Umhverfisnefnd 29.08.16

Fundur í umhverfisnefnd Seyðisfjarðar

Mánudaginn 29. ágúst 2016 kom umhverfisnefnd saman til fundar í fundarsal að Hafnargötu 44 kl. 16.15.  Mættir Elvar Snær Kristjánsson,  Óla Björg Magnúsdóttir, Páll Þór Guðjónsson, Halla Dröfn Þorsteinsdóttir og Íris Dröfn Árnadóttir auk byggingarfulltrúa sem ritaði fundargerð.

Formaður óskar afbrigða að taka á dagskrá erindi um að fella tré milli Björgvin og Elverhoj. Samþykkt samhljóða.

 

Gerðir fundarins:

1. Langitangi 7, aðalskipulagsbreyting skipulagslýsing, kynning, umsagnir.

Umsagnir bárust frá Vegagerðinni, Skipulagsstofnun, Minjastofnun, Haust og Veðurstofunni. Umhverfisnefnd fór yfir allar umsagnir og samþykkir að tekið verði tillit til þeirra við vinnslu tillögu að aðalskipulagsbreytingu. Nefndin samþykkir að leggja til við bæjarstjórn að vinna áfram tillögu að breytingu á aðalskipulagi er varðar breytta landnotkun í Langatanga á grundvelli  skipulagslýsingarinnar að teknu tilliti til umsagna og að höfðu samráði við umsagnaraðila. Auk þeirra umsagnaraðila sem hafa fengið lýsinguna til umsagnar verði haft samráð við Fiskistofu og Náttúrufræðistofnun.

 

2. Vestdalseyri, aðalskipulagsbreyting skipulagslýsing, kynning.

Umhverfisnefnd samþykkir að kynna  skipulagslýsinguna með opnu húsi mánudaginn 12. september  kl. 16:00 – 18:00.

 

3. Langitangi 7, umsókn um frekari stækkun lóðar.

Tekin fyrir umsókn um frekari stækkun lóðarinnar að Langatanga 7. Um er að ræða að stækka lóðina að þjóðveginum og niður að ánni. Umhverfisnefnd samþykkir fyrir sitt leyti stækkun að þjóðveginum. Varðandi stækkun að ánni samþykkir umhverfisnefnd að óska eftir frekari skýringum og röksemdum fyrir þeirri beiðni.

 

4. Bjólfsgata 3 beiðni um frest.

Tekið fyrir erindi frá Unnari Sveinlaugssyni þar sem óskað er eftir frekari fresti til að verða við skilyrðum fyrir byggingarleyfi fyrir Bjólfsgötu 3 eða niðurfellingu á skilyrði. Um er að ræða að breyta gluggum að því er varðar pósta í fögum í stað „gervilista“. Umhverfisnefnd samþykkir að falla frá fyrri skilyrðum fyrir byggingarleyfi varðandi frágang glugga.

 

5. Bjólfsgata 4 beiðni um leyfi til hækkunar á húsi.

Tekin fyrir beiðni um leyfi til að hækka húsið að Bjólfsgötu 4 frá Helga Gunnarssyni. Umhverfisnefnd samþykkir að óska eftir frekari gögnum til að grenndarkynna erindið.

 

6. Botnahlíð 31, umsókn um leyfi til sölu gistingar.

Tekin fyrir að nýju umsögn um umsókn um rekstrarleyfi til sölu gistingar í flokki II að Botnahlíð 31 að beiðni bæjarráðs. Leitað var álits Skipulagsstofnunar á málinu. Með hliðsjón af því og ákvæðum í Aðalskipulagi Seyðisfjarðarkaupstaðar 2010 – 2030 sér nefndin ekki ástæðu til að endurskoða fyrri ákvörðun.  

 

7. Deiliskipulag í Lönguhlíð, tillaga að breytingu.

Tekin fyrir að nýju tillaga að breytingu á deiliskipulagi í Lönguhlíð að beiðni bæjarráðs. Nefndin telur eðlilegt að landnotkun í aðalskipulagi verði breytt til samræmis við þá notkun sem þarna er og er fyrirsjáanleg að verði á svæðinu. Eðlilegt er að landnotkun verði breytt í viðskipta og þjónustusvæði miðað við þann rekstur sem þarna hefur verið ásamt því að skilgreina eina lóð fyrir íbúðarhús eins og deiliskipulagstillaga gerir ráð fyrir. Umhverfisnefnd leggur til við bæjarstjórn að landnotkun í aðalskipulagi á svæðinu verði breytt úr frístundasvæði í viðskipta og þjónustusvæði og svæði fyrir eina íbúðarlóð.

 

8. BR. 2365 2,2 Styrkir til uppbyggingar til innviða vegna rafbíla

Lögð fram gögn vegna ofangreinds erindis frá bæjarráði. Umhverfisnefnd leggur til að  bæjarráð láti gera þarfagreiningu og kostnaðaráætlun vegna þessa verkefnis.

 

9. BR. 2366 1,3a Tilnefning tveggja fulltrúa í svæðisskipulagsnefnd

Lögð fram beiðni um tilnefningu tveggja fulltrúa í svæðisskipulagsnefnd. Umhverfisnefnd samþykkir að óska eftir frekari upplýsingum um umfang nefndarstarfa og í hverju starfið er fólgið. Afgreiðslu frestað.

 

10. BR. 2366 6a Samþykkt bæjarráðs vegna leyfisveitinga til útleigu húsnæðis

Lögð fram samþykkt bæjarráðs vegna leyfisveitinga til útleigu húsnæðis.

 

11. BR. 2367 2,1 Ályktun frá Búnaðarþingi varðandi fjallskil

Lögð fram ályktun frá Búnaðarþingi varðandi fjallskil ásamt spurningum um framkvæmd við þau. Umhverfisnefnd vísar erindinu og spurningum til bæjarverkstjóra sem sér um framkvæmd þessa mála í kaupstaðnum. 

 

12. BS. 1714 3 Endurskoðun aðalskipulags, bókun bæjarstjórnar

Tekið fyrir erindi bæjarráðs um endurskoðun aðalskipulags varandi gistingu og atvinnustarfsemi í íbúðahverfum. Nefndin skoðar þessi mál fyrir næsta fund.

 

13. Erindi varðandi gangbrautir í kaupstaðnum

Nefndin ræddi erindið og fór yfir sjónarmið varðandi öryggi gangandi vegfarenda og aðgerðir til úrbóta. Nefndin samþykkir að vinna drög að tillögu að úrbótum fyrir næsta fund.

 

14. Lónsleira 17, byggingaráform, fyrirspurn

Lögð fram fyrirspurn og frumdrög að teikningum af fyrirhuguðum byggingaráformum að Lónsleiru 17. Nefndin gerir ekki athugasemdir við fyrirliggjandi drög fyrir utan fyrirvara um lofthæð í kjallara.

 

15. Múlavegur 16, umsókn um leyfi fyrir stoðvegg að götu

Lögð fram umsókn um leyfi til að steypa stoðvegg frá bílskúr og út að götu. Nefndin samþykkir erindið fyrir sitt leyti. Áskilið er samþykki bæjarins hvað varðar þann hluta veggjarins sem er utan lóðar.

 

16. Til kynningar:

16.1. HR 7 5 Hafnargarðurinn skipulag, kynning.

Lagt fram til kynningar.

 

17. Afbrigði, Vesturvegur 3 og 5, umsókn um leyfi til að fella tré á lóðarmörkum.

Lögð fram umsókn um leyfi til að fella tré á lóðamörkum milli lóðanna. Umhverfisnefnd samþykkir erindið fyrir sitt leyti.

 

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 19.30.