Bæjarráð 30.09.16

2371.  fundur í bæjarráði Seyðisfjarðar

Föstudaginn 30.09.16 kom bæjarráð Seyðisfjarðar saman til fundar á skrifstofu bæjarins að Hafnargötu 44. Fundurinn hófst kl. 10:00. 

Mætt: Elfa Hlín Pétursdóttir, Margrét Guðjónsdóttir og Vilhjálmur Jónsson sem ritaði fundargerð.

Formaður leitaði í upphafi fundar afbrigða til að bæta á dagskrá fundarins lið nr. 8 „Félagsheimilið Herðubreið“. Afbrigði samþykkt með öllum greiddum atkvæðum.

Fundargerðin var færð í tölvu.

Gerðir fundarins:

 

1. Fundargerðir:

1.1. Fundargerð 24. fundar velferðarnefndar frá 20.09.16.

Fundargerðin samþykkt.

1.2. Fundargerð umhverfisnefndar frá 26.09.16.

Vegna liðar 2 í fundargerðinni „Botnahlíð 33, umsókn um leyfi til sölu gistingar“. Bæjarráð samþykkir að vísa umsögn umhverfisnefndar aftur til umfjöllunar nefndarinnar með hliðsjón af gildandi aðalskipulagi þar sem landnotkun svæðisins er skilgreind sem íbúðarsvæði en ekki gert ráð fyrir hreinni atvinnustarfsemi. Sótt er um gistiskála og bent er á skilgreiningu gistiskála í reglugerð.  Bæjarráð bendir á að umsögn sveitarfélags skal staðfesta að afgreiðslutími og staðsetning staðar sem umsókn lýtur að sé innan þeirra marka sem reglur og skipulag sveitarfélagsins segja til um

Í lið 4 í fundargerðinni „BR. 2366 1.3a Tilnefning tveggja fulltrúa í svæðisskipulagsnefnd“ er að finna tilnefningar umhverfisnefndar um fulltrúa í svæðisskipulagsnefnd vegna gerðar svæðisskipulags Austurlands.

Bæjarráð samþykkir tilnefningar umhverfisnefndar um Höllu Dröfn Þorsteinsdóttur og Pál Guðjónsson sem fulltrúa Seyðisfjarðarkaupstaðar í svæðisskipulagsnefnd vegna gerðar svæðisskipulags Austurlands og Ólu Björg Magnúsdóttur sem varamann.

Vegna liðar 5 í fundargerðinni „BR. 2370 1.7 Skipulagsstofnun 10.000 tonna laxeldi í Seyðisfirði. Beiðni um umsögn“ er lögð fram drög að umsögn kaupstaðarins um málið sem bæjarstjóri hefur tekið saman. Farið yfir drögin. Ekki er um efnislega umsögn að ræða þar sem matstillagan er ekki tæk til þess að mati bæjarráðs.

Bæjarráð samþykkir að fela bæjarstjóra að senda umsögn kaupstaðarins um málið.

Fundargerðin samþykkt.

 

2. Erindi:

2.1. Minjastofnun 14.09.16. Úthlutun styrks úr húsafriðunarsjóði 2016. Verndarsvæði í byggð – Seyðisfjörður.

Í bréfi Minjastofnunar er tilkynnt að Minjastofnun hefur samþykkt styrk til kaupstaðarins til undirbúnings tillögu að verndarsvæði í byggð.

Bæjarráð þakkar Minjastofnun styrkveitinguna og felur bæjarstjóra að undirbúa framvindu verkefnisins.

2.2. Austurbrú 21.09.16. Uppbygging á innviðum fyrir rafmagnsbíla á Austurlandi.

Með erindinu er verið að kanna áhuga sveitarfélaga á þátttöku í uppbyggingu á innviðum fyrir rafmagnsbíla og þátttöku í sameiginlegri umsókn vegna þess til Orkusjóðs.

Bæjarráð samþykkir þátttöku í styrkumsókn til Orkusjóðs.

2.3. Heilbrigðiseftirlit Austurlands 22.09.16. Eftirlitsskýrsla 2016 vegna Gámavallar.

Lögð fram til kynningar.

2.4. Heilbrigðiseftirlit Austurlands 22.09.16. Eftirlitsskýrsla 2016 vegna Sundhallar.

Bæjarráð felur forstöðumanni sundhallar og bæjarverkstjóra að framkvæma úrbætur vegna ábendinga sem fram koma í skýrslunni með hliðsjón af fjárheimildum.

2.5. Velferðarráðuneytið 26.09.16 Boð á samráðsfund á Egilsstöðum um svæðisbundið samráð um aðgerðir gegn ofbeldi.

Bæjarráð samþykkir að sækja fundinn ásamt fulltrúa kaupstaðarins í félagsmálanefnd.

2.6. Framkvæmdasýsla ríkisins. 26.09.16 Snjóflóðavísindaferð.

Lagður fram tölvupóstur vegna undirbúningsferðar vegna vinnu við mat vegna ofanflóðahættu.

2.7. Blakdeild Hugins 26.09.16 Styrkbeiðni.

Bæjarráð fagnar því góða starfi sem blakdeildin hefur unnið með börnum og ungmennum á Seyðisfirði. Bæjarráð bendir blakdeildinni á að snúa sér til aðalstjórnar íþróttafélagsins Hugins með beiðnina en við það er miðað að stuðningur kaupstaðarins fari fram í gegnum aðalstjórn íþróttafélagsins Hugins en síður einstaka deildir þess. Bæjarráð bendir á að ekki hefur innheimt salarleiga vegna æfinga yngri flokka.

 

3. Samstarf sveitarfélaga:

3.1. Fundargerð 147. fundar félagsmálanefndar frá 21.09.16.

Lögð fram til kynningar.

 

4. Aðalfundur Samtaka sveitarfélaga á Austurlandi 2016.

Lögð fram drög að breytingartillögum og tillögum fyrir aðalfund SSA.

Bæjarráð samþykkir að fela fulltrúum kaupstaðarins að fylgja þeim eftir í nefndum aðalfundarins eftir því sem við á.

 

5. B-gatnagerðargjald.

Lagt fram minnisblað frá Breiðdalshreppi vegna málsins.

Heimild fyrir álagningu B-gatnagerðargjalds hefur verið framlengt í nokkrum sinnum og síðast til ársloka 2017. Nú er unnið að lausn málsins og að framlengingu samhliða henni til að svigrúm náist til að ljúka framkvæmdum sem það tilheyrir. Á við um nokkur sveitarfélög sem flest hafa lýst áhuga á að standa sameiginlega að viðræðum við stjórnvöld um mögulega aðkomu að málinu. Fimmtudaginn 22.09.16 komu fulltrúar sveitarfélaganna sér saman um starfshóp sem vinnur að framgangi málsins. Í honum eru Andrea Kristín Jónsdóttir Strandabyggð, Björn Hafþór Guðmundsson Breiðdalshrepp og Vilhjálmur Jónsson Seyðisfjarðarkaupstað.

 

6. Heilsueflandi samfélag og hreyfisvæði.

Á fundinn undir þessum lið mættu Eva Björk Jónudóttir þjónustufulltrúi og Jónína Brá Árnadóttir atvinnu-, menningar-, og íþróttafulltrúi og kynntu nánar áður innsent erindi um Heilsueflandi samfélag, hreyfisvæði og tillögu um að stofna stýrihóp um verkefnið.

Bæjarráð leggur svo eftirfarandi tillögu fyrir bæjarstjórn. „Bæjarstjórn samþykkir framkomna tillögu um þátttöku kaupstaðarins við innleiðingu á heilsueflandi samfélagsstefnu og stofnun stýrihóps til að fylgja innleiðingunni eftir“.

 

7. Innviðauppbygging ferðamannastaða.

Á fundinn undir þessum lið mættiJónína Brá Árnadóttir atvinnu-, menningar-, og íþróttafulltrúi. Farið yfir áherslur vegna innviðauppbyggingar.

Bæjarráð samþykkir að miða við að umsóknir í Framkvæmdasjóð ferðamannastaða verða annars vegar til hönnunar á og deiliskipulags heilstæðs göngustígakerfis á Seyðisfirði og hins vegar til brúargerðar á Austdalsá.

 

8. Félagsheimilið Herðubreið.

Farið yfir þætti vegna tilboðs í rekstur og starfsemi félagsheimilisins. Áfram í vinnslu.

 

Fleira ekki tekið fyrir og fundi slitið kl. 13:32.