Umhverfisnefnd 03.10.19

Fundargerð fundar umhverfisnefndar 3. október 2019.

Fimmtudaginn 03.10.2019 kom  umhverfisnefnd Seyðisfjarðarkaupstaðar saman til fundar í fundarsal bæjarstjórnar að Hafnargötu 44 og hófst fundurinn kl. 16:30

Fundarmenn:

Ágúst Torfi Magnússon formaður L-lista, Jón Halldór Guðmundsson L-lista, Lilja Kjerúlf L-lista, Sveinn Ágúst Þórsson D-lista, Skúli Vignisson D-lista, Gunnhildur Eldjárnsdóttir áheyrnafulltrúi og Úlfar Trausti Þórðarson byggingafulltrúi sem einnig ritaði fundargerðina.

 

Dagskrá 

Erindi:

1. Umhverfismál stofnana

Á fundi bæjarráðs sem haldinn var þann 11. september sl. var samþykkt að forstöðumenn skipti út hreinlætisvörum þannig að þær verði svansmerktar eftir því sem nokkur kostur er. Strangar kröfur svansins um lágmörkun umhverfisáhrifa tryggja að svansmerkt vara er betri fyrir umhverfið og heilsuna.

Bæjarráð felur Umhverfisnefnd að undirbúa gerð umhverfisstefnu og leggja mat á kostnað við gerð hennar sem verður tekin til umfjöllunar við gerð fjárhagsáætlunar.

Umhverfisnefnd fagnar erindinu og felur formanni nefndarinnar að afla frekari gagna um málið fyrir næsta fund.

 

2. Umsókn um nýtt námuleyfi

Vilhjálmur Konráðsson fyrir hönd Landsverk ehf. Kt. 590907-0730 sækir um vinnslu og rekstrarleyfi fyrir námu á eystri bakka Stafdalsár skv. meðfylgjandi teikningu. Reiknað er með vinnslu á efni allt að 45.000 m3 efnis á um 9.000 m2 svæði. Efnistaka er áætluð á 10 ára tímabili.

Málið var áður á dagskrá hjá Umhverfisnefnd þann 2. september sl. þar sem nefndin samþykkti erindið og fól byggingafulltrúa að vinna málið áfram. Nefndin lagði áherslu á að frágangur á svæðinu, á nýtingartíma, verði eins snyrtilegur ásýndar og unnt verði.

Eftir frekari skoðun á staðsetningu fyrirhugaðrar námu leggur byggingafulltrúi Seyðisfjarðar til að fyrirhugað námusvæðið verði flutt um ca. 500 m utar og neðar í Stafdal, fjær skíðasvæðinu. Aðaltilgangurinn er minni sjónmengun frá vegi. Á þessum stað væri jafnvel auðveldara að útbúa aðstæður fyrir betri námu en fyrirhugað var við klett út frá Stafdalsá.

Umhverfisnefnd bendir á að þar sem fyrirhugað námusvæði er inni á grannsvæði vatnsverndarsvæðis skv. aðalskipulagi Seyðisfjarðar þá flokkast hún sem framkvæmd í flokki B. Skv. lögum um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000 gr. 6 þarf framkvæmdaraðili að tilkynna Skipulagsstofnun um fyrirhugaða framkvæmd.  Nefndinni líst betur á framlagða hugmynd um að færa námusvæðið utar og neðar í Stafdal á grundvelli minni sjónmengunar. Umhverfisnefnd ítrekar að málið er enn í vinnslu.

 

3. Samband íslenskra sveitarfélaga – 31.07.2019 – fyrirmynd að gjaldskrá byggingarfulltrúaembætta.

Útskrift úr fundargerð 2479. fundar bæjarráðs Seyðisfjarðarkaupstaðar frá 07.08.2019.  Vísað til fjárhagsáætlunargerðar, umhverfisnefndar og skipulags- og byggingarfulltrúa. Leiðbeiningar um gjaldskrár byggingarfulltrúaembætta. Drög send út til umsagnar.

Málið var áður á dagskrá Umhverfisnefndar þann 2. september sl.

Umhverfisnefnd leggur til við bæjarstjórn að tímagjald byggingafulltrúa verði 12.000 kr. Nefndin leggur einnig til að horft verði til fyrirhugaðrar leiðbeiningar frá Sambandi Íslenskra Sveitarfélaga.

 

4. Ljósleiðari – strenglagning um Austdal, umsókn um stöðuleyfi

Neyðarlínan sækir um stöðuleyfi fyrir fjarskiptaskýli til bráðabirgða. Skýlið verður staðsett í jaðri flugbrautar í landi Þórarinsstaða við Seyðisfjörð sem er í eigu Seyðisfjarðarkaupstaðar.

Umhverfisnefnd samþykkir erindið

 

5. Gámur við Auðbjörgu

Umhverfisnefnd barst erindi frá Oddnýju Björk Daníelsdóttur vegna gáms sem staðsettur er við hliðina á Auðbjörginni.

Umhverfisnefnd þakkar fyrir erindið. Í framhaldinu skapaðist almenn umræða um gámamál innan sveitarfélagsins. Nefndin leggur við bæjarstjórn að farið verði í endurbætur á gámasvæðinu við höfnina. Byggingafulltrúi útbýr drög að bréfi og leggur fyrir nefndina sem sent yrði til gámaeigenda í bænum sem ekki hafa gild stöðuleyfi.

 

6. Umgengni á miðbæjarsvæðinu

Umhverfisnefnd ræddi um mikilvægi þess að umgengni væri góð á miðbæjarsvæðinu og í bænum almennt en bendir af gefnu tilefni á „Samþykkt um umgengni og þrifnað utanhúss í Fljótsdalshreppi, Fjarðarbyggð, Seyðisfjarðarkaupstað, Fljótsdalshéraði og Sveitarfélaginu Hornafirði.“

 

7. Háhraða fjarskiptanet – Frumvarp til umsagnar

Umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis sendir frumvarp til laga til umsagnar. Frumvarpið er um ráðstafanir til hagkvæmra uppbyggingar háhraða fjarskiptaneta.

 

Umhverfisnefnd gerir engar athugasemdir við frumvarpið. Lagt fram til kynningar.

 

8. Tré og Kerfill

Erindi frá íbúum að Hafnargötu 16B um slátt á Kerfli og trjáfellingu.

Umhverfisnefnd samþykkir erindið og felur tæknistjóra að vinna málið með bæjarverkstjóra.

 

Fleira var ekki tekið fyrir og fundi var slitið kl. 19:15.