisfjarðar eftirfarandi:

1. gr. Heimagisting

Heimagisting í flokki I samkvæmt skilgreiningu reglugerðar nr. 585/2007 verði einungis heimiluð að undangenginni grenndarkynningu og sé í samræmi við skilgreiningu byggingarreglugerðar á flokkun húsnæðis m.t.t. brunavarna. Sýna verður fram á að næg bílastæði verði við húsið, það merkt starfseminni og að hún muni ekki hafa truflandi áhrif á íbúðabyggð. Við endurnýjun leyfa þarf að uppfylla sömu skilmála og ef um nýja umsókn væri að ræða.

2. gr. Íbúðargisting

Útleiga íbúðarhúsnæðis til gistingar í flokki II samkvæmt skilgreiningu reglugerðar nr. 585/2007 er óheimil, nema þar sem það samræmist aðal- og deiliskipulagi. Sýna verður fram á að næg bílastæði verði við húsið, það merkt starfseminni og að hún muni ekki hafa truflandi áhrif á íbúðabyggð sem fyrir er. Viðhöfð verði grenndarkynning vegna nýrra leyfa og endurnýjunar leyfa. Við endurnýjun leyfa þarf að uppfylla sömu skilmála og ef um nýja umsókn væri að ræða.

 

Fleira ekki tekið fyrir og fundi slitið kl. 12:23.