Umhverfisnefnd 30.03.20

Fundur umhverfisnefndar 30. mars 2020 

Mánudaginn 30.03.2020 kom  umhverfisnefnd Seyðisfjarðarkaupstaðar saman til fundar í fundarsal bæjarstjórnar að Hafnargötu 44 og hófst fundurinn kl. 16:21

Fundarmenn:

Ágúst Torfi Magnússon formaður L-lista, Jón Halldór Guðmundsson L-lista, Bjarki Borgþórsson L-lista, Sveinn Ágúst Þórsson D-lista, Skúli Vignisson D-lista og Úlfar Trausti Þórðarson byggingafulltrúi sem einnig ritaði fundargerðina.

 

Dagskrá

Í upphafi fundar óskaði formaður eftir því að taka erindi frá skipulagsfulltrúa varðandi lóðaúthlutun atvinnuhúsnæðis. Erindið felur í sér breytingu á núgildandi deiliskipulagi og verður málið númer 7 í dagskránni.

 

Erindi:

1. Göngustígar í Seyðisfirði – Vestdalur og Gufufoss

Framkvæmdasjóður Ferðamannastaða hefur staðfest styrk í verkefnið „Göngustígar í Seyðisfirði: Gufufoss að fjárhæð 3.400.000.- ísl. kr. Styrkurinn fellst í hönnun göngu- og hjólastígs frá þéttbýli í Seyðisfirði upp að Gufufossi neðan við Múla.

Framkvæmdasjóður Ferðamannastaða hefur einnig staðfest styrk í verkefnið „Göngustígakerfi í Seyðisfirði: Vestdalur að fjárhæð 7.061.130.- ísl. kr. Styrkurinn er veittur til að bregðast við miklum skemmdum á náttúru í dalnum. Ekki er um fulla styrkveitingu að ræða þar sem heimilt er að nýta hluta  af styrk síðasta árs enda verkefnin af svipuðum toga. Jónína Brá Árnadóttir og Ólafur Pétursson kynna verkefnin.

 

Umhverfisnefnd fagnar erindinu og telur verkefnið brýnt þar sem aukning umferðar gangandi vegfarenda hefur aukist undanfarin ár.

 

2. Auglýsing um umferð í Seyðifjarðakaupstað   

Við gerð auglýsingar, vegna fyrirhugaðrar gangbrautar við grunnskóla Seyðisfjarðar við Suðurgötu, benti Helgi Jensson fulltrúi lögreglu Austurlands á að auglýsingu fyrir umferð á Seyðisfirði vantaði. Skipulags- og byggingafulltrúi Seyðisfjarðar útbjó drög að auglýsingu í samvinnu við bæjarverkstjóra.

Umhverfisnefnd hefur farið yfir fyrirliggjandi drög að auglýsingu um umferð í Seyðisfjarðarkaupstað. Nefndin lagði til fjölgun á gangbrautum auk breytingar á gatnamótum Múlavegar og Botnahlíðar að Múlavegur eigi forgang. Nefndin leggur til við bæjarstjórn að auglýsingin verði send til birtingar og kynnt bæjarbúum.

 

3. Við Lónið – Beiðni um umsögn vegna rekstrarleyfis

Beiðni um umsögn frá sýslumanni vegna umsóknar um rekstrarleyfi skv. lögum nr. 85/2007 um veitingastaði, gististaði, og skemmtanahald. Gistileyfi í flokki II. Stærra gistiheimili. Gestafjöldi: 18. Umsækjandi er Við Lónið ehf. Kt. 590515-1080. Starfstöð: Norðurgötu 8, 710 Seyðisfirði. Fasteignanúmer 216-8704.  Heiti: Við Lónið Guesthouse. Forsvarsmaður: Margrét Guðjónsdóttir kt. 141281-5179

Landnotkun er í samræmi við aðalskipulag. Lokaúttekt hefur farið fram.

Umsögn Heilbrigðisnefndar Austurlands liggur fyrir og er jákvæð.

Umsögn Brunavarna Austurlands liggur fyrir og er jákvæð.

Umhverfisnefnd leggur til við bæjarstjórn  að veitt verði jákvæð umsögn.

 

4. Umferðaröryggisáætlun fyrir Seyðisfjörð

Umhverfisnefnd fól byggingafulltrúa að afla gagna og vinna að drögum um umferðaröryggisáætlun.   

Umhverfisnefnd gerði tillögu að samráðshópi og leggur til að hópurinn hefji störf sem fyrst. Málið er í vinnslu.

 

5. Áætlun um meðhöndlun úrgangs og smithættu af úrgangi vegna heimsfaraldurs

Umhverfisstofnun kynnir verklagsreglur vegna smithættu af sorpi og meðhöndlun úrgangs vegna heimsfaraldurs ásamt áætlun sem er gerð í samræmi við kafla 8.41 í landsáætlun Ríkislögreglustjóra og sóttvarnalæknis vegna heimsfaraldursins. Samkvæmt landsáætlun eru háskastig Almannavarna þrjú, þ.e. óvissustig, hættustig og neyðarstig sem lýst er yfir af Ríkislögreglustjóra.

Lagt fram til kynningar.

 

6. Erindi Frá Skógræktarfélagi Seyðisfjarðar

Nýskipuð stjórn Skógræktarfélags Seyðisfjarðar óskar góðfúslega áfram eftir farsælu samstarfi við stofnanir sveitarfélagsins líkt og verið hefur og óskar er eftir skilgreiningu á svæðum sem félagið má planta áfram í næstu áratugina. Vísað er í eldra samkomulag til hliðsjónar. Eins er spurt hvort komi til greina að planta í hlíðinni norðan byggðarinnar frá Hrútahjalla inn að Fjarðarseli. Skógræktarfélagið bíður einnig fram aðstoð sína tengt fyrirhugaðri uppbyggingu ofanflóða mannvirkja.

Umhverfisnefnd fagnar erindinu og vill sjá áframhaldandi farsælt samband við Skógræktarfélagið. Nefndin vísar til þess að við endurskoðun aðalskipulags var áformað að yfirfara afmörkun skógræktarsvæða og leggja mat á þörf á nýjum svæðum.  

 

7. Óveruleg breyting á deiliskipulagi

Erindi frá skipulagsfulltrúa varðandi deiliskipulagsbreytingu vegna lóðar við Búðarleiru 6. Breytingin fellst í uppskiptingu lóðarinnar 2,4,6. Stærð lóðarinnar er 4921 m2 en lóð númer 6 verður stök og 1.000 m2 að flatarmáli. Umhverfisnefnd metur sem svo að smávægileg breyting á deiliskipulagi eins og þessi kalli ekki á grenndarkynningu.

Umhverfisnefnd leggur til við bæjarstjórn að falla frá kröfum um grenndarkynningu skv. 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

 

Fleira var ekki tekið fyrir og fundi var slitið kl. 19.19.