Seyðisfjarðarskóli

Haustið 2016 hófst skólastarf í sameinuðum þriggja deilda skóla undir nafninu Seyðisfjarðarskóli. Skiptist hann í grunnskóladeild, leikskóladeild og listadeild. Að auki er skipulögð stoðdeild. Sýn skólans er sú að í hverjum nemenda búi fjársjóður. Hlutverk skólans er að þroska þann sjóð, mennta ábyrga, hæfa og skapandi einstaklinga í samvinnu við heimilin og nánu samstarfi deildanna, í samræmi við aðalnámskrá leik-og grunnskóla, lög og reglugerðir. Í nýrri skólastefnu kemur fram að leiðarljós starfsins sé góð samvinna, lýðræði og jafnrétti og jafnramt að sköpunarkraftur, sjálfbærni, fjölbreytileiki og gagnrýnin hugsun einkenni skólastarf í öllum deildum.

Sameining skólanna er viðamikið þróunarverkefni, en gera má ráð fyrir að helstu markmið náist smátt og smátt á þremur til fimm árum. Samstarf deildanna um útfærslu skólastefnu og þróun starfshátta í skólanum er þó verkefni sem lýkur í eðli sínu aldrei.

Skólastjóri Þórunn Hrund Óladóttir
Sími : 470-2323
Netfang : thorola@skolar.sfk.is


Sjá einnig


LeikskóladeildLeikskólinn Sólvellir
Garðarsvegur 1
Sími : 472-1350
Netfang : solvellir@skolar.sfk.is
Vefsíða leikskóladeildar
Aðstoðarleikskólastjóri Bryndís Skúladóttir


Leikskólinn Sólvellir var stofnaður árið 1974. Leikskóladeildin starfar í anda hugsmíðahyggju þar sem leikurinn er þungamiðja starfsins. Í leikskóladeildinni eru börn á aldrinum 1-5 ára, þeim er skipt upp í þrjá meginhópa; Álfhóll er deild eins ár barna. Vinaminni kallast deild 2-3 ára barna og Dvergasteinn er deild barna á aldrinum 4-5 ára barna. Þessum hópum er skipt eftir aldri og verkefnum í smærri einingar. Í boði er sveigjanlegur dvalartími. 

Leik- og grunnskóladeild Seyðisfjarðarskóla á gott samstarf um 5 ára nemendur leikskóladeildarinnar, þar sem lögð er áhersla á samfellu milli skólastiganna tveggja. Einnig er gott samstarf við listadeild skólans um tónlistarkennslu. Innra starf miðar við að starfað sé eftir skólanámskrá sem var samþykkt í fræðslunefnd í ágúst 2015.

Gjaldskrá


GrunnskóladeildSeyðisfjarðarskóli
Suðurgata 4
Sími : 470-2320
Netfang : seydisfjardarskoli@skolar.sfk.is
Vefsíða grunnskóladeildar
Aðstoðarskólastjóri Svava Lárusdóttir


Á Seyðisfirði hefur verið reglulegt skólahald fyrir börnin í bænum síðan veturinn 1881-1882. Glæsilegt skólahúsið kom tilhoggið frá Noregi og var reist á þremur mánuðum árið 1907, en svokallaður Nýi skóli var tekinn í notkun árið 1986. 

Stefna grunnskóladeildarinnar gerir ráð fyrir að boðið sé upp á einstaklingsmiðað nám og að unnið sé út frá styrkleikum hvers og eins nemanda. Gert er ráð fyrir að það búi fjársjóður með hverjum einstaklingi og að hlutverk kennara sé að aðstoða nemendur við að finna og þroska þann sjóð. Kennsla í grunnskóladeild miðast við samkennslu árganga. Starfinu er t.d. hægt að lýsa með hugtökum eins og sveigjanlegu skipulagi og fjölbreyttum kennsluaðferðum s.s. hefðbundinni kennslu, einstaklingsnámi, samvinnunámi og hópastarfi. Í grunnskóladeildinni er Byrjendalæsi nýtt á yngsta stigi. Innleiðing verkefnisins Orð af Orði á miðstigi og í unglingadeild hófst haustið 2016. Í Seyðisfjarðarskóla er mikið lagt upp úr því að nemendum líði vel, að börnin læri að skipuleggja nám sitt undir leiðsögn kennara og taki ábyrgð á eigin námi. Grunn- og leikskóladeild eru þátttakendur í verkefninu Bættur námsárangur á Austurlandi.

Gjaldskrá


ListadeildListadeild
Austurvegur 22
Sími : 470-2326
Netfang : vigdisklara@skolar.sfk.is
Vefsíða listadeildar
Deildarstjóri Vigdís Klara Aradóttir


Í Listadeild er lögð áhersla á skapandi starf. Í gegnum skapandi vinnu ná nemendur tökum á grunnþáttum sköpunarferlisins. Nemendur fá þjálfun í hugmyndavinnu, en með því að stunda slíka vinnu markvisst, oft og reglulega og á víðum grundvelli verður nemendum tamt að finna lausnir á vandamálum, sjá möguleika til uppbyggingar, nýsköpunar og sjá sig sem gerendur í eigin lífi.

Innan deildarinnar er unnið að list- og verkgreinum: Myndlist, textíl, smíðum, leiklist, dansi og tónlist. Leitast er við að kynnast helstu straumum og stefnum í hverri grein fyrir sig, en aðaláherslan er að hver nemandi finni sína fjöl með því að vinna að verkefnum undir faglegri leiðsögn kennara. Starf í listadeild fléttast inn í starf grunnskóladeildar sem og leikskóladeildar skólans og tekur kennsla og áherslur hverju sinni mið af aldri og þroska nemenda.

Eftir sameiningu skólanna er tónlistarskólinn nú hluti af Listadeild Seyðisfjarðarskóla. Gott samstarf er milli leik- og grunnskóla og listadeildar en eðli málsins samkvæmt verður samstarfið þróað og eflt í vetur. 

Gjaldskrá