Vinabæir

SandurSandur

Þann 27. júní 2005 var undirritaður samningur um vinabæjarsamstarf á milli Seyðisfjarðarkaupstaðar og Sands Kommuna í Færeyjum.


Áður voru vinabæirnir sex

Lyngby-Taarbæk í Danmörku, Vantaa í Finnlandi,  Nuuk í Grænlandi, Askim í Noregi, Huddinge í Svíðþjóð og Sandur í Færeyjum.


Sögulegt yfirlit

Hugmynd um vinabæi kom fyrst fram rétt fyrir síðari heimsstyrjöldina, eða þegar Norræna félagið átti frumkvæðið að því að koma á sambandi milli Uddevalla í Svíþjóð og Thisted í Danmörku árið 1939. Stríðið kom hins vegar í veg fyrir frekari þróun, en árið 1945 var þráðurinn tekinn upp að nýju. Tillögur voru gerðar að tengslum milli bæja eða sveitarfélaga í Danmörku og Svíþjóð, síðan bættist norskur bær í hópinn og því næst kom röðin að Finnlandi. Það var einfaldara þar sem í stríðinu höfðu skapast einhverskonar forsjártengsl milli sænskra og finnskra bæja, sem fólust í því að frá sænsku sveitarfélögunum var sendur fatnaður til finnsku bæjanna og veittur stuðningur við ekkjur og börn. Finnsku bæirnir tengdust síðan norrænu vinabæjakeðjunni í gegnum þessa sænsku forsjárbæi.


Vinabæir

Það var í desember 1945 sem Norræna félagið í Lyngby- Taarbæk fór að huga að vinabæjatengslum. Þaðan sneru menn sér til þáverandi bæjarstjórnar, sem þann 10. nóvember 1947 samþykkti vinabæina Askim í Noregi, Huddige í Svíþjóð og Dickursby í Finnlandi, sem seinna varð Helsinge Landskommun og nú heitir Vanda.


Víxlheimsóknir

Brátt hófust milli vinabæjanna velheppnaðar víxlheimsóknir skólabarna, síðar bæjaryfirvalda og ýmsir aðrir hópar fylgdu í kjölfarið. Árið 1951 bauð Helsinge Landskommun hinum vinabæjunum að senda fulltrúa til hátíðarhaldanna á 600 ára afmæli sveitarfélagsins. Það var í fyrsta skipti sem bæjarfulltrúar allra vinabæjanna fjögurra komu saman í einu. Síðar bættust Grænland og Ísland í hópinn. Godthåb/Nuuk varð vinabær 1965 og Seyðisfjörður 1980.


Samvinna

Fram á miðjan sjöunda áratuginn fólst samvinna vinabæjanna nær eingöngu í gagnkvæmum heimsóknum sendinefnda sem oft tengdust afmælum, vígslu mannvirkja eða þess háttar. Í Huddinge ákváðu menn árið 1965 að athuga hvort samvinna vinabæjanna gæti ekki orðið víðtækari. Í framhaldi af því var haft samband við hina vinabæina og leiddi það til þess að Lyngby-Taarbæk bauð til ráðstefnu árið 1967. Þar var ákveðið að halda slíka ráðstefnu annað hvert ár og mótuð var stefna um framhald samvinnunnar. Þetta leiddi til kraftmeiri samvinnu sem náði til skóla, æskulýðsfélaga, hljómsveita, leikhópa, sýninga, stjórnmála, fagfélaga, kirkju og námsmannasamtaka. Á ráðstefnu í Lyngby-Taarbæk árið 1975 var ákveðið að framvegis skyldu stóru ráðstefnurnar haldnar fjórða hvert ár. Hins vegar skyldu fulltrúar frá íþróttafélögum, úr menningargeiranum, skólum og bæjarstjórnum hittast árlega til að styrkja vinabæjasamstarfið.


Einn vinabær eftir

Þann 27. júní 2005 var undirritaður samningur um vinabæjarsamstarf á milli Seyðisfjarðarkaupstaðar og Sands Kommuna í Færeyjum. Samstarfið við Sands Kommuna mun til að byrja með standa fyrir utan vinabæjarsamkomulag Seyðisfjarðarkaupstaðar við önnur sveitarfélög. Þann 30. október 2012 samþykkti bæjarstjórn Seyðisfjarðar að segja upp vinabæjarsamstarfi við vinabæina aðra en Sand í Færeyjum sem lauk þar með. Engu að síður héldu norrænu vinabæirnir árlega ráðstefnu á Seyðisfirði árið eftir í samræmi við skipulag þar um.