Fjarðaheiðargöng

Seyðisfjarðargöng um Fjarðarheiði

Sáralítill munur er í vegalengd milli Neskaupstaðar og Egilsstaða eftir því hvort tenging upp á Hérað er með göngum undir Mjóafjarðarheiði eða Fjarðarheiði, munar um 1 km þar á milli og er styttra að fara undir Fjarðarheiðina. Sama á við um þéttbýlin Eskifjörð og Reyðarfjörð, það munar 1-2 km í vegalengd til Egilsstaða eftir því hvort farið er undir Fjarðarheiði eða Mjóafjarðarheiði.

1-2 km munur í vegalengd er ekki mikill og m.t.t. vegalengdar ætti það ekki að skipta íbúa þessara byggðarlaga miklu máli hvort hugsanleg tenging upp á Hérað færi undir Mjóafjarðarheiði eða Fjarðarheiði. Vegalengd frá Seyðisfirði til Egilsstaða um Fjarðarheiðargöng er áætluð um 21 -  27,5 km miðað við göng milli mismunandi munnasvæða, en 22 km miðað við munnasvæði sem hér eru valin til samanburðar. Vegalengd milli Seyðisfjarðar og Egilsstaða með göngum undir Mjóafjarðarheiði er um 36 km og er því um 14 km lengri en leiðin undir Fjarðarheiði.

Það gefur því auga leið að það munar miklu fyrir Seyðfirðinga að tenging fyrir byggðarlög við sjávarsíðuna upp á Hérað sé undir Fjarðarheiði. Með tengingu byggðarlaganna við Hérað með göngum undir Fjarðarheiði fæst mun betri hringtenging milli allra byggðarlaganna heldur en með tengingu undir Mjóafjarðarheiði. Með Mjóafjarðartengingu yrði Seyðisfjörður gerður að endastöð.

Í þessum samanburði eru sömu göng notuð til að tengja saman Seyðisfjörð og Mjóafjörð og Mjóafjörð og Fannardal (Norðfjörð). Munur í lengd jarðganga milli samgöngumynstranna liggur því fyrst og fremst í lengd ganga undir Fjarðarheiði og Mjóafjarðarheiði. Líkleg lengd ganga undir Fjarðarheiði er um 12,5 km á móti 9,2 km undir Mjóafjarðarheiði. Það munar því rúmum 3 km í lengd jarðganga milli samgöngumynstra. Göng undir Fjarðarheiði stytta hins vegar vegalengdina frá Seyðisfirði upp á Hérað umtalsvert samanborið við göng undir Mjóafjarðarheiði.

Sjá einnig